08.01.2009 01:35
Skrýtin frétt
527. Í fréttatíma Stöðvar 2 í kvöld (7. jan.) var frétt sem fékk mig heldur betur til að sperra eyrun. Hún fallaði um mál sem yfirleitt er ekki mikið haldið að fjölmiðlum og margir fjölmiðlar halda sig jafnvel frá. En þegar það gerist að slíkt ratar í fréttir, þá eru andlit þeirra sem um er fjallað nánast undantekningalaust ekki sýnd og nöfn ekki birt. Það var því fyrst og fremst framsetning fréttarinnar sem kom mér undarlega fyrir sjónir því þarna var nálgunin við efnið með talsvert öðrum hætti en venja er til. Ekki var kafað ofan í sjálfa undirrótina eða velt upp raunverulegum ástæðum málsins, heldur var engu líkara en reynt væri að forðast að gára yfirforðið um of. Þarna mátti sjá minn fyrrverandi vin og félaga ganga fram og til baka í mynd með síma límdann við eyrað og fór hann mikinn. Inni í fréttina var svo fléttað örstuttum viðtalsstubb þar sem hann svarði af sér meintar misgerðir sínar, setti sjálfan sig í hlutverk fórnarlambsins og kenndi öðrum um það sem miður hafði farið. Fréttin virðist sett saman og unnin beinlínis til að afla málstað hans fylgis og ekki vera farin sú hefðbundna og faglega leið svo sem eins og að leita eftir viðbrögðum frá gagnaðila, eða þá einhverjum þeim sem gætu haft eitthvað við málflutninginn að athuga. Útkoman varð því líkust illa dulbúinni auglýsingu sem var pöntuð á staðinn rétt eins og jólasveinninn forðum hjá þeim félögum Glám og Skrám. Ég hef reyndar lengi búist við að þetta mál myndi springa fram með miklum látum t.d. í DV eða Kompás, en ekki þeim silkimjúka hætti sem raunin varð á í kvöld.
Því má svo bæta við að síminn hjá mér hringdi látlaust í langan tíma á eftir þar sem menn voru ýmist að spyrja hvort ég hefði verið að horfa á fréttirnar, eða fá staðfest hver þarna hefði verið til umfjöllunar. Fréttina ásamt myndskeiði má sjá á http://www.visir.is/article/20090107/FRETTIR01/445738736
Skrifað af LRÓ.