18.07.2009 17:56

Vinnuferð á Sigló



578. Föstudaginn 10. júlí var Micran notuð sem "hljómsveitarbíll" og það var alveg merkilegt hvað hún tók vel við öllu því sem inn í hana var sett. Það var meira að segja talsvert pláss eftir þegar græjurnar voru allar komnar á sinn stað auk annars farangurs. Síðan var ekið sem leið lá norður yfir heiðar og ekkert staldrað fyrr fyrr en á Dýrfinnustöðum í Blönduhlíð þar sem mikið stóð til.



Þar hélt Ingólfur bóndi upp á stórafmæli sitt í hlöðunni sem var búið að breyta í hinn flottasta veislusal.



Á laugardeginum eftir að menn höfðu komið sér í gírinn, var svo rennt á Sigló. Himinninn var svo heiður og blár að undrum sætti, en fyrir ofan Haganesvíkina blöstu Siglufjarðarfjöllin við svo skemmtilega snjólétt að ég sá fyrir mér að göngustafirnir yrði að öllum líklindum notaðir í þessari ferð. Þó fór ekki fram hjá mér að þykkur skýjabakki lá fyrir utan landið og stóð lágt.



Sunnudaginn þ. 12. fór ég svolitla skoðunarferð upp í Siglufjarðarskarð til að athuga snjóalögin því ég hafði hug á að ganga frá skarðinu, upp á Illviðrishnjúk, niður á Snók og norður Hafnarfjall. Upp á Hafnarhyrnu, fyrir Hvanneyrarskálina yfir Strákana og út á Skrámu, en bara ekki í dag



Ég komst með góðu móti upp undir efstu beygjuna og þarna höfðu greinilega einhverjir fleiri ferið á ferðinni og komist u.þ.b. jafnlangt.



En fyrir neðan klettana undir Afglapaskarði var allt í fönn og lengra varð ekki komist.




Úr þessari hæð yrði gangan létt og ég hugsaði mér gott til glóðarinnar.



Á leiðinni niður sá ég að hauskúpunan sem Eddi Páll málaði fyrir margt löngu síðan hefur fengið "andlitslyftingu" ef svo má að orði komast. Hún var orðin ansi máð og ógreinileg þarna á steininum fyri fáeinum árum síðan ef ég man rétt.



En auðvitað átti ég að stökkva á stað í blíðunni því skýjabakkinn sem beðið hafði fyrir utan læddist inn og gerði út um allar mínar fyrirætlanir. Það er nefnilega lítið gaman að fara í fjallgöngu í þoku. Ég hélt mig því að mestu uppi á háalofti þessa viku sem ég staldraði við og sagaði, negldi, skrúfaði, spartlaði, pússaði og málaði.



Á Hverfisgötunni við hliðina á æskuheimilinu býr Ranna og sem benti mér á "blómstrið eina" í skorsteininum hjá sér.



Allt bendir til þess að þamgað hafi borist fræ úr garðinum frá Tryggva og Reynitrésgræðlingur hafi skotið þarna rótum, en hvort það á fyrir honum að liggja að verða myndarlegt tré í fyllingu tímans á hins vegar eftir að koma í ljós.



Ég leit aðeins yfir garðinn þar sem ég lék mér sem strákur og sá að hann hefur tekið gríðarmiklum breytingum. Fá tré standa nú eftir til að klifra í, en umhirðan er góð eins og sjá má.



Ég get ekki sleppt því að láta fylgja mynd af mjólkurflöskunum og grindinni sem voru í eina tíð hluti af hinu daglega lífi, því yfirleitt var farið daglega í "mjólkurbúðina" með tómu flöskurnar og komið til baka með aðrar fullar. Líklega finnst þeim sem yngri eru skondið að það skuli hafa verið til búðir sem seldu aðeins mjólk og mjólkurafurðir og ekkert annað, en þannig var þetta hér í denn. Eftir að Hólsbúið var aflagt og hætt var að fara með álbrúsana og dæla í þá á staðnum, kom mjólkin frá Akureyri í svona flöskum og var þeim lokað með tappa úr álpappír sem mig minnir að hafi verið svolítið þykkri en sá sem er jafnan notaður í dag. "Tapparnir" voru litaðir til að aðgreina innihaldið, þ.e. grænn táknaði súrmjólk, gulur rjóma og mig minnir að undanrennan hafi verið með einhvern vegin daufbláum tappa.
Flöskurnar voru í þremur stærðum, heill lítir svo og hálfur sem voru yfirleitt notaðir undir nýmjólk, súrmjólk og undanrennu, en þriðjungur (þ.e. minnsta glerið) undir rjóma.




Þetta er líka eitt af því sem var bráðnauðsynlegur hluti af bernskunni, en ég man ekki til þess að það hafi verið til nein önnur tegund af djús eða appelsínuþykkni á sjöunda áratugnum. Mér þótti mikill fengur í þessum umbúðum þegar ég rakst á þær í gömlu dóti fyrir nokkru síðar og þær kveiktu svo sannarlega á fjöldanum öllum af perum í nostalgíuljósaseríunni rétt eins og grindin og brúnu flöskurnar hér fyrir ofan.

En í fyrramálið verður lagst í enn eitt ferðalagið og það er þess konar sem ég hefði alla mína daga til þessa, talið útilokað að ég ætti nokkurn tíma eftir að taka mér fyrir hendur. Ég ætla nefnilega að aka trússbíl um Snæfellsnesið fram undir næstu helgi og blanda geði við Skagfirska hestamenn og fleira gott fólk.
Það er með ólíkindum hvað hann Ingimar á Flugumýri getur fengið gamla hunda eins og mig til að gera og ég er jafnvel ekki frá því að hann sé nokkuð ákveðinn í að koma mér á hestbak.
Hvort það tekst á svo eftir að koma í ljós en við gerum því máli nánari skil um næstu helgi, en þá þarf ég að koma í bæinn til að spila á Catalinu.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 748
Gestir í dag: 132
Flettingar í gær: 1391
Gestir í gær: 279
Samtals flettingar: 496125
Samtals gestir: 54750
Tölur uppfærðar: 26.12.2024 20:45:01
clockhere

Tenglar

Eldra efni