23.01.2009 00:19

Þorrablót á Tálknafirði


Mynd bshar.

533. Helgina 24. jan. var spilað á þorrablóti vestur á Tálknafirði. Ef allt hefði verið með eðlilegum hætti hefðum við lagt að stað á laugardegi og siglt með Baldri yfir Breiðafjörðinn þann dag, en því var nú aldeilis ekki að heilsa. Við urðum að fara deginum áður, eða keyra að öðrum kosti alla leiðina sem okkur þótti enn síðri kostur. Sæferðir sem reka ferjuna, aflýstu nefnilega laugardagsferðinni vegna viðhalds og skoðunar, þrátt fyrir að vitað væri að fjöldi burtfluttra suðurfirðinga hafi hugsað sér að mæta á heimaslóðir þessa helgi í súrmat og tilheyrandi. Og þessi breyting kom ekki aðeins illa við Tálknfirðinga, heldur var líka verið að blóta Þorra á Patreksfirði þessa sömu helgi. Ég hafði nokkur orð um þjónustulund þeirra Hólmara þegar ég frétti af þessarri breytingu á áætlun, en ferjan á heimahöfn á Stykkishólmi og siglir þaðan. Ekki verður sagt að þeir fyrir vestan hafi verið ýkja hrifnir af tímasetningunni sem valin var til verksins og höfðu á orði að skilningur hefði löngum verið af skornum skammti á þeim bænum, því Hólmarar notuðu sjálfir ekki ferjuna að neinu marki af skiljanlegum ástæðum. En hvað um það, við vorum samferða hljómsveitinni Sólon yfir fjörðinn á föstudeginum, en hún var á leið til Patreksfjarðar í sömu erindagjörðum og við á Tálknafjörð.

Spáin var ekki kræsileg nema síður væri, en við vorum pantaðir rétt eins og jólasveinninn forðum svo ekki þýddi að fást um hana. Mér varð hugsað til þess að líklega væru nægar birgðir af ælupokum um borð í Baldri, en það kom til allrar hamingju ekki til þess að það reyndi á þá birgðastöðu. Það er nefnilega svo langt síðan sá sem þetta ritar hefur stigið ölduna að einhverju marki eða hart nær 40 ár síðan sjómannsferlinum lauk sem var reyndar skömmu eftir að hann byrjaði.



Eftir tæplega tveggja tíma siglingu var lagst að bryggju í Flatey. Það reyndist ekkert hlaupið að því að taka myndir af dekki og niður á bryggjuna, því snarpar vindkviður urðu til þess að myndirnar reyndust við nánari skoðun allar vera mismunandi mikið hreyfðar en þessar voru þó skástar.



Á wikipedia má lesa eftirfarandi:
"18. júní 1777 varð Flatey kauptún og hófst verslun þar sama ár. Verslunarsvæðið náði yfir Vestureyjarnar og sveitirnar sveitirnar á Barðaströnd. Í byrjun 20. aldar gekk svo vélbátur milli Flateyjar og hreppanna í Barðastrandar- og Dalasýslu.Kaupfélag Flateyjar var sett á laggirnar 1920 lítið í byrjun en stækkaði til muna þegar verslun Guðmundar Bergsteinssonar lagðist af. Kaupfélagið verslaði og stundaði viðskipti fram yfir 1950. Milli 1940 og '50 voru stofnuð útgerðar og hraðfrystingarfélög. Frystihúsið á Tröllenda var byggt og jafnframt bryggjan, en atvinnureksturinn mætti halla á leið sinni og lognaðist fljótt út af. Um aldamótin 1900 stóð byggðin í Flateyjarhrepp í sem mestum blóma og voru íbúarnir allt að 400."




Á Tálknafirði var okkur tekið með kostum og kynjum, komið fyrir í þessu frábæra gistiheimili sem heitir Bjarmaland og ég mæli hiklaust með og ekki verður annað sagt en að þorrablótsnefndarmenn hafi verið höfðingjar heim að sækja.



Pollurinn er vægast sagt frægur staður. Meira að segja ég sem er alveg skítvatnshræddur, hef heyrt mikið um hann skrafað. Hann stendur svolítið fyrir ofan veginn og u.þ.b. 5 km. fyrir utan þorpið. Á vefnum http://www.talknafjordur.is/talknafjordur/ er að finna eftirfarandi klausu. "Pollurinn hefur borið hróður Tálknafjarðar víða því þar hefur oft verið gestkvæmt auk þess sem heita vatnið úr borholu sem boruð var þar 1977, er leitt í sundlaugina auk þess sem vatnið er einnig notað til að hita upp íþróttahúsið og skólann."

Axel lét ekki segja sér það tvisvar og skellti sér í pottinn. Hann hefur líklega verið flóðhestur, selur, otur, bjór eða einhver undarleg vatnalífvera í fyrra lífi og sleppir aldrei degi úr þegar laugar og heitir pottar eru annars vegar.



En þó að ekki væri slæmt veður þarna á ströndinni rauk hann upp úti á firði þar sem skjóls naut síður af fjöllunum.



Meðan Axel var í heita pottinum skrapp ég yfir til Patreksfjarðar, klifraði upp á endann á lágu felli sem skiptir Mikladal og strönd fjarðarins og tók nokkrar myndir inn og út fjörðinn. Þær tókust því miður ekki sem skyldi því birtu var nokkuð tekið að bregða. 



Þegar ég kom aftur frá Patreksfirði hafði Axel bæst liðsauki. Reyndar sagði hann mér að það hefði vrið talsvert rennerí í og úr þessarri lystisemd og manngerðu náttúruperlu. En þarna var ekki annað sjá en að menn hafi farið nokkuð létt með að finna út hver sameiginleg áhugamál þeirra væru.



Um kvöldið var svo mætt til leiks í hið glæsilega íþróttahús sem jafnframt er nýtt sem félagsheimili. Við hlið þess stendur svo gamla samkomuhúsið sem ég spilaði í síðast þegar ég var þarna á staðnum, en það mun hafa verið upp úr 1990. Axel kannaðist líka vel við það frá Deildarbungubræðra og Tilveruárum sínum. Þetta hús heitir Dunhagi, var byggt árið 1933, en er nú í eigu Kvenfélagsins á staðnum.



Fráfarandi nefnd stóð sig með mikilli prýði. Þarna var valinn maðuir í hverju rúmi ef svo mætti segja. Samhentur og góður hópur sem skilaði af sér góðu verki.



Og hér eru þeir sem skulu taka við keflinu og sjá um að hinum þjóðlegu matarvenjum verði viðhaldið og leikurinn endurtekinn að ári.  



Eitt af því sem mér fannst afar merkilegt var hve þorpið er tiltölulega ungt. Á spjalli við heimamenn kom m.a. fram að flest húsin þar eru byggð skömmu fyrir 1970. Ég fór einn hring um göturnar sérstaklega til að skoða og sannfærast um þetta atriði. Mér fannst svolítið merkilegt að sjá varla nokkurs staðar gamalt hús, enda öðru vanur frá mínum heimaslóðum.

Á sunnudeginum var svo haldið áleiðis að Brjánslæk þangað sem Breiðafjarðarferjan Baldur var væntanleg kl. 18.00. Það hafði bæst við farþegi sem óhætt er að segja að hafi verið veriulegur fengur að. Sá heitir Brynjólfur og er fyrrverandi sveitarstjóri á Tálknafirði til 14 ára ef ég man rétt. Hann starfaði einnig sem bæjarstjóri á Patreksfirði á árabilinu 200 - 2002. En sá sem tók þar við af honum var svo enginn annar en Guðmundur Guðlaugsson fyrrverandi bæjarstjóri á Siglufirði. Líklega hefur Brynjólfur stytt leiðina suður um a.m.k. 1/3, því hann kunni frá mörgu að segja og sumu verulega spaugilegu, bæði að vestan svo og víðar að. Með tilkomu hans fengu líka allar samræður mun gáfulegra yfirbragð en ella hefði orðið miðað við aðstæður.

Mun fleiri myndir frá ferðinni vestur eru svo inni á myndaalbúmi í möppu merkt "myndir af landsbyggðinni".

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 120
Gestir í dag: 14
Flettingar í gær: 1119
Gestir í gær: 165
Samtals flettingar: 496616
Samtals gestir: 54797
Tölur uppfærðar: 27.12.2024 04:06:25
clockhere

Tenglar

Eldra efni