10.11.2008 09:09

Selaveisla



511. Síðast liðinn laugardag var haldin hin árlega Selaveisla í Haukahúsinu og voru þar mættir vel á þriðja hundrað manns. Skýringin á nærveru minni var fyrst og fremst sú að ég spilaði þarna undir borðum og Vanir Menn léku síðan að borðhaldi loknu gömlu og nýju dansana eins og það var orðað upp á gamla mátann fram á nótt. Að þessari samkomu standa núverandi og fyrrverandi eyjabændur úr Breiðafirði ásamt afkomendum og er þetta 16. árið sem þessi viðburður á sér stað. Hér að ofan er Árni sem er einn helsti áhuga og hvatamaðurinn að viðburðinum setja samkomuna.



Veislustjórinn Tryggvi átti marga góða spretti í ræðupúltinu.



Guðmundur stjórðnaði fjöldasöng af mikilli röggsemi.



Aðstoðarkokkarnir voru enn að vinna að undirbúningi eftir að gestir voru allir mættir, sestir inn í sal og hlýddu á ræðumenn.



Gummi og Binni lögðu síðan blessun sína að lokum yfir krásum hlaðið borðið.



Þetta rétt slapp til og Gummi hljóp frá borðinu og upp í púlt þar sem hann útlistaði matseðilinn í smáatriðum og bað síðan fólk að gera svo vel. En þrátt fyrir að félagsskapur eyjabænda sé skrifaður fyrir uppákomunni, er það er Guðmundur Ragnarsson fyrrverandi landsliðskokkur með meiru sem er maðurinn á bak við allt. En Guðmudur hefur rekið eldhúsið í myndveri Latabæjar undanfarin ár auk þess að fylgja Saga-film í allar veigameiri kvikmyndatökur sem það fyrirtæki stendur að. Hann hefur því m.a. eldað fyrir James Bond við Jökulsárlón og Löru Croft upp á Vatnajökli. Auk þessa tekur hann að sér að sjá um veislur af öllum stærðum og gerðum. Guðmundur er sonur Ragnars Guðmundssonar eiganda veitingastaðarins Lauga-ás.



En allt hráefni kemur frá Breiðafjarðareyjum eða upp úr sjónum í kring um þær.



Selur er fyrirferðamestur á matseðlinum, en þar má einnig finna fugl, fisk, lamb og fleira.



Flest af því sem þarna var sést sjaldan eða jafnvel aldrei á borðum á venjulegu Íslensku heimili.



Það er auðvitað ekki sama hvernig fóðrið er framreitt. Gummi er listakokkur og kann að gera veislumat úr öllu því hráefni sem hann kemur höndum yfir.



Marinerað, kryddlegið, súrt og þurrkað selkjöt ásamt alls konar meðlæti.



Og svo er bara að bíða fram að næstu Selaveislu sem verður samkvæmt hefðinni annan laugardag í nóvember árið 2009.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 216
Gestir í dag: 38
Flettingar í gær: 1391
Gestir í gær: 279
Samtals flettingar: 495593
Samtals gestir: 54656
Tölur uppfærðar: 26.12.2024 13:37:52
clockhere

Tenglar

Eldra efni