22.05.2009 14:29
Dagskrá í bundnu máli
567. Dagaskrárkynning helgarinnar er að þessu sinni í bundnu máli og er svohljóðandi:
Blessun Fúsa er flott að fá
færa á disk sinn randalínu
Brenna á ferð í Búrfellsgjá
brattur dansa á Catalínu.
Þessi staka barst mér póstleiðis áðan frá Gunnari Trausta og ekki er spurning um að hún á fullt erindi við okkur Síldarbæinga þessa dagana.
Ástæðan er auðvitað sú að helgin sem næst liggur 20. maí er eins konar þjóðhátíðarhelgi okkar og afmælishátíð, því þann dag fékk Siglufjörður m.a. kaupstaðarréttindi. Það er því ærin ástæða til að koma saman og gera sér svolítinn dagamun af því tilefni.
Fyrir þá sem eru ekki alveg að kveikja, þá er boðskapurinn og innihaldslýsingin eftirfarandi.
"Blessun Fúsa er flott að fá" í Grafarvogskirkju á fjölskyldusdeginum, en hann hefst með messu þar sem Vigfús Þór Árnason sérlegur klerkur Siglfirðinga þjónar.
En á eftir munu eflaust margir "færa á disk sinn randalínu" í kaffinu sem tekur við af messunni.
En það er samt eiginlega á laugardeginum sem fjörið byrjar með gönguferð kl. 13.00 með því að "Brenna á ferð í Búrfellsgjá". En mæting er í Heiðmörk við svokallaða Hjallaenda og gangan tekur væntanlega u.þ.b. 2 tíma.
Og sá sem verður ekki búinn á því eftir göngutúrinn mun væntanlega "brattur dansa á Catalínu" um kvöldið.
En á Catalinu mun hin hálfsiglfirska tveggja manna hljómsveit leika fyrir dansi ásamt þeim Selmu, Kristbirni, Bigga Ölmu og vonandi fleirum.