10.07.2009 07:13
Á Þjóðlagahátíð
577. Það var auðvitað stormað á Þjóðlagahátíð strax og hún hófst miðvikudaginn 1. júlí. Margt var um manninn á Aðalgötunni sem er skemmtileg tilbreyting frá því sem stundum er. Sumir á þeim bæ þræddu nánast allt sem hægt var að komast yfir af dagskránni meðan aðrir voru rólegri í tíðinni og völdu sér eina og eina uppákomu til að kíkja á.
Ég hitti Ægi Eysteinsson fréttamann RUV uppi á torgi þar sem hann var að taka viðtal og átti við hann langt og skemmtilegt spjall, en Ægir var hér í eina tíð nágranni minn og því sem næst daglegur gestur á Laugarásvideó. Þess má einnig geta að hann er af Siglfirsku bergi brotinn, en móðurafi hans var Siglfirðingur, hét Viktor og var aðstoðarlyfsali hjá Schiöth.
Ég sá að þessi "drátthaga" mær dró flottar línur á blað þegar ég gægðist yfir öxlina á henni. Hún var að teikna steininn og baksvið hans, en þar var Sparisjóðurinn við Túngötu fyrirferðarmestur.
Ég hef stundum velt því fyrir mér að það hljóti að vera einstakt hvað svo margt er á svo til alveg sama stað á Siglufirði og hvað samþjöppunin er hreint ótrúlega mikil í kring um torgið. Það er ekki nóg með að nánast öll verslun og þjónusta sé þarna til staðar og raði sér í kring um þennan græna ferning sem Ráðhústorg er, heldur er tjaldstæðið og smábátahöfnin eiginlega þarna líka.
Smábátahöfnin við torgið... - Hljómar það ekki svolítið skondið?
Þegar ég fór að skoða myndirnar sem ég tók í þessari ferð sá ég að þær voru svo sem margar og margvíslegar eins og svo oft áður, en mér fannst samt óvenju lítill hluti þeirra eiga erindi í pistil eins og þennan og því verður hann í styttra lagi.
En vangaveltur um hversu langt er milli Siglufjarðar og Reykjavíkur eiga hins vegar fullt erindi hingað. Lengi vel hef ég talið að vegalengdin sé u.þ.b. 400 km., en hún hafi hugsanlega farið eitthvað niður fyrir 390 km. með tilkomu vegarins um Þverárfjall þar sem ekið er á ísbjarnarslóðum.
En að þessu sinni var gerð fagleg úttekt á málinu við vegamótin þar sem Þverárfjallsvegur kemur niður á Skagastrandarveg og niðurstöður skráðar eins og sjá má. En þaðan eru 133 km. til Siglufjarðar og 252 km. til Reykjavíkur. Og þá vitum við að það eru samtals 385 km. milli þessara staða og margra ára vangaveltur eru þar með úr sögunni, a.m.k. þangað við fáum göng milli Bjarnagils og Siglufjarðar.
Á laugardeginum 5. júlí varð ég því miður að yfirgefa staðinn því ég átti að spila í Árbæjarsafni um kvöldið. Nú eru menn sem sagt búnir að vera það lengi í bransanum að þeir eru komnir á safn í orðsins fyllstu merkingu. En hvað sem því líður þá var ég að spila í Skagafirðinum um helgina sem leið og er því núna aftur kominn á Sigló þar sem ég ætla að vera fram eftir vikunni. En svo þarf auðvitað að mæta aftur syðra um næstu helgi því það verður að halda sig að hljómborðinu um hábjargræðistímann.