22.02.2009 10:38
Æskó
(Æskó á Siglufirði. - Úr ljósmyndasafni Siglufjarðar)
542. Á einu af ferðalögum mínum um netheima sem eru hreint ekki svo óalgengir, rakst ég á litla klausu þar sem farið er í örfáum orðum um sögu félagsmiðstöðva á Íslandi. Þar kemur fram að Siglfirðingar voru fyrstir landsbyggðarmanna til að stíga skref í þá áttina og þar með hefja þá þróun sem síðar leiddi til opnunar fjölmargra félagsmiðstöðva eins og við þekkjum þær í dag. Sú spurning vaknar hvort Siglfirðingar hafi verið að einhverju leyti framsýnni en aðrir utan Reykjavíkur, eða hvort einhverjar aðrar skýringar eru finnanlegar. Ég neita því ekki að mig grunar að svörin gætu litast lítillega af því hvort sá eða sú sem svarar er Siglfirðingur eður ei. Og ég neita því ekki heldur að ég finn ofurlítinn fiðring í "montgeninu" við lesturinn, svo og að sjá að t.m.a. Akureyringar hafa verið heilum áratug síðar á ferðinni þegar þeir opnuðu Dynheima. Á mínum Æskó-árum var þar starfandi Anna Magnúsdóttir en síðar Kristján L. Möller.
Eftirfarandi er tekið af vef Samfés: Í kringum 1955 fer mönnum að verða ljóst að einhverskonar afdrep fyrir unglinga vantaði. Í kjölfarið var Æskulýðsráð Reykjavíkur stofnað árið 1956 og útfrá því Tómstundarheimilið við Lindargötu sama ár. Starfseminni sem þar fór fram má líkja við það starf sem fram fer í félagsmiðstöðvum í dag. Þar var það þó aðeins starfandi til ársins 1964 eða þar til það flutti að Fríkirkjuvegi 11 þar sem það starfaði í kjallara hússins til ársins 1971. Árið 1962 stofnuðu Siglfirðingar æskulýðsheimili þar í bæ sem gegndi svipuðu hlutverki og félagsmiðstöð gerir í dag. Tónabær hóf síðan starfsemi sína árið 1969, Æskulýðsheimilið að Flatahrauni í Hafnarfirði var einnig sett á laggirnar sama ár. Árið 1972 stofnuðu Akureyringar Dynheima, 1974 tók Fellahellir til starfa, 1975 hóf félagsmiðstöð Selfyssinga starfssemi sína og uppúr því byrjar blómaskeið félagsmiðstöðvanna þar sem þær spruttu upp hver á fætur annarri t.d. í Keflavík, Garðabæ, Vestmannaeyjum og á Sauðárkróki.