02.09.2008 22:50

Bókin hans Ara Trausta

                                             

496. Þegar ég gekk á þrjá tinda austan Siglufjarðar á föstudegi í Síldarævintýri fór það ekki fram hjá mér hve misjafnlega oft og mikið þeir eru greinilega gengnir.
Toppurinn á Hestskarðshnjúk var allur úttraðkaður og þar mátti sjá margs konar mynstur eftir skósóla að velflestum stærðum og gerðum. Slóðin sem ég fór þangað upp var líka talsvert troðin, þrátt fyrir að a.m.k. tvær algengar leiðir sé að ræða þarna upp og heildarfjöldi göngumanna hlýtur því að vera talsverður því hann skiptist á þær og e.t.v. fleiri. Vörðunni á toppnum hefur greinilega verið ágætlega við haldið af göngumönnum, þrátt fyrir að ekki sé mikið grjót að finna alveg í næsta nágrenni hennar.

Nú er Staðarhólshnjúkur ekki langt undan og ég sé ekki að það ætti að vera neitt minni ástæða að ganga á það myndarlega fjall. En þegar þangað var komið upp, var allt öðruvísi umhorfs en á hinu fyrrnefnda. Varðan var nokkru minni og greinilegt var að færri áttu leið um til að leggja sinn stein í hana. Engin fótspor var þar að sjá sem benti til þess að lítið sem ekkert hafi verið um heimsóknir eftir síðustu stórrigningu.

Þegar komið var á Hinrikshnjúk var ekki að finna nein ummerki um mannaferðir. Að vísu er toppurinn á þessu fjalli að mestu leyti ein klettaborg og það markar auðvitað illa í mosann og grjótið. En það eru þó til skjalfestar heimildir um a.m.k. einn mann sem lagði leið sína þarna upp fyrr í sumar, en ekki kæmi það mér á óvart að telja mætti þá sem drepa niður fæti árlega á Hinrikshnjúk á fingrum og tám.
Og þarna var ekki einu sinni varða.

Hálfum mánuði síðar var ég aftur staddur á Siglufirði og þá kom ágætur frændi minn í heimsókn. Hann er hin mesti göngugarpur og ég fæ stundum á tilfinninguna að hann gangi á flest þau fjöll sem á vegi hans verða. 
Það var þá sem ég fékk skýringuna á öllu þessu "misgengi" ef svo mætti segja.
"Ég er að hugsa um að skreppa upp á eitthvert skemmtilegt fjall í morgunsárið" sagði hann og spurði svo í framhaldinu um hvað það væri sem heimamaðurinn mælti helst með. Ég kom með nokkrar uppástungur og þar á meðal að ganga upp Stóra Bola, upp í Leirdali og þaðan upp á Hafnarhyrnu. Þetta leist honum vel á og hann gerði sig líklegan til að leggja af stað, en þá var eins og hann myndi eftir einhverju. Hann hljóp út í bíl og kom til baka með bókina hans Ara Trausta.
"Hvar er þessi Hestskarðshnjúkur" spurði hann þegar hann gekk aftur inn og nú með opna bókina.
Ég sagði honum það og þar með var hann farinn á Hestskarðshnjúk.
Ari Trausti tekur til umfjöllunar aðeins eitt fjall við Siglufjörð og þess vegna fara líklega flestallir þangað. Enn og aftur sannast að máttur bókarinnar er mikill.

Ég tel nokkuð víst að bókin sé eins konar "Biblía" fjölmargra gönguáhugamanna, og e.t.v. vegna þess að upplýsingar af þessu tagi eru af skornum skammti. Ég hef verið spurður um hvort einhvern bækling eða einhverjar upplýsingar sé að hafa um gönguleiðir við Siglufjörð, en því miður hefur verið minna um svör en ég hefði kosið. Ég hef bent mönnum að á vefnum http://www.fjallabyggd.is/ er undirsíðan http://fjallabyggd.is/is/page/gonguleidir þar sem er að finna ágætar lýsingar á fjölmörgum gönguleiðum í Siglufirði, Héðinsfirði og Ólafsfirði, þó heilmiklu sé hægt að bæta við með tiltölulega lítilli fyrirhöfn. Eins hinn nýtilkoma og hið frábæra framtak, örnefnavefinn http://snokur.is/ sem er góð viðbót fyrir þá sem vilja vita meira um hvert þeir eru að fara. En það ganga nú ekki allir með netið upp á vasann og eftir stendur að brýn þörf er á skemmtilegum og vönduðum bæklingi með myndum og lýsingum sem ferðamenn og fjallaklifrarar gætu nálgast t.d. á bensínstöðinni, í Samkaupum, á Síldarminjasafni og eflaust fleiri stöðum. Slíkt hlýtur að teljast verðugt verkefni fyrir þá sem vilja stuðla að öflugri ferðaþjónustu á staðnum. Ég held að það hljóti að teljast óumdeilanlegt að það er gríðarlega mikil vakning á þessu sviði um land allt og Siglufjörður getur auðveldlega staðið undir því að vera sannkölluð paradís áhugafólks um gönguleiðir og útivist, lengri sem skemmri ferðir og af velflestum erfiðleika og áreynslustigum. En það þarf að markaðssetja þessa auðlind, annars gerist í besta falli lítið eitt.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 292
Gestir í dag: 68
Flettingar í gær: 1391
Gestir í gær: 279
Samtals flettingar: 495669
Samtals gestir: 54686
Tölur uppfærðar: 26.12.2024 13:59:18
clockhere

Tenglar

Eldra efni