26.07.2009 04:03
Í hestaferð um Dali og Snæfellsnes
580. Í síðustu viku gerði ég nokkuð sem hefur hingað til ekki hvarflað að mér að ég ætti nokkurn tíma eftir að
Einhvern tíma heyrði ég mætan mann segja að "engin synd væri stærri en sú að vera leiðinlegur að upplagi", en samkvæmt þeirri kenningu hafa líklega allir í þessum flokki verið eins fullkomlega syndlausir og verða má. Öðrum eins hópi fólks sem þarna var á ferð, hélt ég í einfeldni minni að væri ekki með nokkru móti hægt að koma saman. Engan "veikan hlekk" var að finna í honum og hver dagur reyndist öðrum betri með sínu glaða bragði og góða geði. Um ferðafélagana til næstu daga mátti bæði segja og standa fast á að þeir hafi verið góðir og gefandi, skapandi og skemmtilegir, vingjarnlegir og velviljaðir, uppbyggilegir og alþýðlegir og þá er aðeins fátt eitt sagt.
Stór hluti hópsins voru Blöndhlíðungar og hafa margir þeirra komið við í hinum víðfræga karlakór Heimi. Þarna voru því samankomnar margar mikilfenglegar hetjuraddir sem voru þandar til hins ítrasta á kvöldin eftir að menn höfðu skolað af sér ferðaryki dagsins, komið hinu innvortis rakastigi í eðlilegt horf og gerðust þá gjarnan söngvinnir, dansglaðir og fagnaðarsælir svo um munaði. En að morgni risu allir upp rétt eins og Einherjar Óðins í Valhöll forðum og héldu út á völlinn, tilbúnir til að mæta nýjum og dýrðlegum degi.
Ofan úr Hítardal lá hluti leiðarinnar um Löngufjörur á Mýrum, en sú reiðleið hefur verið ein af þeim vinsælli hjá hestamönnum. Líklega skipta þeir sem þarna fara um allmörgum hundruðum ár hvert, en fara verður með gát og miklu skiptir að þekkja vel til eða hafa góða leiðsögn vegna sjávarfalla. Hópurinn fór niður í fjörurnar við Eldborg með reisn og þokka og kom upp við bæinn Kolviðarnes neðan við Laugagerðisskóla og var þá bæði sólhýr og svipléttur í meira lagi.
Ég rakst á skemmtilegt og mjög vel gert kvæði eftir Reyni Arngrímsson.
Löngufjörur
Er dagur rennur döggin sólu kyssir
þá dagbjört bíður sjónarrönd í hafi.
Á fjörum löngum fæðast sker úr kafi
og fyrirheit sem aðeins ein þú vissir.
Þar aldan gárar eilíf létt við fætur,
og öðuskel á fjörugrjótið leikur.
Þú aldrei aftur orðið getur smeykur,
ef undralagið heyrir baki nætur.
Nú daggarbjartur drösull svífur heiður,
í dýrlegri reið og engin orðin mælir,
er jórinn ber þig jökli nær og glaður.
Í eyjum fjarskans ernir búa hreiður,
og urta ein við fjöruborðið gælir,
þá hugsýn geymdu í hjarta þínu maður.
Eftir reiðina um Löngufjörur lá leiðin svolítinn hring um Hnappadalinn og næsta nágrenni, en svo norður yfir Heydal og þaðan svipaða leið til baka. Á myndinni hér að ofan má sjá upp að Haukadalsskarði, en vegurinn yfir það liggur niður í Hrútafjörðinn nokkurn veginn þar sem veitingaskálinn Brú stóð áður. Þarna er bráðskemmtileg, falleg og ágætlega jeppafær leið sem vert er að skoða, en vegurinn liggur m.a. um hlaðið á Eiríksstöðum þar sem Eiríkur Rauði bjó á landnámsöld.
Á vefnum htp://www.847.is/ má lesa eftirfarandi:
Inn úr Haukadal liggur leið um Haukadalsskarð yfir að Melum í Hrútafirði. Leiðin um Haukadalsskarð hefur frá fyrstu tíð verið fjölfarin og er hennar víða getið m.a. í Njáls sögu og Sturlunga sögu. Í Sturlungu stendur eftirfarandi: "En er Sturla Þórðarson spurði, að Brandur var kominn í Miðfjörð með flokk og ætlaði vestur í sveitir, þá dró hann þegar lið saman. Kom þá til liðs við hann Þorgils Böðvarsson og Vigfúss Gunnsteinsson. Riðu þeir þá norður yfir Haukadalsskarð og höfðu nær tvö hundruð manna; tóku þeir þá áfanga fyrir norðan skarðið. Komu þá aftur njósnamenn þeirra Sturlu og segja, að Brandur var í Miðfirði og fór heldur óvarlega."
Um Haukadalsskarð segir hinn merki danski fræðimaður Kristian Kalund í bók sinni Íslenskir sögustaðir: ?Austasti bær Haukadals er Skarð, stendur hinum megin ár. Rétt austan við bæinn er alfaravegur sem liggur um Haukadalsskarð upp á fjallheiðina, sem tengir austurenda Haukadals við Hrútafjörð (Melar).? Svo segir hann frá því að Gunnar á Hlíðarenda hafi stefnt Hrúti um fé Unnar, er við hann hafði skilið. Gunnar reið síðan úr Laxárdal og yfir í Haukadal og svo fyrir austan Skarð til Holtavörðuheiðar og heim.?
Fróðlegt væri að vita hvaða leið Gunnar hefur farið austur í Fljótshlíð. Er ekki hugsanlegt að hann hafi farið þvert á Holtavörðuheiði og komið einhvers staðar hjá Hólmavatni og þaðan í Hvítársíðu? Síðan yfir Hvítá á vaði og Kaldadal eða Okveg. Því næst Skessubásaveg hjá Skjaldbreið og Klukkuskarð niður í Laugardal nema hann hafi farið Hellisskarðsleið og komið niður hjá Úthlíð í Biskupstungum. Frá Úthlíð á vaði á Hvítá hjá Bræðratungu, en yfir Þjórsá á Nautavaði. Yfir Ytri-Rangá hefur hann farið á vaði hjá Svínhaga og síðan Kotveg að Keldum og þaðan heim. Þetta eru auðvitað getgátur einar. Gaman gæti verið að fá uppástungu um það hvaða önnur leið kæmi til greina.
Fleiri leiðir liggja úr Haukadal. Ein liggur upp hjá Litla-Vatnshorni upp með Prestagili yfir Kvennabrekkuháls að Kvennabrekku í Náhlíð, Prestagötur svonefndar. Prestarnir á Kvennabrekku munu hafa farið ríðandi þessa leið enda var útkirkja að Stóra-Vatnshorni. Frá Litla-Vatnshorni liggur líka leið að Kirkjuskógi og eins frá Saurstöðum um Saurstaðaháls yfir að Kringlu í Náhlíð.
Hér skal þess getið að sá eljusami handritasafnari Árni Magnússon fæddist að Kvennabrekku en ólst upp að Hvammi í Dölum. Líka hitt að skammt fyrir innan Saurstaði í Haukadal er bærinn Jörfi þar sem Jörfagleði var haldin fyrrum. Það var mikil skemmtun og vinsæl af alþýðunni og fékkst margt vinnufólk ekki til að ráða sig í kaupavinnu nema með því skilyrði, að það fengi að sækja Jörfagleðina.
Stundum gerðist Jörfagleðin full blautleg og eftir eina slíka fæddust 18 eða 19 lausaleiksbörn. Tók Jón Magnússon bróðir Árna Magnússonar þá á sig rögg og bannaði þennan gleðskap.
Eitt kvöldið var ég hvattur til að koma á bak og sjá veröldina af hestbaki, en áður en ég gæti svarað fyrir mig heyrðust hávær andmæli frá einum ónefndum félaga.
"Það er ekki til umræðu að hleypa honum á nokkurn hest og taka séns á að hann fái bakteríuna. Hver á þá að keyra á næsta ári"?
Og nú hefur aftur og enn verið lagt upp í ferð, en að þessu sinni er stefnt á Síldarævintýrið á Siglufirði. - Nema hvað.