09.01.2009 18:12

Kostnaðarauki í krepputíð

528. Það eru ekki allir sammála um ágæti þess að setja lög um vanskilagjöld, innheimtukostnað og annað það sem hleðst á ógreidda reikninga þeirra sem kreppan fer illa með eins og við er að búast. Talsmaður neytenda telur lögin mikla réttarbót meðan forsvarsmenn hagsmunaaðila svo sem innheimtufyrirtækja, gefa það í skyn að þeir muni hugsanlega svara með því að senda kröfur strax í dýrara innheimtuferli, þ.e. beint til lögfræðinga og sleppa milliinnheimtu. Milliinnheimtufyrirtæki eins og Intrum, Momentum og Veita hefur verið líkt við eins konar peningatrektir fyrir eigendur sína þar sem skrifstofufólk vinnur formúlu og færibandavinnu þar sem "arðurinn er fjöldaframleiddur" eins og ágætur maður orðaði það. En líklega eru þeir sem slíku halda fram, einmitt hinir sömu og halda þessum fyrirtækjum gangandi með tíðum "framlögum" sínum. En oft hefur vaknað spurning um hvernig kostnaðarliðir eru reiknaðir út og hvaða raunveruleiki stendur að baki hverrar tölu fyrir sig þegar saman koma liðir á einu og sama blaðinu eins og t.d. dráttarvextir, vanskilakostnaður, innheimtukostnaður, annar kostnaður og tilkynningargjald. Ef spurt er út í hvaða raunkostnaður búi að baki hvers liðar fyrir sig verður stundum fátt um svör og að manni læðist sá grunur að hin endanlega tala geti verið að einhverju leyti til komin án þess að efnislegar forsendur liggi þar að baki.

 

En sem dæmi um kostnaðarauka frá milliinnheimtu...

Síðasta greiðsla fasteignagjalda frá hinu ágæta sveitarfélagi Fjallabyggð féll í gjalddaga þ. 1. sept sl. og í eindaga mánuði síðar eða þ. 1. okt. En greiðsla barst ekki fyrr en 56 dögum síðar eða þ. 26. nóv. en þá hafði milliinnheimtufyrirtæki fengið kröfuna til meðferðar. Nú má deila um hvort 56 daga vanskil séu mikil eða lítil og hvernig beri að taka á því máli m.a. í ljósi aðstæðna í þjóðfélaginu eins og það er í dag, en niðurstöðutölurnar urðu alla vega eftirfarandi:

Upphaflegur höfuðstóll          kr.   8.116

Samanlagður kostnaður       kr.   8.703

Samtals                                  kr. 16.819

Hækkunin þessa 56 daga varð því tæp 108%

 

En t.d. í Reykjavík virðist þessu nokkuð öðruvísi farið sem kemur kannski einhverjum á óvart. Þar virðist hafa verið ákveðið að fresta því að senda gjöldin í kostnaðarsama innheimtu þar til fram í janúar. Ástæðan sem gefin er ef um er spurt, er sögð sú að margur maðurinn eigi bara nóg með sitt um þessar mundir.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 71
Gestir í dag: 5
Flettingar í gær: 1119
Gestir í gær: 165
Samtals flettingar: 496567
Samtals gestir: 54788
Tölur uppfærðar: 27.12.2024 03:44:22
clockhere

Tenglar

Eldra efni