16.03.2009 08:08
Kreppan bítur ekki alla jafn fast.
551. Ég hitti mann um helgina
Honum sagðist svo frá:
Ég sagði upp Stöð 2 og Mogganum en samanlagt áskriftargjald er 9.500 kr. á mán.
Ég sagði mig úr öllum félögum og samtökum þar sem þurfti að greiða félagsgjöld eða árgjöld. Mér reiknast til að sú tala sé um 4.500 kr. á mánuði
Ég hætti að spila í happdrættunum þremur, þ.e. Háskólanum, SÍBS og DAS, þar sem ég hafði verið í áskrift um árabil. Það hafði kostað mig 9.000 kr. á mánuði undir það síðasta og ég hef fengið 15.000 til baka að meðaltali þriðja hvert ár í formi vinninga.
Ég sagði upp öllum tryggingum sem eru ekki skyldutryggingar, þ.m.t. kaskó á bílnum, heimilis, húseigenda og margt, margt fleira. Mér reiknast til að sá niðurskurður svari til um 18.000 kr. á mánuði. Ýmsir sögðu mér að þarna væri ég að gera stór mistök og eiginlega leika mér að eldinum. Ég benti á að ég væri búinn að vera mjög vel tryggðir í tæpa tvo áratugi og aldrei fengið svo mikið sem eina krónu til baka vegna tjóns. Ég beitti fyrir mig því reiknilíkani sem ég taldi duga sem rök, bæði gagnvart sjálfum mér og þeim sem ekki voru mér sammála. Tryggingafélög þurfa að innheimta iðgjöld til að standa undir öllum rekstri sínum svo sem launum, sköttum og öðrum gjöldum, rekstri fasteigna o.fl. Þau leggja einnig til hliðar hluta af veltunni í sérstakan bótasjóð sem hefur vaxið talsvert undanfarin ár og svo vilja eigendurnir auðvitað fá arð af fyrirtæki sínu. Ég veit ekki hvað stór hluti veltunnar er að lokum greiddur aftur út sem bætur, en leyfi mér að skjóta á svona 20 - 25% Sé svo, þá segir það mér að það borgar sig alls ekki að tryggja.
Það verður engin utanlandsferð í ár, en slíkt hefur verið árvisst s.l. einn og hálfan áratug. Þar gæti niðurskurðurinn (þegar tekið er tillit til gjaldeyriskaupa á núverandi gengi og eðlileg dagleg neysla og/eða eyðsla dregin frá) numið a.m.k. 25.000 kr. á mánuði sé upphæðinni deilt niður á allt árið.
Samtals lækkuðu þessar aðgerðir hin mánaðarlegu útgjöld um heilar 66.000 kr. og það getur hver maður séð að það hlýtur að muna um minna.
Ég hætti ekki að fara í bíó eða á videoleigur sem ég hef alltaf verið nokkuð duglegur við, það hefur líka verið því sem næst regla að fara einu sinni í mánuði út að borða og eitthvað út á lífið á eftir og síðan hefur ekki verið sparað mikið í mat eða öðru slíku. Ég hætti ekki að borga flesta happdrættismiða eða gíróseðla sem berast inn um lúguna eins og ég hef alla tíð reynt að gera. Ég lagði því áfram lið samtökum eins og Vímulausri æsku, SEM, Skátum, Blindrafélaginu, MS, Götusmiðjunni, S.Á.Á, Krabbameinsfélaginu og fleirum og fleirum.
Það er því ennþá rými fyrir frekari niðurskurð haldi áfram að harðna á dalnum.
Svo bætti þessi ágæti maður því við að hann hefði aldrei séð neina sérstaka ástæðu til að fara niður á Austurvöll á laugardögum.