25.07.2009 13:28

Nokkur orð um lítinn bláan bíl og eiganda hans

579. Það hefur komið nokkrum sinnum fram hér á síðunni að ég á lítinn bláan bíl sem er til ýmissa hluta nytsamlegur og er þá ekki tekið mjög djúpt í árinni eða kveðið verulega fast að orði. Fyrir utan það sem yfirleitt flokkast undir að vera hefðbundið hlutverk slíkra og sambærilegra bíla, þ.e. að vera nýttur sem fjölskyldubíll og til fólksflutninga eins og gengur, er þessu eintaki ætlað mun veigameiri og fjölþættari verkefni en t.d. hönnun ökutækisins hefur væntanlega gert ráð fyrir í upphafi. Hann er nefnilega líka notaður sem vinnubíll og oft er hreint ótrúlega mikið á hann lagt í því hlutverki. Hann hefur verið notaður sem flutningatæki fyrir mold, sand, sement, múrbrot, verkfæri, timbur, spónaplötur, heimilistæki og margt, margt fleira. Svo má einnig geta þess að í honum var flutt "innvolsið" sem var rifið innan úr tveimur tveggja herbergja íbúðum svo sem gólfefni, loftaklæðningar, innveggir með grind og öllu saman, gömlu rafmagns og pípulagnirnar ásamt innréttingum og "hreinlætistækjum" innan gæsalappa. Þá þykir mér einnig við hæfi að geta þess að um helgar er hann stundum hljómsveitarbíll og þykir mörgum oft komast alveg óheyrilega mikið inn í hann. Reyndar er það stundum svo að meðspilarinn þarf að sitja með farþegasætið í fremstu stöðu, ennið klesst út í framrúðuna og gítarinn í fanginu til þess að snúrutaskan komist það vel inn um afturhlerann að hægt sé að loka honum. En góður vilji er líka ein af undirstöðum þess að ná árangri í skipulagsfræðum af þeim toga sem hér um ræðir. Við höfum átt samleið u.þ.b. þrjú síðustu árin og ríflega 100.000 kílómetrana og mætti því ætla að ég væri farinn að þekkja sæmilega til hans, en með mér hafa nýverið vaknað verulegar efasemdir um það.




Á dögunum kom ég að húsi þar sem ég þurfti að erinda svolítið og staldraði þar við stutta stund. Þegar ég hafði lokið því gekk ég til baka og að bílnum, en að þessi sinni virtist lykillinn ekki ganga að skránni og mér gekk bölvanlega að opna. Reyndar gafst ég að lokum upp á því og tók þá eftir manni sem stóð hálffalinn á bak við gardínur eins gluggans á neðstu hæðinni og talaði í síma. Ég fékk það sterklega á tilfinninguna að hann hefði fylgst vel með mér og tilraunum mínum til að komast inn í bílinn. Mér virtist hann vera býsna þungur á brún og þrátt fyrir að ég kinkaði kolli til hans var ekki gleðivott að sjá í allt að því steinrunnu andlitinu.

Þá tók ég eftir alveg eins bíl við hliðina á þeim sem ég hafði reynt að komast inn í.



Í gærmorgun (föstudag) fór ég með bílinn á verkstæði Friðriks Ólafssonar sem er við Smiðjuveg í Kópavogi því það var ekki hægt að fá nokkra ljóstýru á afturljósin og dagljósabúnaðurinn virkaði ekki lengur á framljósin. Tíminn hafði verið pantaður fyrir 15 dögum síðan því þarna var langur biðlisti og greinilega talsvert að gera.

Ég var búinn að fara á það verkstæði sem ég er vanur að leita til og þar var búið að leita bilunnarinnar, m.a. að mæla öryggi, athuga hvort sambandsleysi væri að finna einhvers staðar í raflögn og meira að segja leita að sjálfum dagljósabúnaðinum í bílnum en án nokkurs árangurs.

"Þú verður því miður að fara á eitthvað Nissan verkstæði" var sagt við mig þar á bæ sem ég og gerði.

Og þar sem ég hef ekki gengið mikið á fjöll allra síðustu daga fannst mér alveg tilvalið að rölta heim í góða veðrinu í morgunsárinu.

Ég gekk sem sagt heim frá Smiðjuveginum í Kópavoginu og í suðurbæinn í Hafnarfirði á einum tíma og 40 min., en komst að því fljótlega eftir gönguna að það er sitthvað að rölta um úti í náttúrunni eða þramma á hörðu malbikinu. Ég staulaðist því eins og spýtukarl milli herbergja það sem eftir lifði dags, en þó aðeins ef bráð nauðsyn krafði. Nokkru eftir hádegi var hringt í mig og mér sagt að bíllinn væri tilbúinn. Ég fékk að þessu sinni skutl á staðinn og gekki inn á verkstæðið með debetkortið á undan mér. Afgreiðslumaðurinn rétti mér lyklana nokkuð glottaralegur á svipinn og ég spurði hvað heildartjónið væri stórt.

"Viðgerðin tók heilar þrjár mínútur og kannski nokkrum sekúndum betur og það tekur því ekki að rukka fyrir eitt öryggi" svaraði hann og glotti enn meira.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 666
Gestir í dag: 125
Flettingar í gær: 1391
Gestir í gær: 279
Samtals flettingar: 496043
Samtals gestir: 54743
Tölur uppfærðar: 26.12.2024 20:23:30
clockhere

Tenglar

Eldra efni