23.08.2009 05:02

Um sitthvað sem er gamalt



584.
Í vikunni átti ég erindi í bóksölu stúdenta sem er til húsa í hinu splunkunýja Háskólatorgi. Þangað hef ég aldrei komið áður svo ég litaðist auðvitað um í glæsilegum húsakynnunum, því ég hafði ágætan tíma til að svala minni meðfæddu forvitni meðan samferðamaðurinn og nafni minn yfirfór bókalistann og fann til það sem hann átti að mæta með í Bifröst um helgina. Eftir að ég hafði rennt lauslega yfir bókakilina í nokkrum hillum beindist athygli mín m.a. að því hvaða höfundar stæðu að baki nokkurra þeirra bóka sem þarna voru. Eins og við mátti búast þekkti ég fæsta, en þó vakti athygli mína að þarna var að finna nokkur mjög kunnugleg nöfn sem kom mér eiginlega alveg í opna skjöldu. Martin Luter, Aristoteles, Virginia Wolf, Franz Kafka, Voltarie, Plato, Darwin, og svo mætti lengi telja. Var virkilega verið að nota áratuga gamalt, aldagamalt eða jafnvel allt að því tvö þúsund ára gamalt kennsluefni?  Einhver myndi eflaust velta því fyrir sét hvort engar framfarir hefðu orðið á sumum sviðum síðan árið 300 eftir Krist, meistararnir hafi verið svona langt á undan sinni samtíð eða þeir hafi fundið hina endanlegu laust eða hinn eina og rétta stóra sannleik.

Sumt stendur líklega bara alltaf fyrir sínu og er í eðli sínu bæði tímalaust og síungt.

                                           *
Á dögunum skrapp ég í Bónus eftir nauðþurftum sem eitt og sér er ekki í frásögur færandi.



En bíll sem lagt var á bílastæðinu fyrir utan vakti hins vegar mikla athygli, bæði mína svo og annarra sem áttu þarna leið um.




Ég gat ekki annað en dáðst að þessum gamla og snyrtilega Skoda sem þarna stóð. Uppi á grindinni þar sem varadekki var "vistað", var svo flaggað Tékkneska fánanum.



 

Þegar ég var lítill man ég að stundum var sungin níðvísa um þessa bifreiðategund sem var stolt Sudetahéraðanna og reyndar Tékklands alls.
Skódi ljóti, spýtir grjóti,
drífur ekki niðrí móti.
Þetta var auðvitað ekki fallega sagt...



En ég var svo sem ekki einn um að láta aðdáun mina í ljós þarna á planinu, því margir stöldruðu við og skoðuðu gripinn í krók og kring.


 

Að lokum kom eigandinn út úr búðinni klyfjaður gulum innkaupapokum og settist undir stýri.



Ég spurði hann um aldur bílsins og hann svaraði því til að þetta væri ´56 módel áður en hann ók stoltur á braut.



Segja má að upphafið af sögu Skoda meigi rekja til ársins 1894. Vaclav Klement sem þá var 26 ára gamall bóksali og hafði eignast þýskt móturhjól sendi fyrirspurn til framleiðandans varðandi hjólið. Eitthvað var ekki eins og það átti að vera og hann vonaðist til að fá svör eða leiðbeiningar varðandi það sem bilað var. En þar sem hann var ekki vel þýskumælandi skrifaði hann á tékknesku. Hann fékk snubbótt svarbréf nokkru síðar og það byrjaði á eftirfarandi orðum.

"Ef þú vilt fá svar við erindi þínu skaldu skrifa á máli sem við skiljum".

Svarið fór fyrir brjóstið á Klement og leiddi til þess að ári síðar var hann varinn að selja mótorhjól. Árið 1899 var svo fyrsta hjólið smíðað og framleiðslan var orðin á annað hundrað hjóla ári síðar. Upp úr aldamótunum 1900 var svo farið að undirbúa bílasmíði og fyrsti "Skódinn" leit dagsins ljós árið 1905.
                            *
Ég átti leið um Skagafjörðinn
í endaðan júlí og kom þá auðvitað við á Flugumýri sem er orðinn mjög fastur liður. Stæsta fréttin þann daginn var sú að það hafði fundist mjög gömul kona við bæinn Mið-Grund sem er þar skammt frá. Reyndar verður ekki annað sagt en að hún hafi verið miklu meira en fjörgömul, því hún var "frá tímum frumkristni" eins og það var orðað þarna á staðnum.

 

Fyrir 40 árum eða svo var farið að grafa fyrir nýju íbúðarhúsi á jörðinni en þá komu upp mannbein. Það var því vitað að þarna hefði að öllum líkindum verið kirkjugarður og húsinu var fundinn annar staður. Síðan hefur vitneskjan að vísu verið fyrir hendi, en engar frekari athuganir verið gerðar fyrr en nú.




Það var auðvitað gerður út leiðangur því hver vill ekki fá að sjá þessi undur og stórmerki. Ég fékk að fljóta með vopnaður myndavél að sjálfsögðu. Þegar við komum á staðinn var þar fyrir hópur af "túrhestum" sem fannst greinilega mikið til um það sem fyrir augu bar.




Þarna var líka bæði fornleifafræðingur og beinafræðingur sem tóku okkur vel, svöruðu misgáfulegum spurningum okkar greiðlega og héldu svolitla tölu um það sem fyrir augu bar.

Í gröfinni lá kona og kornabarn hjá henni. Hún hafði að öllum líkindum verið um 150 cm. á hæð í lifanda lífi og beinin voru hreint ótrúlega heilleg.




Fornleifafræðingurinn benti okkur á ljósa rák í jarðveginum og sagði okkur að þetta væri öskulag úr Heklugosi frá árinu 1104. Rákin væri rétt ofan við hið gamla yfirborð jarðlaganna eins og þau hefðu verið þegar gröfun var tekin og því hefði konan dáið einhverjum árum fyrir aldamótin 1100. Búið var að hreinsa yngri jarðlög ofan af þeim eldri á svolitlu svæði og komið höfðu í ljós a.m.k. átta grafir. Ljóst var þó að grafreiturinn var enn stærri því þegar vel var að gáð miðað við fram komnar upplýsingar, markaði enn fyrir útlínum hans eftir allan þennan tíma. Líklega hefur verið hlaðinn garður í kring um hann á sínum tíma sem enn var hægt að greina. Annað sem vakti athygli mína var að gróðurfarið innan og utan veggjar var ekki alveg með sama hætti hver sem ástæðan var.




Og þarna lá hún og brosti varalausu brosi til okkar forvitna fólksins sem virtum hana fyrir okkur í forundran.

En í morgunsárið verður lagt af stað norður á Siglufjörð til nokkurra daga dvalar.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 748
Gestir í dag: 132
Flettingar í gær: 1391
Gestir í gær: 279
Samtals flettingar: 496125
Samtals gestir: 54750
Tölur uppfærðar: 26.12.2024 20:45:01
clockhere

Tenglar

Eldra efni