27.02.2009 01:10

Slippurinn á Sigló

546. Fljótlega upp úr 1960 var ég farinn að laumast nokkuð oft að heiman og niður í slipp (um Stuttuleiðina svokölluðu) til að fylgjast með því sem þar var að sjá. Og þar sem Leó afi minn vann þar, þóttist ég geta leyft mér að vera kannski heldur heimaríkari en yfirleitt teldist ásættanlegt í dag og þá ekki síst af nútímalegum öryggisástæðum. Ég fylgdst með afa, Jóni Páls og Sigga Björns þykktarhefla borðin í gömlu súðbyrðingana sem gera þurfti við, kalfatta þá, tjarga o.s.frv. Mér fannst verklagið oft á tíðum undarlegt og víst er að sumt það sem þarna var gert tilheyrir þeirri tíð og þeim tíma sem nú er endanlega horfinn á braut. Einna mest spennandi þótti mér að sjá skipin tekin upp þrátt fyrir að það gerðist ofurhægt. Fyrst var sleðanum sleppt lausum og hann rann niður teinana og út í sjó með miklu skvampi og boðaföllum. Og eftir að bátnum sem taka átti upp hafði verið komið fyrir á réttum stað yfir sleðanum hófst næsti verkþáttur. Spilið inni í húsinu tók að snúast en þar sem kraftblakkirnar sáu til þess að átakið margfaldaðist, gekk drátturinn að sama skapi afar hægt fyrir sig. Muni ég rétt gat það tekið góðan hálftíma að draga sleðann með bátnum á úr sjó og á sinn stað eða svolítið upp fyrir fjöruborðið, en vegalengdin hefur varla verið mikið meira en 30-40 metrar. Oft voru 2 - 3 bátar uppi á sama tíma og þá þurfti að koma fyrir heljarmiklu kraftblakkakerfi til að draga bátana til hliðar, af sleðanum og yfir á búkkana sem eru við hlið sleðans. Það var mikið víravirki sem greindist út úr spilhúsinu, að næstu blökk og síðan til suðurs og út að enda búkkanna við götuna niður að Hafnarbryggju. Þar snéri það við og endaði við festingu í undirstöðu bátsins á sleðanum. Búkkarnir og sleðabitarnir höfðu verið smurðir vandlega með grút sem var sleipiefni þess tíma og nýttist það vel til verklegra framkvæmda af þessu tagi, en flestir myndu líklega fúlsa við því í dag til hvers kyns notkunnar. En hann gerði það að verkum að skipið mjakaðist fyrirstöðulítið þótt hægt færi til hliðar og sleðinn varð brátt tilbúinn í næsta verkefni.


Báturinn siglir að sleðanum.


Sleðinn mjakast upp fyrir fjöruborðið.


Allt að verða klárt og verið að ganga frá festingum.


Nú er hún Snorrabúð stekkur.

Síðan ég sætti færi á sínum tíma og laumaðist niður í slipp við hvert tækifæri eru liðin mörg ár og ég á ekki oft erindi þangað lengur. Sleðinn hefur líklega runnið sitt skeið, mölin sem brimið leikur sér að þegar það er í þeim hamnum hefur fært teinana á kaf og einn af síðustu bátunum sem dreginn var upp er þar enn og grotnar niður á búkkunum.

Viðbót. - En vissulega var nú mesta fjörið í því þegar sleðanum var hleypt fram með gríðarlegum gusugangi og bátarnir sjósettir eins og Gunnar Th. nefnir í kommenti sínu. Yfirleitt var ég látinn vita af slíku heima með hæfilegum fyrirvara og ég lét mig þá ekki vanta til að fylgjast með atburðinum. En helsti gallinn við þau skemmtilegheitin var hvað þau tók fljótt af. Mig minnir að yfirleitt eftir að bátur var kominn niður og að bryggju, hafi oft myndast eins konar kyrrðarstund á litlu kaffistofunni. Eitt verkefni var nú frá og menn virtust vera svolítið dasaðir og slökuðu á áður en byrjað var á því næsta. Við slíkar aðstæðu var mjög líklegt að ef ég var nálægur sem ég reyndni auðvitað að vera, var ég því sem næst undantekningalaust sendur upp í bæ eftir þremur pilsnerum og einni malt. - Og maltið var handa mér.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 448
Gestir í dag: 102
Flettingar í gær: 1391
Gestir í gær: 279
Samtals flettingar: 495825
Samtals gestir: 54720
Tölur uppfærðar: 26.12.2024 14:42:01
clockhere

Tenglar

Eldra efni