14.01.2009 21:30

Það þarf stundum að passa sig á stelpunum



530. Þær bjuggu í litlu þorpi á einhverjum ónefndum stað
einhvers staðar langt úti í heimi, þessar fjórar vinkonur sem höfðu þekkst allt sitt líf. Þegar þarna var komið sögu voru þær löngu komnar af léttasta skeiði og fluttar inn á dvalarheimili fyrir aldraða, en af þeim sem þekktu til þeirra yfirleitt kallaðar tölvugengið. Það var vegna þess að ein þeirra hafði komist upp á gott lag með að nota slíkan grip og gerði það líka óspart. Vinkonurnar sátu þá gjarnan hjá henni og fylgdust spenntar með því sem á alnetinu var að finna. Þær sátu einmitt á bekk fyrir framan elliheimilið einn sólríkan sumardag og voru að skoða myndir af fáklæddum og vöðvastæltum ungum mönnum þegar eftirfarandi atburður átti sér stað.

"Sjáðu þennan," hvíslaði ein þeirra hás af spenningi.

"Já," svaraði sú næsta skjálfandi röddu og tinaði óvenju mikið.

"Það voru ekki til neinir svona strákar þegar við vorum ungar, eða ég man ekki eftir því"

Nokkur stund leið í þögn en augu þeirra hvíldu fast á skjánum.

"Hvað þýðir fitness" spurði sú þriðja.

"Það er bara einhver útlenska" svaraði sú fjórða.




Þær voru allar orðnar svolítið örar og jafnvel lítillega rjóðar í kinnum þegar Grettir gamli átti leið hjá, en hann var elstur allra í þorpinu. Hann gaut til þeirra augunum og hrukkaði ennið jafnvel enn meira en venjulega.

"Smástelpufliss," muldraði hann og hélt áfram göngu sinni.

Þær litu snöggvast upp og heilsuðu Gretti glaðlega.

"Og nú vitum við hvað þú ert orðinn gamall Grettir minn" sagði sú hása.

"Hvurnig ættuð þið sosum að vita það" umlaði hann.

"Við förum nú létt með að sjá það út" sagði sú með skjálfandi röddina og gaf þeirri hásu olnbogaskot sem var ótvírætt merki um að nú ætti hún að steinþegja.

"Við notum nefnilega árhringjaaðferðina" bætti hún við.

Grettir vissi ekkert hvað það var en þar sem hann var hreint ótrúlega forvitinn að eðlisfari, staldraði hann við og snéri sér að þeim.

"Jæja, út með sprokið" sagði hann og dró neðri kjálkanum inn fyrir þann efri og japlaði á neðri vörinni.

"Þetta er nú ekki alveg svona einfalt Grettir minn, þú verður fyrst að fara úr buxunum svo við getum talið árhringina" sagði sú þriðja.

"Bölvuð ekkisen vitleysa, þið eruð bara gamlar ruglaðar kerlingar."

Grettir bjóst nú til að halda áfram göngunni, nema núna gekk hann í áttina sem hann hafði komið úr, því hann gat ómögulega munað hvaðan hann var að koma eða hvert ferðinni hafði í upphafi verið heitið.

Grettir var nefnilega orðinn svo gleyminn að til vandræða horfði.

"Viltu veðja" spurði sú fjórða.

Hún vissi að sá gamli var mjög veikur fyrir öllu slíku og sá í hendi sér að þarna gæti eitthvað mjög skemmtilegt átt eftir að gerast ef fram héldi sem horfði.

Grettir snarstoppaði og þreifaði í vösum sínum en fann bara einn hundraðkall.

"Við leggjum þúsundkall á móti hundraðkallinum" skrækti sú hása.

Það hreif, en Grettir var nokkuð lengi að bisa við að komast úr buxunum því hann var ekki vanur að þurfa að gera það hjálparlaust.

Vinkonurnar á bekknum fylgdust með hverri hreyfingu hans af mikilli athygli og hvöttu hann óspart áfram.

"Þú verður líka að fara úr nærunum" hvein í þeirri hásu sem nú var staðin upp til hálfs og néri saman höndunum.

Grettir hikaði aðeins en þegar þær veifuðu þúsundkallinum ögrandi lét hann sig hafa það.

"Dauðir hrafnar detta ekki úr hreiðrinu" umlaði hann um leið og nærhaldið féll á grasflötina.

"Nú verður þú að snúa þér í nokkra hringi" kumraði sú þriðja.

Hún hló niðurbældum hlátri sem hún reyndi að halda niðri í sér sem hljómaði ekki ólíkt og kind að jarma í fjarska.

"Og svo verður þú að snúa þér að okkur og hoppa nokkrum sinnum" ískraði í þeirri fjórðu.

Þetta reyndist þeim gamla nokkuð erfitt og að endingu datt hann á rassinn. Hann stóð þó upp aftur þó svo að það tæki drjúga stund og hoppaði svolítið meira. Og þegar þær höfðu látið Grettir gamla gera nokkrar undarlegar æfingar til viðbótar kváðu þær upp samhljóða úrskurð.

"Þú ert 87 ára" og núna ætluðu þær alveg að rifna úr hlátri, slógu sér á bæði lærin og tóku mikil bakföll.

"Hvernig í skrambanum gátuð þið vitað það" spurði sá gamli steinhissa og þó nokkuð skömmustulegur, því nú leit hann upp og sá að það var andlit klesst fast upp að nærri því hverri einustu rúðu í húsinu auk þess sem tveir starfsmenn komu hlaupandi út og bar hratt yfir.

"Af því að þú bauðst okkur í afmælið þitt í gær!" hvein í vinkonunum.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 174
Gestir í dag: 19
Flettingar í gær: 1119
Gestir í gær: 165
Samtals flettingar: 496670
Samtals gestir: 54802
Tölur uppfærðar: 27.12.2024 04:28:03
clockhere

Tenglar

Eldra efni