19.03.2009 23:09
Um Íslensku bankana
Ljósmyndin er fengin "að láni" úr Viðskiptablaðinu
552. Það getur verið gaman að grúska í fortíðinni. Oft koma þá upp á yfirborðið hin skrýtnustu mál, eða í það minnsta líta þau oft undarlega út í augum þeirra sem ekki hafa upplifað þá. En það eru líka dæmi um að ekki þurfi að fara svo ýkja langt aftur í tímann til að rekast á eitt og annað sem virðist vera í litlu samræmi við nútímann eins og hann er orðinn í dag. Á netflakki mínu "datt" ég um frétt sem birtist í Mogganum þ. 14.04.2008 eða fyrir aðeins u.þ.b. ellefu mánuðum síðan. Ég verð að viðurkenna að mér fannst hún svolítið skondin þrátt fyrir alvarleika málsins og ég gat ekki setið á mér að skjóta henni hérna inn.
Bankarnir geta reitt sig á stuðning stjórnvalda
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, segir í viðtali við danska blaðið Berlingske, að íslensku bankarnir geti allir reitt sig á stuðning frá íslenskum stjórnvöldum lendi þeir í erfiðleikum.
Í greininni segir að ráðherrann sé reiðubúinn til að sækja þann stuðning væri hægt að sækja bæði í ríkissjóð og gjaldeyrisvarasjóð Seðlabankans. Að sögn utanríkisráðuneytisins eru þessi ummæli túlkun blaðamannsins en ekki höfð eftir Ingibjörgu Sólrúnu.
Haft er eftir Ingibjörgu Sólrúnu, að stjórnvöld og bankarnir snúi bökum saman til að verjast þeim árásum, sem gerðar séu á íslenska efnahagskerfið. "Það er að sjálfsögðu ástæða til að hafa áhyggjur þegar vogunarsjóðir ráðast á íslenska banka. Það getur verið hættulegt bæði fyrir bankana og íslenska efnahagslífið. Með þessu fylgjumst við," segir Ingibjörg.
Hún segir, að umræðan að undanförnu hafi verið ósanngörn í garð Íslands. Ef íslensk stjórnvöld teldu að ef grundvöllur íslenskra banka væri verri en annarra svipaðra banka væri ekki víst að stuðningurinn væri jafn sjálfsagður. "En við höfum raunar séð, að íslenskir bankar hafa verið varkárari en aðrir á þeim sviðum, sem lánsfjárkreppan í Bandaríkjunum hefur einkum haft áhrif á. Þeir standa mjög traustum fótum," segir hún.
Ingibjörg Sólrún segir enga hættu á að íslensku bankarnir lendi í þroti áður en lánsfjárkreppunni linnir. Hún líkir gjaldeyrismálunum á Íslandi við lífið á sléttunni, þar sem þeir sterku ráðast á veikasta hlekkinn í hjörðinni.
"Við myndum ekki láta þá verða gjaldþrota, eins og staðan er í dag. Ef eitthvað væri að hjá bönkunum væri staðan kannski önnur."