05.09.2008 01:49

Það er komið haust.

497. Í gær lagði ég leið mína á áður mér ókunnar slóðir, þó svo að þær séu ekki langt í burtu og eiginlega alltaf að færast meira og meira inn í borgina eftir því sem byggðin stækkar. Ég fór austur fyrir Rauðavatn og skammt suður frá nýju Moggahöllinni, en þar hafði mér verið sagt að væri að finna villt ribsber. Kannski ekki svo mjög villt í eðli sínu, heldur miklu frekar nokkra yfirgefna runna sem enginn hefði lengur óvéfengjanlega lögsögu yfir. Það reyndist allt saman rétt og satt nema að einhverjir hafa verið ögn fljótari á sér en ég. Runnarnir voru allir á sínum stað samkvæmt fenginni lýsingu, en berin voru hins vegar með öllu horfin. En á móti kom að það rann upp fyrir mér mikill og stór sannleikur. Hautið var mætt til starfa á þessum upphæðum Reykjavíkurlandsins, alveg samkvæmt almannakinu svo og löngu prentaðri dagskrá. En þar sem ribsberjavonir mínar brugðust með svo afgerandi hætti var ekki úr vegi að reyna einhvern vegin að bæta tjónið. Ég leit í kring um mig og sá að hér gat borið vel í veiði engu að síður. Ég var að venju með myndavélina upp á vasann og hóf heljarmikla skothríð í allflestar áttir. Afraksturinn má svo sjá hér að neðan og um hann er fátt eitt að segja nema að enn eitt sumarið er komið að fótum fram og það er greinilega farið að hausta að.

Og þegar þetta er skrifað reiknast mér til að það séu ekki nema 15 og ½ vika til jóla. Svo á ég líka bráðum afmæli og þá bætist enn eitt árið í safnið, en það er nú hin síðari ár orðið einna líkast því að fá sendinu af einhverju sem maður hefur alls ekki pantað.
En svona er lífið og það sem á eftir fer...





























Ég hitti svo einn ágætan kunningja minn í gærkvöldi og sagði honum af ferðinni upp að Rauðavatni.
"Það er eins og mig minni að það séu einhver ber í garðinum hjá mér. Þú mátt tína þau öll ef þú nennir því."
Í dag var svo farið og umræddur garður kannaður. Þar reyndust vera ógrynni af berjunum rauðu. Það var týnd heil fata af ribsberjum, eða heil fimm kíló á u.þ.b. einum og hálfum tíma.



Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 505
Gestir í dag: 107
Flettingar í gær: 1391
Gestir í gær: 279
Samtals flettingar: 495882
Samtals gestir: 54725
Tölur uppfærðar: 26.12.2024 15:25:38
clockhere

Tenglar

Eldra efni