15.12.2008 17:39
Tímarnir breytast
522. Það er til marks um tíma sem nú eru að mestu leyti að baki, að verklýsing ræstingafólks í sameign fjölbýlishússins þar sem þetta blað hékk uppi verður að vera bæði í íslensku og pólsku. Það er að segja ef verkið á að vinnast á annað borð og skilaboðin að skiljast þeim sem fást til að vinna það fyrir "rétt" verð. Það er svo annað mál hvort einhverjar ályktanir er rétt að draga t.d. af þeirri stafsetningarkunnáttu sem blasir við þeim sem plaggið lesa og í framhaldi af því spurning hvort hönnuðir skjals þessa eru heppilegir "frontar" fyrir aðra. Fyrir hreint ekki svo ýkja löngu fengust nefnilega ekki svo margir til að taka að sér þau störf sem hér er lýst og varð að flytja inn ódýrara vinnuafl m.a. til þess að halda húsum okkar þokkalega þrifalegum. Við hinir innfæddu vorum nefnilega svo endalaust uppteknir við önnur og miklu merkilegri störf. En nú hefur skipast veður í lofti og það svo um munar, rétt eins og sjá má þegar biðlistar eftir umönnunarstörfum svo og við sorphirðu eru skoðaðir. Fyrrum yfirstéttin lækkar óðum flugið og leitar eftir fótfestu á móður jörð, en fellur oftar en ekki kylliflöt í leirugum drullupolli og forarvilpu sem er tilkominn vegna fyrri gerða hennar. Og hún er þá gjarnan með þessa bergmálandi tómleikatilfinningu í galtómu höfðinu þar sem hugsanirnar eiga að vera. Þeir sem áður bjuggu
Ég gat ekki annað en glott aulalega í áttina að hægra eyranu þegar ég heyrði auglýsingu í útvarpinu skömmu eftir að búið var að breyta landinu í efnahagslegt gettó, fjölmörgum úthverfum "stór-Sódómu" í mannlaus draugaþorp og leggja auk þess niður því sem næst heilu atvinnugreinarnar.
"Öll almenn bankaviðskipti hratt og örugglega þegar þér hentar, - Landsbankinn."
Hahaha...! Þessi var góður.
En það skipti svo sem engu máli hvaða banki það var sem auglýsti að þessu sinni, því allir hafa þeir nýverið lent á lungandi kennitöluflakki eftir erfitt og langvarandi gerfipappírsfyllerí sem steig þeim svo til höfuðs að allar hugsanaleiðir tepptust rétt eins og kransæðar sem fylltar hafa verið af mæjónessi sem komið var langt fram yfir síðasta söludag.
En það er svo annað mál að rétt eins og Kynlífsbiblían er höfuðbók graðnaglans, byssur og bænahald er helsta áhugamál Kanans og Kínverskt lýðræði er ekki til, mun fátt annað gerast á næstu árum og áratugum en að vinnulúin þjóð mun standa eftir snauðari en áður og gjalda fyrir "ekkertið" eins og það er kallað í þekktu ævintýri, með svita sínum og tárum.
Líklega mun okkur í framtíðinni finnast slíkar heimildir sem hér að ofan má sjá, minna óþægilega á horfna tíma þegar þjóðin var látin lifa í innistæðulaustum vellystingum og það praktuglega án þess að vita hve hár reikningurinn yrði þegar henni skyldi klappast á bakið og hún tæki ropann sinn eftir gjöfina. Með sorg í hjarta, brenglaða siðferðisvitund og niðurbælda reiði sem mun aldrei fá útrás nema upp í beljandi storminn, munum við líka örugglega einhvern tíma í framtíðinni horfa upp á söguna endurtaka sig.
En í framhaldi af þessum vangaveltum er ein ábending til þeirra sem eru vantar hugmynd að heppilegri jólagjöf en dettur hreinlega ekkert í hug.
Gefðu ástvinum aflátsbréf í Jóla eða áramótagjöf
3. flokkur 2000. krónur - 2. flokkur 5000. krónur - 1. flokkur 15000. krónur
3. flokkur er fyrir hinn almenna syndara og kostar aflausnin 2000 krónur.
Er fyrir léttvægar syndir eins og hvítar lygar og óhreinar hugsanir.
2. flokkur er fyrir þá sem hafa drýgt stærri syndir og kostar fyrirgefning stærri synda 5000 krónur. Er fyrir stærri syndir eins og þjófnaði, framhjáhöld og ölvun á almannafæri.
1. flokkur tryggir kaupandanum syndaaflát fyrir allar syndir smáar sem stórar, jafnvel dauðasyndir. Einnig eru innifaldar syndir sem enn hafa ekki verið framdar svo og smærri misgjörðir sem gleymst hafa. Fyrsta flokks kostar aflátsbréf 15000 krónur.
Aflátsbréfin eru hægt að panta í síma 6929526
og eru þau einnig fáanleg á Þýsku og Ensku
Allur ágóði af aflátsbréfunum rennur í Ríkissjóð.