12.08.2009 15:16
Í fjörðinn Dýra.
582. Á dögunum voru vestfirðir heimsóttir eða öllu heldur svolítill hluti þeirra. Aldrei þessu vant var nefnilega ekkert farið út fyrir þær aðalbækistöðvar sem undanfarin ár eins og nú hefur verið Þingeyri, ef frá eru taldar tvær hæfilega langar ferðir inn í Dýrafjarðarbotn og um næsta nágrenni.
Ég hafði áður haft fregnir af skiltinu sem sjá má hér að ofan og leitaði það því uppi og festi í flögu. Sennilega er leitun að svona sérhæfðum verkstæðum í öðrum landshlutum, en að öllum líkindum er nóg að gera á þessum bæ því skriðdrekar eru algeng farartæki sem Dýrfirðingar hafa löngum kunnað vel að meta og a.m.k. annar hver maður í þessum sama firði hefur lokið einleikaraprófi á fiðlu og gerir út á Stradivarius.
Lengst af var lágskýjað meðan á dvölinni stóð og gekk ýmist á með skúrum eða jafnvel hellirigningu. Fjallatopparnir voru þá sjaldnast sýnilegir því þeir hurfu upp í grámann svo aðeins sást upp fyrir miðjar hlíðar, en þar kom að útlit var fyrir þurran og bjartan dag eða a.m.k. dagspart. Ég nýtti því þann tíma til fjallapríls, því eiginlega er komin hefð á slíkt þegar leiðin liggur á þessar slóðir. En af tilpassandi og hæfilega vel kleifum verstfirskum fjöllum verður seint verulegur skortur. Að þessu sinni varð Sandfjall fyrir valinu, en það er innsta fjall við sunnanverðan botn og stendur næst Glámu. Ég gekk í gegn um skógræktina og upp með Botnsá, í gegn um kjarrið, mýrarlega lyngmóana og upp hlíðina sunnanveða.
Mikið hamraþil er á framanverðu fjallinu en nokkuð minna klettótt til beggja hliða. Ég setti stefnuna inn í hvilftina sem er vestan við það (hægra megin) og sveigði síðan upp að stapanum sem þar er enn vestar. Ég sá ekki betur en að þar væri svolítið skriðurof í klettavegginn og uppganga gæti verið tiltölulega lítið mál.
Gangan þarna upp eftir reyndist heldur lengri en sýndist í fyrstu en engu að síður hin ánægjulegasta, því umhverfið er allt hið fegursta og mjög fjölbreytt. Bæði eru þarna hjalandi lækir og niðandi fossar, birkilággróður og grónar lautir...
...Gil og skorningar, mosi og mýrlendi, brattgengar skriður og klettabelti.
Í Landnámu segir: Dýri hét maður ágætur. Hann fór af Sunnmæri til Íslands að ráði Rögnvalds jarls en fyrir ofríki Haralds konungs hárfagra. Dýri nam Dýrafjörð og bjó að Hálsum sem er í landi Hvamms. Hans son var Hrafn á Ketilseyri, faðir Þuríðar, er átti Vésteinn Vésteinsson. Þeirra synir vóru Bergur og Helgi.
Kenningar eru uppi um að nafn fjarðarins hafi upphaflega verið Dyrafjörður og gæti það verið vegna hinna náttúrulegu dyra sem opnast milli Sandafells og Mýrarfells þegar siglt er inn fjörðinn, en það er eitt sérkennilegasta og helsta auðkennið í landslaginu. Þó mun það vera álit flestra að nafngiftin hljóti að vera dregin af landnámsmanninum Dýra.
Munnmæli herma að Dýri sé heygður í Dýrahaug í Dýrahvilft, en myndin hér að ofan er mjög líklega af þeim hól sem átt er við.
Stóreflis steinar raðast sums staðar upp eins og einhver með ágæta skipulagsgáfu og góðan smekk fyrir úthugsuðu formi hafi komið þarna við sögu.
Og stundum fær maður á tilfinninguna að lítið þurfi til að allt fari af stað og þá væntanlega með miklum látum.
Þegar ofar kom sýndist mér uppgangan á fjallið ekki mundu verða mjög erfið.
En hún varð nú samt brösóttari en á horfðist síðasta spölinn, því fúið bergið var mjög laust í sér og mér skrikaði þó nokkrum sinnum fótur. Einu sinni rann ég af stað og bjóst við harðri lendingu en stöðvaðist á ögurstundu, varp öndinni léttar og hélt áfram upp. Það er nefnilega stundum þannig að við vissar aðstæður getur verið mun auðveldara að komast upp en niður.
En að lokum var toppnum náð eða öllu heldur brún hans. Fjörðurinn lá með öllum sínum stórbrotnu kennileitum við fætur mér og enn einu sinni hafði ég haft sigur á viðfangsefninu.
Eitthvert þinghald var viðhaft á Þingeyri á landnámsöld en ekki er vitað með vissu um byggð þar fyrst eftir landnám. Á 13. og 14. öld voru erlend kaupskip farin að koma í Dýrafjörð og á 16. öld var Þingeyri orðin miðstöð viðskipta í firðinum. Aðallega voru þetta þýsk skip og sóttust þýsku kaupmennirnir helst eftir fiski, lýsi og vaðmáli. Eini Íslendingurinn sem fékk einkaleyfi til verlsunarreksturs var Eggert Hannesson, en það var árið 1579. Á 15. og 16. öld voru það nær einvörðungu Bretar og Þjóðverjar ásamt einstaka spænskri skútu sem stunduðu verslun í Dýrafirði. 1602 var danska einokunin leidd í lög og tóku þá vellauðugir danskir kaupmenn við öllum verslunarrekstri á staðnum, en Dýrfirðingar versluðu þó á laun við franska duggara. 1684 var landinu öllu skipt í verslunarumdæmi og náði kaupsvið Þingeyrarkaupstaðar yfir norðurhluta Arnarfjarðar, Dýrafjörð og Önundarfjörð.
1742 voru á Þingeyri fjögur hús, krambúð, beykihús, pakkhús og torfkofi.
Af Sandfjalli er ágætt útsýni. Hinn fyrrverandi jökull Gláma er skammt undan og þótti mér slæmt að hafa ekki eins og 2-3 tíma aflögu til þess að ganga þangað.
Einnig sér fram á fjallsbrúnir til suðurs þar sem Arnarfjörðurinn tekur við, en þessar brúnir eru líklega skammt sunnan Mjólkárvikjunar.
Einnig sér vel yfir Hestfjarðarheiði sem liggur ofan í Hestfjörð við Djúp og líka svolítil rönd af Drangajökli handan Jökulfjarða ef vel er rýnt. Vötnin ofan við Dýrafjarðarbotn heita Þingvötn og eiga þau það líklega sameiginlegt við Þingeyri að draga nafn sitt af því þinghaldi sem var til staðar á Landnáms og Þjóðveldisöld.
Þessi skemmtilega lagaði steinn varð á vegi mínum þegar ég var farinn að huga að niðurgöngu. Eftir að hafa velt fyrir mér hvar og hvernig ég færi niður af fjallinu tók ég ákvörðun um að fara inn fyrir og suður af því. Mér sýndist sú leið greiðfærari og ekki eins brött við fyrstu sýn, en annað átti eftir að koma í ljós.
Brattinn var meiri en að norðan verðu og ég varð að ganga talsverðan spöl eftir syllu milli klettabelta.
En um það bil sem klettabeltin voru að enda, þraut sylluna og yfir gilið sem sést á myndinni hér að ofan varð alls ekki komist. Bæði var að jarðvegurinn var mjög laus í sér og svo var brattinn slíkur að nokkurn vegin heilbrigð skynsemi sagði mér að þarna væri með öllu ófært um að fara.
Ég gekk því nokkurn spöl til baka og kleif svolítinn klettaskorning (myndin að ofan) upp á næstu syllu. Myndin er tekin upp klettana og segir því lítið um hve bratt var þarna upp. Þessi leið var seinfarin en allt hafðist þetta að lokum.
Þegar allt klettaklifur var að baki fann ég mér heppilegan stall (sem ég setti sjálfan mig á) og fagnaði lengi þeim áfanga sem nú var lokið.
Næst varð á vegi mínum langur snjóskafl og ég renndi mér niður hann fótskriðu. Um miðja vegu missti ég fótanna og veltist áfram svolítinn kafla, en náði þó að spyrna við þokkalega skóuðum fótunum og komast aftur á lappirnar án þess að drægi nokkurn tíma úr ferðinni. Rétt eins og með klettagjána er myndin tekin upp á við og segir því hvorki mikið um brattann né lengd skaflsins og ég varð líka mjög feginn þegar þessum kapítula var lokið.
Þá var framundan talsverður spölur þar sem fyrst var farið um mýrlendi, þá mosavaxið hraun en síðast lyng og kjarr.
Að lokum var ég var kominn til bíls, alveg gersamlega búinn á því. En ég sá ekki eftir neinu og þetta var eftir á að hyggja alveg assk... gaman.
Ég eyddi góðum dagsparti í að skoða mig um á víkingasvæðinu, en það er farið að trekkja vel á "túrhestinn". Víkingaskipið Vésteinn lá við festar skammt undan ströndinni og vaggaði værðarlega í golunni. Fyrirmynd þess mun vera Gauksstaðaskipið sem fannst við Sandefjord í Noregi, en talið er að það sé jafnvel frá árinu 870 eða þar um bil. Það mun hafa verið úthafsskip, ætlað til hernaðar og knörrinn Íslendingur sem siglt var vestur um haf árið 1998 til minningar um Leif Eiríksson og fund "Vínlands hins góða" mun vera sömu gerðar. Vésteinn var vígður og sjósettur í júlí 2008.
Á heimasíðu Íslendings má lesa eftirfarandi: Á Víkingatímanum var áhöfn svona skips 70 manns, 64 bardagamenn og ræðarar og 6 yfirmenn. 32 réru á meðan 32 hvíldu. Í miðju skipsins var sandgryfja með opnum eldi, þar sem hægt var að matreiða í lengri ferðum. Algengt var, að búfé á fæti væri með í ferðum. Íslendingur er mjög verðugur arftaki víkingaskipanna, sem sigldu um Atlandshafið fyrir teinöld.
Íslendingur er hraðskreitt og öruggt úthafsskip. Skipið var byggt árið 1996. Það er 22,5 metra langt og 5,3 metra breitt, djúprista er 1.7 metrar og það vegur 80 tonn. Meðalhraði er 7 sjómílur, hámarkshraði 18 sjómílur. Fjöldi í áhöfn nú er 9 manns, en var 70 til forna. Skipið er byggt úr eik og furu og í það fóru 18 tonn af timbri og 5000 naglar.
Á Dýrafjarðardögum er alltaf mikið um að vera á svæðinu, en þá daga er haldin bæjarhátíð Þingeyringa sem stendur yfir heila helgi snemma í júlímánuði. Þá eru m.a. haldin námskeið í skógerð, bogsmíði, járnsmíði við opinn eld og fleira, allt með hliðsjón af verklagi víkinganna til forna.
Eftirfarandi frétt var að finna í B.B. í júlí á síðasta ári: Almennur fundur var haldinn í Félagsheimilinu á Þingeyri á síðasta ári þar sem rætt um ýmsa möguleika og tækifæri til atvinnusköpunar á svæðinu. Fundarmenn bjartsýnir á tækifæri sem uppbygging ,,Víkingasvæðis" hefur opnað nú þegar og jákvæðar hugmyndir eru um frekari þróun. Víkingasvæðið er búið að vera 4 ár í vinnslu og hefur strax skapað nokkra
atvinnu, m.a. hafa tveir menn verið í fullu starfi um tíma við að smíða víkingakip og smíði annars skips er áætluð. Tveir til þrír hafa starfað á Víkingasvæði hluta úr ári.
Talað um aðra möguleika sem liggja í ferðaþjónustu og störfum sem tengjast henni. Fólk sammála um að afþreying og fjölbreytt tækifæri til upplifunar séu stórir áhrifavaldar þegar kemur að vali á áfangastöðum á ferðalögum.
Hestaleiga er starfrækt á svæðinu og tveir til þrír hafa unnið í tengslum við hana.
Sögustaðir og víkingaþemað skipa stóran sess í því að skapa Dýrafirði, Þingeyri og nærliggjandi svæðum sérstöðu. Námskeið hafa verið haldin í skósmíði og málmsmíði á Þingeyri og nálægt 10 - 15% íbúa þar eiga víkingafatnað. Sögustaðir tengdir Gísla sögu verða merktir með söguskiltum og stórum skúlptúrum sem eru í smíðum.
Gistirými þarf að vera nóg og ákjósanlegt að hafa það fjölbreytt,
Á safnasvæðinu á Oddanum á Þingeyri er gert ráð fyrir áframhaldandi uppbyggingu í anda víkingatímans. Þar er gert ráð fyrir aðstöðu fyrir víkingaskip sem sigla um fjörðinn með farþega. Ekki er þó gert ráð fyrir hafnaraðstöðu heldur verði aðstaðan í anda tímans sem miðað er við. Gert er ráð fyrir sterkri tengingu milli þessa svæðis og aðliggjandi útivistarsvæða og að skil milli þeirra verði ekki skýr.
Elsta starfandi vélsmiðja landsins er á Þingeyri. Smiðjan sem er nánast í upprunalegu formi ber nafn Guðmundar J. Sigurðssonar sem tók til starfa árið 1913.
Allt handbragð mannvirkjanna á svæðinu vakti sérstaka athygli mína. Greinilegt er að vel er vandað til allra verka og mikið lagt í að nálgast hið þúsund ára gamla verklag eins og verða má.
Ekki er ólíklegt að tröppur hafi verið gerðar með þessu sniði á dögum Haralds Hárfagra.
Það er ekki á hvers manns færi að koma upp svona hleðslu.
Það er ekkert gler eða plexí af finna á víkingasvæðinu, enda væri slíkt mikið stílbrot og félli illa að hugmyndafræðinni sem allt þarna grundvallast á. Strengdar kálfshúðir eru í tóftum en þannig gerðu menn skjáina öldum saman.
Þessi auglýsingaskilti á vegg vélageymslu eða verkstæðis er eitt það fyrsta sem tekur á móti þeim sem eiga leið um þorpið. Ég áttaði mig ekki alveg strax á að þarna er á ferðinni annað þema og aðrar áherslur en maður sér svo víða. Auglýsingarnar ganga að vísu allar út á þjónustu við ferðamenn, en nálgunin er svolítið á annan veg en svo algengt er. Gallerí, veitingar, gisting og hestaleiga, en ekki t.d. videó og bensínsjoppa staðarins, matvara eða dekkjaverkstæði.
Einn ágætur dagur (framan af) fór í berjatínslu. Berin voru alveg merkilega vel sprottin og uppskeran var alls um sex og hálft kíló. En þegar leið á gerði hálfgert skýfall og það var hlaupið til bíls og haldið til þorps. Þá kom í ljós að gemsinn minn hafði líklega runnið upp úr brjóstvasanum og hvílir því líklega í einhverri bláberjalaut. Blessuð sé minning hans.
En þegar ég fór að forvitnast nánar um t.d. framboð á veitingum og gistingu á Þingeyri, kom það mér hreint ekki svo lítið á óvart hvað framboðið er gríðarlega mikið í þessu aðeins 300 manna þorpi.
Fyrir nokkrum árum kom belgískur ferðamaður til Þingeyrar og heillaðist svo af staðnum að hann settist að á Þigeyri. Hann keypti "Simbahöllina" sem þá var í mikilli niðurníðslu og stóð til að rífa, gerði hana upp og hefur nú opnað þar kaffihús.
Í þessu húsi var lengst af verslun Gunnars Sigurðssonar sem oftast var bara kallaður Trítill, hefur Raggi Þórðar opnað veitingastað og býður upp á hamborgara og franskar.
Hótel Sandafell er gistiheimili upp á 8 herbergi. Þar er líka boðið upp á veitingar alla daga yfir sumarið.
Þau heita Friðfinnur og Sigríður sem reka "Gistihúsið við fjörðinn" í gamla sjúkrahúsinu. Þau bjóða upp á uppbúin rúm og svefnpokapláss, góða aðstöðu fyrir hópa og einstaklinga, herbergi eða litlar íbúðir og aðgengi fyrir hreyfihamlaða.
Hinum megin við götuna er svo viðbótarrými í rauða húsinu ef sjúkrahúsið fyllist.
Þórhallur Arason býðst til að útvega farkost á sjóstöng, en einnig gistingu fyrir hópa og einstaklinga. Ég kynntist Þórhalli fyrir allmörgum árum, en þá rekur mig minni til að hann hafi verið deildarstjóri í Landbúnaðarráðuneytinu. Það kom þannig til að hann var daglegur gestur á Laugarásvideó forðum og að endingu það sem kallaðist "sjálfbjarga húsvanur kaffigestur" á þeim bæ.
Þórhallur var nýlega í þætti Gísla Einarssonar "Út og suður" og kom því vel og skilmerkilega á framfæri að hann byggi einn um þessar mundir, en færi alltaf í hreinar "nærur" og skipti um á rúminu fyrir helgar ef eitthvað ræki á fjörur hans.
Góóóóður...
Þórhallur keypti líka annað hús til að geta boðið upp á meira gistirými.
Gistiheimilið Vera er til húsa uppi á Hlíðargötu, en þar bjóða svo Skúli og Jóhanna upp á Stúdíóíbúð, uppbúin rúm, svefnpokapláss og eldunaraðstöðu.
En fyrir utan þessa upptalningu hér að ofan má einnig nefna Hótel Núp handan fjarðarins sem er stærsta hótelið á vestfjörðum svo og bændagistinguna Alviðru, rétt utan við Núp,en þar er boðið upp á ýmsar útfærslur á gistingu s.s. uppbúin rúm, svefnpokapláss, smáhýsi og hvort sem vill, eldunaraðstöðu eða mat og kaffi.
Ég gat ekki setið á mér að mynda þessa sérstöku skreytingu undir tröppunum á Veru.
Og ekki heldur hjá henni Gullu Vagns, en þarna er greinilega nostrað við garðinn.
Eitt elsta hús landsins er Pakkhúsið á Þingeyri sem einnig hefur verið nefnt Salthúsið, en það er svonefnt plankahús að gerð. Það var reist einhvern tíma á átjándu öld en tekið niður spýtu fyrir spýtu til viðgerðar árið 1994.
Ekki eru allir sammála um hver sé aldur hússins. Sumir hafa talið það vera elsta hús landsins reist árið 1732 eða 1734, en einnig er fullyrt að það sé nokkuð yngra eða byggt annað hvort árið 1774 eða 1778. En samkvæmt gömlum munnmælum er það jafngamalt Pakkhúsinu á Hofsósi sem hýsir nú Vesturfarasafnið. Húsið er sömu eða svipaðrar tegundar og bæði Tjöruhúsið og Turnhúsið í Neðstakaupstað á Ísafirði.
Endurbætur hafa að sögn gengið ágætlega, en að þeim stendur Guðmundur Óli Kristinsson frá Dröngum á Ströndum. Hann hefur verið að bæta fjalir og endurgera bita ásamt lærlingum sínum. Reyndar hefur spurst út að þær séu líklega ekkert allt of margar spýturnar sem verði úr hinu upprunalega húsi að verki loknu.
Þetta er útveggurinn sem snýr að götu séður innan frá.
Svona er hlaðið undir fótstykkið.
Og svona mætast útveggir og vel sést hvernig plankarnir eru felldir saman.
Ég endurnýjaði kynni mín við þá bræður Tinna og Trölla...
...sem eru þrátt fyrir að virðast svolítið þungir á brún, alltaf til í eltingaleik og að sýna þá gjarnan af sér heilmikla hundakæti.
En eftir fimm daga á Þingeyri var kominn tími á heimferð. Á leiðinni út úr þorpinu sá ég svartar heyrúllur í fyrsta sinn.
Og einnig þennan myndarlega hrút sem stóð grafkyrr og pósaði meðan ég myndaði hann.
Það eru komin mörg ár síðan ég fór akandi um Barðastrandarsýsluna og ég rifjaði upp nöfnin á öllum fjörðunum, en ég varð að viðurkenna að ég var u.þ.b. búinn að gleyma þeim sumum. Frá Vatnsfirði liggur leiðin um eða framhjá Kjálkafirði, Mjóafirði, Kerlingarfirði, Vattarfirði, Skálmarfirði, Kvígindisfirði og Kollafirði, en þá er komið að bænum Skálanesi. Mér hefur alltaf fundist hann vera í sérstakara lagi þar sem nánast er ekið yfir tröppurnar við dyrnar á einu húsanna og sá bær hlýtur að vera vandfundinn sem stendur nær þjóðveginum. Ég man að á árum áður var þarna til húsa sjoppa og bensínstöð, en oftast mun hafa þurft að banka upp á ef óskað var eftir afgreiðslu.
Og þar sem ég var á annað borð kominn út úr bíl og auk þess með myndavélina hátt á lofti skaut, ég einu léttu skoti að þessum flottu klettaspírum fyrir ofan bæinn. Svo var sest inn og haldið áfram um Gufufjörð, Djúpafjörð, Þorskafjörð, Berufjörð, Króksfjörð og loksins Gilsfjörð. Eftir það fóru öll örnefni að verða mun kunnuglegri. Það var auðvitað tekið talsvert af myndum í þessari vestfjarðarreisu, en aðeins lítill hluti þeirra er notaður í þessum pistli. Þeir sem hafa vilja til að skoða fleiri, finna þær á slóðinni http://leor.123.is/album/default.aspx?aid=155948