04.10.2008 03:38

Clapton, Janis Joplin og Hjaltalín.



503. Ég hafði alltaf hugsað mér að minnast lítillega á tónleikana sem ég sótti þegar gítargoðið Eric Clapton mætti til leiks í sumar sem leið. Þau eru ófá topplögin sem þessi hæfileikaríki tónlistarmaður hefur sent frá sér í gegn um tíðina, svo að ég eins og eflaust flestir aðrir sem þarna voru höfðu byggt upp talsverðar væntingar.
Ellen Kristjánsdóttir ásamt hljómsveit sem samanstóð að stórum hluta af nánustu fjölskyldumeðlimum komst í raun ágætlega frá sínu, en náði ekki sérlega vel til áheyrenda. Ástæðuna tel ég vera þá að hún var að flytja nýtt efni (utan eitt eða tvö lög) sem var ekki sérlega auðmeltanlegt við fyrstu hlustun, auk þess að vera  annað og öðruvísi en flestir bjuggust við eða jafnvel vonuðust til að heyra. 
En þar kom að Clapton steig á svið og salurinn fagnaði ógurlega. Goðið hóf leik sinn og hver blúsinn rak annan og sumir með löngum "improviseruðum" gítarsólóum eins og við var að búast. Aðeins eitt lag frá Cream-tímabilinu var á lagalista kvöldsins (Crossroads) sem er allt, allt of lítið. Þegar svona listamaður mætir til leiks, þenur gígju sína og stígur á stokk Frónbúans, má vita að mæting verður með ágætum. En það má líka reikna með því og það fastlega, að þeir 15 eða 16 þúsund áheyrendur sem voru saman komnir í Egilshöllinni til að hlýða á sjálfan "Slow hand" og margir hverjir gera bara einu sinni á ævinni, vilji fá að heyra það sem maðurinn er þekktur fyrir. Það sárvantaði lög eins og Layla, Lay down Sally, I shot the sheriff, Swing low, Change the world, My father´s eyes, Tears in heaven svo nokkur séu nefnd. Fyrir utan Crossroads, voru Coacain og Wonderful tonight þau einu sem ég man eftir af áðurnefndu kalíberi. Það var rosalega heitt og loftlaust í höllinni, en hvort sem það var út af því eða einhæfu lagavalinu fór gestum ört fækkandi þegar leið á. Það vantar ekkert upp á að allir þeir sem fram komu voru alveg ótrúlega vel spilandi, en þessir tónleikar eru ekki þeir skemmtilegustu sem ég hef farið á. Ég held að ef þessi mikli meistari mætir aftur til leiks, þá þurfi hann ekki á Egilshöll að halda. Kaplakriki gæti alveg dugað.  



Janis Joplin.

Ég man ennþá hvar ég var staddur
þegar ég heyrði í Janis Joplin í fyrsta skipti. Ég var aðeins 15 ára gutti, það var laugardagur, hásumar og sólin hellti geislum sínum yfir lönd og höf. Árið var 1971 og ég stundaði sjóinn með Svenna Björns og Hafþóri Rósmunds á Gullveigunni sem var 12 tonna dekkari. Við vorum  á góðu reki, undir var boltaþorskur, það var fiskur á hverju járni og langbylgjan flutti okkur fréttir Ríkisútvarpsins. Í þá daga var fréttaflutningur af Viet Nam stríðinu fyrirferðarmestur allra frétta, en að þeim loknum var útvarpað veðurfregnum. Richard M. Nixon var forseti Bandarríkjanna, Kristján Eldjárn sat í því embætti á Íslandinu góða og Óli Jó. var forsætisráðherra. Vinsælasta lagið þetta ár var Joy to the world með Three dog night, Rod Stewart sem var að hætta í Faces og hefja sólóferil sinn kom fram á sjónarsviðið með Maggie May, Rolings Stones gáfu út LP vinylinn Brown Sugar og Bítillinn George Harrison lagið My sweet lord.
 
Að loknum fréttunum byrjaði einhver poppþáttur á "Gufunni" sem gæti hafa heitið "Áfangar" og þar var kynnt platan "Pearl" með söngkonunni Janis Joplin. Platan kom út nokkru eftir að söngkonan lést og ég man vel eftir laginu "Mercedes Benz" sem var spilað í umræddum þætti og var tekið upp aðeins fjórum dögum fyrir lát hennar. Mér kom þessi hippalega acapello útsetning undarlega fyrir eyru og boða að ýmsu leyti nýja tíma. Þegar ég kom í land var það eitt fyrsta verk mitt að hringja í plötubúðina "Hverfitóna" og panta þessa Perlu. Segja má að ég hafi síðan hlustað á þessa plötu þangað til "lagið hinum megin heyrðist í gegn" eins og ágætur maður orðaði það svo skemmtilega eitt sinn. Enn í dag finnst mér Janis Joplin vera langmest töff allra söngkvenna sem nokkru sinni hafa komið fram og standa vel undir titlinum "hippi allra hippa."

Þann 25. september hóf að nýju göngu sína þátturinn "Uppruni tegundanna" á Rás 2 eftir að hafa verið í svolítilli hvíld í sumar. Þar er núna fjallað um það sem umsjónarmaðurinn Kristinn Pálsson nefnir "Helgimyndir hippatímans." Hefst hann á umfjöllun um hina kannski svolítið vafasömu ímyndardrottningu, erkihippann en ótrúlegu söngkonu Janis. Slóðin þangað er 
http://dagskra.ruv.is/streaming/ras2/?file=4446669 Framhaldið er svo finnanlegt á http://dagskra.ruv.is/streaming/ras2/?file=4446670 en þar er fjallað um endalokin. Þættirnir ættu að vera skylduhlustun hjá öllum þeim sem hafa áhuga á góðu blússkotnu rokki.

Þeir sem guðirnir elska deyja ungir...
Hún hlýtur að hafa verið mikið elskuð af þeim því hún sem lifði bæði stutt og hratt og náði aðeins 27 ára aldri. En það virðist vera einhvers konar örlög allt of margra þeirra sem markað hafa djúp spor í poppsöguna því gítarhetjan Jimi Hendrix, Jim Morrison úr Doors, Kurt Cobain úr Nirvana og Brian Jones úr Rolling Stones voru einnig 27 ára þegar jarðvist þeirra lauk langt á undan áætlun.



Hjaltalín.

"Þú komst við hjartað í mér"
hefur verið eitt mest spilaða lagið á rás 2 undanfarið og rétt áður en ég lagði af stað á Catalinu í gærkvöldi (föstudag) heyrði ég það einmitt í útvarpinu og lagði við hlustir. Ég leitaði síðan textann uppi á netinu og prentaði hann út, en áður en opnað var inn í danssalinn á þeim bæ náðum við Axel að fara einu sinni yfir lagið. Það varð að duga og gerði það líka því við lagasmíðina hefur einfaldleikinn greinilega verið hafður í fyrirrúmi, en um kvöldið var þessi skemmtilega lumma svo spiluð sundur og saman. Í leit minni af textanum gúgglaðist upp á skjáinn mjög athyglisverð upptaka af laginu flutt af Hjaltalín, en slóðin þangað er http://www.youtube.com/watch?v=VqrnG25bsXU
fyrir lysthafendur.


Og til gamans læt ég textann fylgja svo að ljóðafíklar geti vegið hann og metið út frá "fagurfræðilegu sjónarmiði."

Og þegar þú komst inn í líf mitt breyttist ég.
Þú komst, þú komst við hjartað í mér.

Ég þori að mæta hverju sem er.

Þú komst, þú komst við hjartað í mér

 

Á diskóbar ég dansaði frá sirka tólf til sjö.
Við mættumst þar, með hjörtun okkar brotin bæði tvö.

Ég var að leita að ást, ég var að leita að ást.

Og þegar þú komst inn í líf mitt breyttist ég.
Þú komst, þú komst við hjartað í mér

Ég þori að mæta hverju sem er.
Þú komst, þú komst við hjartað í mér.

 

Það er munur á að vera einn og vera einmanna.

Ég gat ei meir, var dauðþreyttur á sál og líkama.

Ég var að leita að ást, ég var að leita að ást.

Og þegar þú komst inn í líf mitt breyttist ég.
Þú komst, þú komst við hjartað í mér.

Ég þori að mæta hverju sem er.
Þú komst, þú komst við hjartað í mér.

Sem betur fer þá fann ég þig hér.

Sem betur fer þá fann ég þig hér.

Sem betur fer þá fann ég þig hér.

 

Á diskóbar.

- - -

Að þessu sinni mætti eins og svo oft, ein að fastagestunum sem er eiginlega orðin svolítil vinkona okkar. Hún er bæði dansglöð með afbrigðum og svo heldur sig gjarnan alveg við pallinn hjá okkur. Í sjálfu sér er það hið besta mál að öðru leyti en því að hún tekur hressilega undir í hverju einasta lagi sem er öllu verra. Bæði liggur henni óvenju hátt rómur og svo man ég ekki til þess að hún hafi nokkru sinni hitt á einn einasta rétta tón. Axel hefur nokkrum sinnum gert við hana sértækt samkomulag undir fjögur augu sem gengur út á það eitt að hún syngi alls ekki meðan hann syngur, og hún hefur sýnt honum allan sinn skilning á málinu og samþykkt bón hans. En að sjálfsögðu á hún það til að gleyma sér um leið og hún er komin í  "verulega góðan fíling" og þá hefur Axel farið út af laginu með það sama.

Ég hef reynt að finna út hve langt henni getur tekist að fjarlægjast hina réttu melódíu og sýnist mér að um sé að ræða hækkaða ferund eða minnkaða fimmund (sem er það sama) í því sem næst hvert einasta sinn, sem verður að teljast í það minnsta mjög athyglisvert ef ekki hreint og klárt afrek. Dæmi um þetta tónbil er t.d. þegar látið er hljóma saman C og Fis, G og cis eða E og bes, en lengra verður ekki komist frá grunntóninum í skalanum. Fyrir nokkrum árhundruðum var það kallað tónbil Djöfulsins og alfarið bannað í allri kirkjutónlist. Í dag er hins vegar allt leyfilegt og segja má að dim-hljómur sé t.d. myndaður úr tvöfaldri minnkaðri fimmund. En þess má einnig geta að venjulegur maður með sæmilegt tóneyra getur tæpast með góðu móti haldið einfaldri laglínu með öðrum í umræddri fjarlægð nótnalega séð.

Skemmst er frá því að segja að þegar sú sem um er rætt heyrði þetta vinsæla lag, kættist hún mjög og tók vel undir í söngnum, okkur á pallinum til lítillar gleði.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 583
Gestir í dag: 115
Flettingar í gær: 1391
Gestir í gær: 279
Samtals flettingar: 495960
Samtals gestir: 54733
Tölur uppfærðar: 26.12.2024 17:12:50
clockhere

Tenglar

Eldra efni