26.03.2009 04:47
Skrýtnir fuglar í Hafnarfirði
554. Í vikunni sem er að líða fór ég svolítinn hring um Hafnarfjörð eins og ég geri stundum á góðviðrisdögum. Til að byrja með lá leiðin út með firðinum um Norðurbakkann og m.a. út að fjörunni fyrir neðan Hrafnistu. Þar er svolítið útsýnisstæði sem ágætt er að staldra við á, stíga út úr bílnum og virða fyrir sér það sem fyrir augu ber.
Annað hvort að horfa inn til bæjarins, í áttina til Álftanessins eða bara út á sjóinn. En nærtækust er þó fjaran og þar var óvenjumikið líf að þessu sinni. Jónsi (sonur Tótu Jóns og Grétars sem ólst upp í húsi Rúdda Sæbys við Aðalgötuna á Sigló) var með mér í för og hann sagði mér að "fuglinn í fjörunni" væri Dílaskarfur. Um það veit ég fátt því ég er ekki glöggur á fiðurfénaðinn og þekki því miður allt of lítið til fugla.
En þeir létu sér fátt um finnast þó ég færi á svolítið "skytterí" með myndavélinni og horfðu út á hafið eins og stúlkan í texta Bubba Mortens.
Skarfarnir höfðu greinilega lítinn áhuga á mér sem var ágætt, en þess meiri athygli veittu þeir lognöldunni sem gjálfraði vinalega við þarabrúskana á steinunum þar sem þeir höfðu tyllt sér.
Öðru hvoru reistu þeir sig þó upp og beiddu út vængina á móti golunni sem var þó ekki mikil, en ekki veit ég í hvaða tilgangi þar var gert. Ég myndaði lífið þarna í fjörunni um stund þrátt fyrir að ég gerði mér fulla grein fyrir því að fuglamyndir eru ekki það sem hentar mér best, því ég er bæði of óþolinmóður að bíða eftir rétta "mómentinu" og hef ekki þær græjur sem heppilegastar eru til slíkra hluta. Eftir svolitla stund var haldið heim á leið í kaffi og spjall og nokkru síðar kvaddi Jónsi og hélt heim á leið.
Ekki sat ég þó lengi heima og skrapp niður að læk, því þar hafði ég séð að var líka talsvert líf og fjör. Annars er spurning hvort rétt er að kalla þetta svæði læk, því manngerði hluti hans er orðin hin myndarlegasta tjörn og helsta aðsetur "brauðandastofnsins" í firðinum.
Og ég var aldeilis ekki einn á röltinu því þessar tvær þóttust greinilega hafa sama rétt og ég ef ekki meiri, til að spóka sig þarna á gangstéttinni og ég varð að stíga til hliðar svo ekki yrði "yfir mig gengið". Enda eiga þær heima þarna og hugsanlegt er að þær séu jafnvel skráðar þarna til heimilis.
Þessi stillti sér upp í rólegheitunum og beið þess að ég smellti af, en rölti svo á braut að lokinni myndatökunni. Greinilega ekki óvön fyrirsætustörfunum þarna á bakkanum.
Og hún (eða hann) var ekki ein(n) um það, því önnur (eða annar) kom kjagandi í áttina til mín og staldraði við meðan ég hleypti af. Hvernig á maður annars að vita hvort er um að ræða hann eða hana? Það sést bara alls ekki fyrir öllu þessu fiðri...
Ég settist á hækjur mér og ætlaði að taka mynd eftir bakkabrúninni þegar það var hreinlega gengið fyrir skotlínuna og útkoman var eins og sjá má hér að ofan.
Ég rölti áfram og nálgaðist hina gjarmildu brauðeigendur. Það gerðu líka fleiri því þessi Álft synti virðulega en þó mjög ákveðið að uppsprettu brauðmetisins.
Úti í vatninu var stungið saman nefjum, en hvort nýjasta slúðrið í hinu fiðraða samfélagi hefur verið rætt þarna í trúnaði eða ástarorði hvíslað í eyra veit ég ekki.
Athygli flestra beindist þó í einu og sömu áttina.
Og þangað var svamlað í hægðum sínum (og annarra).
Ég hef oft velt því fyrir mér hvað Steingrími Thorsteinssyni hefur fundist svo fagurt við hljóð þessara fugla þegar hann orti "Svanasöngur á heiði" og Sigvaldi Kaldalóns gerði síðan ágætt lag við.
Eða þá Halla Eyjólfsdóttir frá Laugabóli um aldamótin 1900.
Svanurinn minn syngur,
sumarlangan daginn...
Líklega hefur það meira verið tignarleiki þessarra miklfenglegu fugla en raddfegurð þeirra sem hefur örvað og hvatt skáldagyðjuna til góðra verka í nefndum tilfellum.
Ég fæ það alltaf á tilfinninguna þegar ég heyri hljóðin í þeim að raddböndin séu ryðguð föst, það sé verið að reyna að liðka þau með öllum tiltækum ráðum og ekki sé útilokað með öllu að eðlilegt kvak geti hugsanlega farið að myndast innan tíðar.
Það eyðist það sem af er tekið og allar uppsprettur þorna á endanum.
Allt brauðið búið á þessum stað.
Þá er bara að leita til næsta.
Fram, fram fylking, eða fram og allir í röð.
Smáfólkið var greinilega í essinu sínu.
Hér sést vel hvað þessir fuglar eru stórir þegar þeir eru bornir saman við barnið sem er komið til að fóðra þá. Mér dettur í hug að hlutföllin séu ekki ósvipuð því ef við mættum Indverskum fíl koma þrammandi á móti okkur á förnum vegi. Ég yrði alla vega skíthræddur og myndi forða mér hið snarasta.
En sú stutta undi sér hið besta þrátt fyrir nærveru þessarra risa.
Enga feimni, bara væna brauðsneið úr Aðalbakaríi helst með miklu smjöri, gúrkum og tómötum takk, - sleppa skinkunni og ostinum...
"Hvaseiru gott, hvernig er vatnsbúskapurinn"?
Svarið fæst á torkennilegu fuglamáli sem þeir einir skilja sem nægilega fiðraðir eru og sú stutta hrekkur svolítið til baka þegar hr. "Hálslangur" teygir sig fram.
En hinum megin við Tjarnarbrautina sem liggur meðfram fuglaparadísinni er kona að ganga úti með köttinn sinn í bandi. Kisi virtist una þessu fyrirkomulagi hið besta sem mér finnst hið undarlegasta mál. Svo er spurning hvort tjóðrið er hugsað til verndar fuglunum fyrir kettinum eða þá kettinum fyrir fuglunum sem eru svo margfallt, margfallt stærri en hann.
Skrifað af LRÓ.