04.04.2009 17:24

Í snjónum á Sigló



557. Um s.l. mánaðarmót skrapp ég á heimaslóðir, enda var það orðið fyrir löngu síðan miklu meira en tímabært. Ég get ekki neitað því að vitneskjan um að snjó hefði kyngt niður undanfarna daga dró síður en svo úr eftirvæntingunni. Mér hefur nefnilega fundist undanfarin ár að ég hafi ekki séð almennilegan snjó allt, allt of lengi. Ég hafi farið farið á mis við að endurlifa það sem hefur búið í undirmeðvitundinni allt frá því í barnæskunni, rétt eins og leiftur frá liðinni tíð sem annað slagið hefur þó gægst upp á yfirborð hinnar líðandi stundar og minnt á það sem einu sinni var. Þegar heilu snjókastlarnir eða jafnvel lítil þorp voru byggð á brekkunni og byggingarefnið virtist ótakmarkað. Einhverra hluta vegna var alltaf meiri snjór í minningunni en síðar varð. Hann kom líka fyrr á haustin og fór ekki aftur fyrr búið var að halda Skarðsmótið um Hvítasunnuna. Það var svo oft ekki fyrr en í júnímánuði sem var farið að huga að því að opna landleiðina um Siglufjarðarskarð, en um það var síðan ekki alltaf fært nema u.þ.b. 4-5 mánuði á ári. En þess utan var póstbáturinn Drangur aðal samgöngutækið og þjónaði byggðarlaginu.

Spáin var síður en svo góð, en ýmislegt fannst mér benda til þess að hún væri ekki að ganga eftir á þeim tíma sem ráð var fyrir gert. Vonandi verður lægðin eitthvað á eftir áætlun að þessu sinni og ég næ "fyrir hornið" á veðrinu eins og stundum hefur gerst.
Eitthvað á þessa leið var þankagangur minn þegar ég kom upp úr Hvalfjarðargöngunum og horfði yfir Skipaskagann í áttuna að Snæfellsnesinu. Jú, það voru vissulega farnir að myndast einhverjir skýjabólstrar þarna, en skyldu þeir vera farnir að ná eitthvað inn á vesturlandið...?




Þegar horft var inn Borgarfjörðinn sunnanverðan í áttina að Hvanneyri, var vont veður eitthvað sem virtist frekar fjarlægt. Himinninn var blár og sólin skein yfir snævi þakið landið.



En í norðrinu fór hann þó þykknandi, um það varð ekki deilt.



Fátt bar síðan til tíðinda fyrr en komið var upp á Holtavörðuheiði. Eins og sjá má er þetta fullkominn staður fyrir spennulosun fyrir adrealínfíkla, en það var ekki það sem ég var að sækjast eftir á þessari stundu. Í mínum huga var framundan fátt annað en kapphlaup við veðraskilin sem færðust hratt inn yfir landið.



Og stundum er þetta það sem fyrir augu bar þegar rýnt var út um framrúðuna.



Það var ekið á 30-40 km. hraða frá Bifröst, norður yfir heiði og langleiðina í Vatnsdalinn, en þar birti skyndilega og ég var greinilega kominn í annað og mun betra veður.



Ég stoppaði svolitla stund, smellti þá af  þessari mynd af hlöðnu ökutækinu og hugsaði í leiðinni með mér að það væri alveg merkilegt hvað kæmist af dóti inn í svona lítinn bíl. Ferðin var m.a. notuð til að ferja hluta úr búslóð norður á heimaslóðir.



Eftir svolítið kóf á Vatnsskarðinu tók Skagafjörðurinn á móti mér með ágætu skyggni, a.m.k. til að byrja með. En þegar komið var norður fyrir Hofsós var engu líkara en tjöld hefðu verið dregin fyrir framhaldið. 
hvað býr í kófinu? Það mun enginn fá að vita nema sá sem að gætir.




Fyrir neðan bæinn Vatn á Höfðaströnd ók ég inn í fyrsta alvöru snjóskaflinn á leiðinni. Hann var svo sem hvorki þykkur né langur og þéttleikinn var ekki verulegur. En hann dugði alveg til að hindra för smábíla og ökumenn þeirra sem haldnir eru óraunsærri bjartsýni. Þetta ástand hef ég ekki upplifað í mörg ár og ég sat um stund og rifjaði upp hvernig réttast sé og eðlilegast að bregðast við á slíkri stundu.
Eftir svoltilar vangaveltur teygði ég mig í plastpoka sem innihélt ullarhúfu, peysu, trefil og vettlinga. Þegar áðurnefndar flíkur voru allar komnar á sinn stað, var farið út og sparkað frá dekkjum, ýmsar aðrar hundakúnstir viðhafðar sem gætu orðið til þess að bíllinn losnaði og ég gæti haldið áfram för. En allt kom fyrir ekki og mér kom sem snöggvast í hug að ganga upp að bænum og fá lánaða skóflu, en ég vildi nú fyrst láta reyna á hvort ég gæti ekki bjargað mér á eigin spýtur. Fyrst ég var skóflulaus varð ég að notast við eitthvað annað verkfæri sem gerði svipað gagn. Ég opnaði afturhlerann og dró út langt og mikið hallamál sem ég notaði síðan til að "kraka" snjóinn undan bílnum og viti menn, eftir tæp þrjú korter var Micran laus úr skaflinum og ég bakkaði út úr honum. Ég hafði verið í símasambandi við Leó Inga rétt áður en ósköpin dundu yfir og hann sagði mér að vísbendingar væru um að versti kaflinn á allri leiðinni væri líklega milli Ketiláss og Siglufjarðar. Ég horfði út í sortann um stund og tók síðan að mér fannst þá skynsamlegu ákvörðun að snúa við. Líklega væri bara vel til fundið að aka svolítinn spöl til baka og banka upp á hjá "litlu systir" á Flugumýri og setjast þar upp yfir nóttina.
Mér tókst ágætlega að snúa við þrátt fyrir lítið sem ekkert skyggni og ók af stað. Ég var akkúrat að nudda lítil grýlukerti úr augabrúnunum í sama mund og mikill kófstrókur gekk inn á veginn og byrgði sýn. Ég sá glitta í vegstiku og gætti þess vel að fara réttu megin við hana (að ég taldi). En dómgreind mín var greinilega ekki upp á það allra besta, aðstæður voru líka á móti mér og ég fann að bíllinn hallaði skyndilega óeðlilega mikið. Ég hékk þarna utan í vegbrúninni og komst hvorki aftur á bak né áfram. Það var því ekki um annað að ræða en að ganga upp að bænum og leita eftir aðstoð við að komast aftur upp á veginn. Valgeir bóndi tók vel á móti hinum hrakta ferðalangi og bauð til stofu. Eftir svolitla stund var orðinn til hinn ágætasti uppáhellingur sem ásamt meðlæti rann ljúflega niður og veðurbarinn "Eyjólfur" tók að hressast eftir volkið.
"Ég held þú farir ekkert mikið lengra í bili" sagði hann og kímdi svolítið.
"Við búum bara um þig og í fyrramálið ferðu svo bara í plógfarið á eftir ruðningstækjunum".
Þetta varð úr, enda skynsamlegasti kosturinn.
Morguninn eftir var svo bíllinn dreginn upp á veginn og ég hélt áfram för minni.




Þessi mynd er tekin á Almenningunum, en þarna var aftur orðið ófært með öllu fyrir smábíla þrátt fyrir að búið væri að að "stinga í gegn" einu sinni eða tvisvar um morguninn. Ég beið því eftir næstu opnun og hélt þá áfram. Snjógöngin voru víða mun hærri en bíllinn og á ströndinni Siglufjarðar megin við Strákagöng hafði þá þegar fallið a.m.k. eitt snjóflóð.



Ekki var um annað að ræða en "fara fetið" og aka á 30-40 km. allt frá Fljótum og á leiðarenda. Það var eftir hádegið mánudaginn 30. mars að ég komst í hús, og að þessu sinni mitt eigið hús í síldarbænum og snjóakistunni Siglufirði. Þegar leið á daginn létti svolítið til og ég tók þessa vetrarlegu mynd í gegn um glerið út um eldhúsgluggann.



Og þessa einnig, en svo var farið að tæma bílinn



Skömmu síðar opnaði ég gluggann götumegin og leit út. Undir glugganum við innganginn í Bakaríið beið þessi bráðfallegi Siberian Hursky og virtist feginn athyglinni sem ég veitti honum



"Snjókorn falla á allt og alla" og ljósastaurinn fyrir utan stofugluggann var orðinn ansi "jólalegur".



Húsið sem hýsti Höllusjoppu, Lillusjoppu, Gunnusjoppu o.s.frv. hefur oft verið aðgengilegra en núna.
Í eina tíð kvað Bjössi nokkur Birgis...
Anna lára, Bryndís, Bára frænka mín og Lalli Blöndal,
Anna Lára Bryndís, Bára frænka mín og Lalli.
...Ó Lalli, ég ætla að fá mér blað,
ó Lalli ég ætla að lesa það,
ó Lalli ég ætla að fá mér bók,
svo skrepp ég yfir til Höllu og fæ mér eina kók...

Margir halda að þarna sé á ferðinni meiningarlítill slarktexti sem sé fátt annað en sniðugur og skemmtilegur samansetningur, en þeir sem eru komnir til vits og ára eru mun meðvitaðri um yrkisefnið. Það var akkúrat þarna á horninu sem Bjössi og fleiri góðir drengir gengu gjarnan (ekki þó alltaf beint) yfir götuna frá Aðalbúðinni þeirra Lalla, Óla, Bryndísar og Báru þar sem seld voru blöð og bækur og yfir í sjoppuna til Höllu.




Daginn eftir var farið á svolitlar myndaveiðar. Nú skyldi taka nokkrar "snjómyndir" og það var alveg víst að hráefnið í þær var síður en svo af skornum skammti. Á bak við skaflinn eru Örlygsstaðir hinur nýju, eða hús Stjána Sæby frá því á fyrri hluta síðustu aldar.



Sami skafl og sama hús á bak við hann, bara örlítið neðar og breytt sjónarhorn.



Jeppinn er á kafi, enda best að halda sig innan dyra í þessari færð eða öllu heldur ófærð. Neðsta hæð hússins er líka alveg á kafi.



Á Vetrarbrautinni er heilmikill snjóruðningur fyrir framan gamla S.R. frystihúsið þar sem ég vann í fiski sem unglingur. Þó má sjá í toppinn á S.R. 46.



Það fýkur yfir hæðir, en ekki síður yfir húsin í bænum og skaflamyndanirnar taka á sig ýmis konar form.



Sums staðar mótast þó strengir og straumar vindanna m.a. af legu húsanna og mynda óvænt eins konar "vin í eyðimörkinni" eða alveg frábært stæði fyrir bílinn mitt í allri niðurkomunni.



Myndarlegur hóll fyrir neðan pósthúsið.



ég leit upp á þakið hjá mér og sá að þar var talsverður snjór sem myndi væntanlega koma niður með miklum látum og hamagangi um leið og hlýnaði.



Eitt af verkefnunum í ferðinni var að koma nokkrum gömlum fjölskyldumyndum upp á vegg, en þær voru flestar ættaðar frá föðurfólki mínu á Ásfelli sem er við suðurjaðar Akraneskaupstaðar. Ég hafði komist í talsverða námu af skemmtilegu myndefni, fengið að skanna að vild og var núna búinn að vinna svolítið við þær og laga til, prenta út og ramma inn.



Og þarna voru þær komnar á sinn stað.
En nú var komið kvöld og tímabært að slafra í sig eins og einum 1944 og leggjast síðan í sjónvarpsgláp.




Daginn eftir var svo haldið áfram á myndaveiðum. - Undir snjónum er Ráðhústorg.



Græna húsið á mótum Eyrargötu og Lækjargötu.



"Frystihús" Þormóðs Ramma sem er þó  alls ekki frystihús lengur. Að sunnanverðu var það alveg á kafi og enga misfellu að sjá hvort sem hús var undir skaflinum eða ekki.



Annað sjónarhorn frá svo til sama stað...
Og nú stendur til að setja upp nýja rækjuverksmiðju í húsinu, því þær tvær sem lokað hefur verið þykja ekki uppfylla nútímakröfur lengur og vera óhagknæmar í rekstri.




Þegar ég var á leið frá hafnarsvæðinu mætti ég Gulla Sínu á lyftaranum og við tókum tal saman. Eftir að ný starfsemi verður komin til í húsnæði Rammans fær Gulli e.t.v. nýtt starfsheiti, en hann hefur eiginlega verið nokkurs konar húsvörður þar á bæ undanfarið.



Óhætt að segja að gatan sem hér er horft eftir standi undir nafni þessa dagana, en fyrir þá sem ekki vita þá heitir hún Vetrarbraut.



Og ruðningurinn hérna norðarlega á Vetrarbreutinni er næstum þrisvar sinnum hærri en bíllinn.



Og snjóskaflarnir taka á sig ýmsar myndir.



Hér er nýlega búið að moka Eyrargötuna eftir síðasta hvell, en þegar snjóaði mikið á stuttum tíma fyrir nokkrum dögum voru helstu götur opnaðar þannig til að byrja með að þær voru aðeins einbreiðar. Ekki var því hægt að mætast hvar sem var og eins gott að fara gætilega.



Gamla áhaldahúsið við Norðurgötu.



Bæjarstarfsmenn voru að moka ofan af sambýlinu, en það hafði safnast fyrir mikill snjór.



Á brekkunni var auðvitað mikill snjór rétt eins og í eina tíð. Ég gerði nokkuð af því að stilla litla bláa bílnum upp við snjóruðninga til að sýna hæð þeirra.



Þessi mynd er tekin til austurs á brún Lindargötu við lóðina þar sem Hólar stóðu áður.



Og þessi á sama stað nema hún er tekin til norðurs.



Þarna sést hússtæði Hóla betur en lóðin gegnir greinilega hlutverki snjógeymslu, enda ekki vanþörf á plássi undir öll ósköpin.



Og enn á sama stað.



Ég hélt áfram og upp á Hverfisgötu en þegar þangað kom sá ég að sjónvarpsmenn voru að taka myndir yfir bæinn. Þegar myndavélin beindist að mér smellti ég af á móti en vélinni var þá snúið snarlega í aðra átt. En ég vissi þar með að það yrðu fréttir af snjónum á Siglufirði í kvöldfréttatímanum sem gekk eftir.



Og eftir að leið á daginn varð sífellt greiðfærara.



Óli Bjarna sagðist bæði hafa þurft að moka sig út á morgnana og inn á kvöldin upp á síðkastið.



Það dugar víst skammt að sérmerkja eins og hér sést stæði þegar það er fullt af snjó.



Það hefur yfirleitt þótt hið besta mál að hafa suðursvalir á húsum sínum, en akkúrat núna gegna þær líklega frekar óhefðbundnu hlutverki.



Ekki verður annað sagt en að þetta sé mjög lögulegur skafl. Í þetta hús kom ég oft hér í eina tíð en þá bjó þar Palli Magg ástamt Auði konu sinni, börnunum Magga (bekkjarbróðir mínum) og Guðnýju kennara.



Og yngri kynslóðin kunni greinilega betur að meta snjóinn en sú eldri.



Horft niður "Bæjarbrekkuna" á allan snjóinn á Ráðhústorginu.



Og enn er sá blái mátaður við snjóruðningana.



Á bak við þennan skafl sést í efsta hlutann á Bólsturgerðinni sem nú er að verða aðsetur Einingar/Iðju. 



Eyrargatan er ekki nefnd eftir Gvendi á Eyrinni sem lúin hvílir bein þó að leiði hans sé týnt, en hún er vissulega nokkuð kuldaleg á að líta.



Ég heyrði af því að fleiri flóð hefðu fallið á ströndinni og varð auðvitað að skoða málið.



Og það höfðu greinilega fallið nokkrar myndarlegar spýjur úr Strákafjalli og yfir veginn, en þar hafði verið opnað aftur.



Þarna hafði farið nokkuð þykkt flóð og ég varð auðvitað að slá á það máli með minni aðferð.



Og hér sést hvaðan það hefur komið.



Áfram var skafið...



...en mér fannst nóg skoðað norðan bæjarins og snéri heim á leið...



...og hélt áfram að taka mynir af snjó.



Skaflinn norðan við "Hótel Höfn" náði vel upp á aðra hæðina.



Og þessi "afstöðumynd" segir líka sitt.



Nýjasta húsið í bænum ásamt nýjasta snjónum.



Ofarlega á Ránargötunni er hús í felum á bak við þennan myndarlega snjóskafl.



Og nú var farið síðasta hringinn um bæinn þennan daginn og reyndar síðasta hringinn fyrir suðurferð, en það var í sjálfu sér litlu við að bæta því alls staðar var það sama í boði. Snjór og enn meiri snjór.
Ég ók eftir Norðurgötunni, inn á fjörð og aftur til baka.
  



Á bakaleiðinni gerði all nokkra hryðju svo skyggni versnaði til muna.



En þegar ég kom inn í bæinn hafði stytt upp og öll tiltæk moksturstæki unnu að því að hreinsa bæinn og nokkuð sýnt að þannig yrði það í allmarga daga.



Sunnubrakkinn sem hefur nánast verið eins og hluti af hinu Siglfirska bæjarlandslagi frá því ég man eftir mér, mun eiga að hverfa einhvern tíma með vorinu. En eitthvað mun eiga að rísa þarna í staðinn frétti ég og það innan einhvers tiltekins tíma sem ég veit reyndar ekki hver er. Mér kom því svolítið undarlega fyrir sjónir að einhverjar viðgerðir væri að fara fram á húsi sem á að rífa eftir nokkrar vikur. En þegar betur var að gáð sá ég að þetta voru líklega ekki beinlínis viðgerðir í þeim skilningi, heldur var þarna miklu frekar um að ræða einhvers konar varúðarráðstafanir. Þegar betur var að gáð sýndist mér sem veggir hússins væru hreinlega spengdir saman með plönkum og þeir svo líklega boltaðir í eitthvað sem er innan veggja. Reyndar er þetta að mestu leyti tilgáta hjá mér og hafi einhver réttara og betra svar, er sá hinn sami beðinn um að láta ljós sitt skína.



En ekki mátti koma og fara aftur án þess að taka eitthvað til hendinni á loftinu. Það hefur yfirleitt verið gert í hverri ferð undanfarin misseri þó ekki sé nema lítið eitt í senn. Þá miðar þá alla vega svolítið áfram en ekki aftur á bak.



Ég er u.þ.b. hálfnaður að einangra þakið, en betur má ef duga skal. Það er í það minnsta nóg af ullinni þarna uppi sem enn er í plastinu og bíður þess að komast á sinn framtíðarstað.



Mér hefur alltaf fundist þessi ullarhnífur vera hið ógurlegasta vopn.



En fimmtudaginn 2. apríl var kominn heimferðartími. Ég hefði gjarnan viljað vera lengur en þar sem átti að spila kvöldið eftir og sinna einu og öðru smálegu fyrir helgina, var rétt að vera tímanlega á ferðinni. Það var svolítið kóf á bökkunum fyrir neðan Mánarhyrnu.



Þegar ég ók fram hjá vegamótunum þar sem farið er upp í Siglufjarðarskarð, hugsaði ég bara "einu sinni var" þakklátur fyrir það sem ég hef. Samt er þessi "túrhestavegur" alveg ómissandi með öllu á sumrin, frægur að endemum. 



Rétt áður en ég kom að Lambanesreykjum sá ég hvar flutningabíll hafði fokið út af veginum í hálkunni. Já, það er sennilega rétt að geta þess að þennan dag var mjög mikil hálka og mikill hliðarvindur, því þurfti að halda vel í stýrið og fara ekki of geyst. Annars lagaðist færðin eftir að komið var í Sléttuhlíðina eins og svo oft.



Það var bara á Holtavörðuheiðinni sem var talsverð blinda. En ég var bæði að fara heim og einnig að koma að heiman, búinn að safna svolítilli orku og ágætlega endurnærður á sálinni. Hvað geta hlutirnir orðið miklu betri?

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 30
Gestir í dag: 1
Flettingar í gær: 1119
Gestir í gær: 165
Samtals flettingar: 496526
Samtals gestir: 54784
Tölur uppfærðar: 27.12.2024 00:38:26
clockhere

Tenglar

Eldra efni