12.09.2009 02:30

Eldsvoðinn á Laugarásvideó.

585. Þegar ég fékk fregnir af eldsvoðanum vegna íkveikunnar á mínum gamla vinnustað og fyrirtæki, var ég staddur á Siglufirði en þar er ég ekki nettengdur. Ég átti því fyrir vikið eitthvað minni möguleika á að tjá mig hér á blogginu um atburðinn. Það er alveg með ólíkindum hvað menn geta gert framhlið sína svo vel útlítandi, verið sannfærandi og áunnið sér svo mikla og almenna samúð sem raun ber vitni. Svo vel tekst til að ekki svo mikið sem einn einasti blaðamaður hefur til þessa náð að "kveikja" á þessu máli, skyggnast örlítið inn fyrir uppdiktaða glansframhlið þess, skoða lítillega bakgrunninn og reyna að sjá á því fleiri en einni hlið. Helst kemur manni sú skýring í hug að allir þeir sem kunna eitthvað fyrir sér í faginu séu uppteknir annað hvort við Icesave eða ESB.

 

Ekki verður annað sagt en að mikið óhæfuverk hafi þarna verið unnið og gerandinn sem vonandi kemst sem fyrst undir manna hendur, hljóti að vera verulega illa á sig kominn vegna dómgreindarleysis og andlegra vankanta. Ekki að veraldlegir hlutir svo sem DVD diskar þó magnið hafi e.t.v. verið talsvert, innréttingar af allra ódýrustu gerð eða annað það sem þarna fór forgörðum sé það sem mestu máli skiptir, heldur sú hætta sem íbúar hússins voru setti í. Virðingarleysið og skeytingarleysið fyrir lífi og limum þeirra sem koma á engan hátt nálægt rekstri myndbandaleigunnar á neðstu hæðinni sem árásinni var augljóslega beint að, er algjört. Aðgerðin virðist vera framkvæmd án nokkurrar vitrænnar hugsunar og getur ekki verið annað en ófyrirgefanleg hvernig sem á málið er litið.

 

Það var gefið í skyn í Moggablogginu að þarna væri enn eitt ákallið til þeirra sem landinu stjórna um að löngu tímabært væri að gera eitthvað fyrir hina minna meigandi. Ekki var hægt að skilja það sem þar var ritað á annan veg en að gefið væri sterklega í skyn að eigandinn hefði sjálfur staðið fyrir uppákomunni. Nú þekki ég Gunnar Jósefsson meira en nægilega vel til þess að vita að slíkt er svo fráleitt sem frekast getur verið. Því þrátt fyrir að hann sé verulega skuldsettur eins og svo margir aðrir og megi illa við þessu áfalli, er þetta ekki sú leið sem ég trúi að hann myndi nokkurn tíma fara. En hann er hins vegar látinn líta út í sumum þeim fjölmiðlum sem um málið hafa fjallað sem mannlegur engill, saklaus eins og fermingardrengur sem nýbúinn er að vinna hið stóra heit sitt við almættið, sá sem fráleitt gæti átt sér nokkra óvildarmenn og hvers manns hugljúfi í ofanálag. Þeir sem þekkja til vita þó betur og víst er að oft hefur verið mikill hamagangur í kring um Gunnar sem á sér sínar skuggahliðar sem þola dagsbirtuna ekkert sérlega vel. Þetta staðfestir bara það sem mér hefur svo oft fundist um umfjöllum fjölmiðla þegar fréttir eru lítt eða illa unnar. Þær verða yfirborðskenndar, bera með sér æsifrétta og meðaumkunaryfirbragð og stundum er tæplega hægt að draga af þeim öðruvísi ályktanir en að sannleikurinn birtist manni með öfugum formerkjum. Sjaldan er reynt að kafa ofan í mál eins og þetta eða kryfja að nokkru leyti, heldur aðeins birt sýn eins aðila þess og skoðanir hans verða í framhaldinu dómínerandi og fá á sig stimpil hins heilaga sannleika.

 

Mér þótti það óneitanlega svolítið broslegt þegar því var haldið fram að tjónið næmi 200 - 250 milljónum, en allir þeir fjölmilar sem ég sá að um málið hafa fjallað kokgleyptu þessa ekkisens vitleysu athugasemdalaust. Vera má að í tölvu Laugarásvideós séu u.þ.b. 39.700 skráningar, en þess var látið ógetið að af þeim fjölda eru að líkindum allt að 18.000 VHS titlar sem löngu eru horfnir af staðnum. Eftir standa þá 21.700 skráðir DVD titlar og má reikna með að 10-20% vanti þar upp á vegna eðlilegra affalla, þ.e.a.s. vegna vanskila, það sem hefur skemmst s.l. 12 ár sem liðin eru frá því að DVD útleiga hófst og það sem hefur verið selt. Þá gætu hugsanlega staðið eftir 18.000 titlar og sagan er ekki þar með öll sögð. Innflutta efnið sem er um 2/3 hlutar heildarmagnsins hefur lengst af verið keypt inn á verðbilinu 800-2000 kr. með vsk, en það sem eftir stendur á 4-5000 kr. með vsk. Heildarinnkaupsverðið gæti því verið u.þ.b. 44,5 milljónir, en þá kemur virðisaukaskatturinn til frádráttar sem ætti að vera skv. því tæpar 9 milljónir. Kaupverðið án vsk. gæti skv. mínum útreikningum numið rúmum 35 milljónum. Þá standa eftir innréttingar, hluti tölvukerfis, sælgætislager,  o.fl. og við gætum því e.t.v. hugsanlega séð töluna 40 milljónir sem hina raunverulegu tjónatölu.

 

En það er ekki öll sagan. Það hafa birst myndir af bráðnuðum hulstrum sem standa tóm í hillum sínum því flestir diskarnir eru geymdir undir afgreiðsluborði í skúffum úr MDF sem er eldtefjandi efni. Ég hef tekið sérstaklega eftir því að það hafa hvergi sést myndir af ónýtum diskum í fréttatímum sjónvarpsstöðvanna sem hafa orðið fyrir skemmdum af völdum elds eða hita. Sé málið þannig vaxið þarf að vísu að kaupa fullt af tómum hulstrum og prenta kápurnar út af netinu, en því fylgir ekki verulegur kostnaður þó svo það sé bæði tafsamt og óneitanlega umtalsverð vinna.

En ef einhverjir mynddiskar sem kostuðu 1.500 kr. í innkaupum fyrir 5-10 árum orðið ónýtir og hafa leigst út á tímabilinu fyrir jafnvel tífallt andvirði sitt, get ég ekki áttað mig á þeim útreikningi að tjón vegna missis þeirra sé nú metið á fimmþúsunkall eða meira. Stóran hluta af mikið leigðu, slitnu og útspiluðu efni þarf líka hvort eð er að endurnýja á nokkurra ára fresti. Miklu eðlilegra væri því að miða við Kolaportsverð sem myndi þá gera heildardiskatjón 10-12 milljónir eða svo, en þó aðeins ef altjón hefði orðið.

Ég er ekki frá því að upp í hugann komi textalínur úr lagi Mausaranna þar sem segir: "Allt sem þú lest er lýgi".

 

En allt horfir þó til betri vegar því farið hefur verið af stað með söfnun til bjargar Myndbandaleigunni á barnaland.is og höfðu safnast 6.000 kr. síðast þegar ég vissi. Annað átak er líka komið af stað og er nokkurs konar yfirskrift þess: "Gefum Laugarásvideó allar gömlu myndirnar okkar sem við erum hætt að horfa á". Það er því greinilega til fullt af góðu og vel meinandi fólki sem er ávallt tilbúið að styðja við bakið á lítilmagnanum sem er auðvitað aðeins af hinu góða. En ef við skoðum málið aðeins betur þá er Laugarásvideó og núverandi eigandi þess skráður eigandi af eftirtöldum fasteignum...

Einbýlishús að Brúnavegi 1, verslunarhúsnæði að Dalbraut 1-3, ásamt nokkrum litlum íbúðum við Sporðagrunn, Mánagötu, Grettisgötu og Nýlendugötu.

Það er því greinilega ekki vanþörf á að hefja söfnunina og það strax þó svo að börn einhverra einstæðra mæðra út í bæ svelti og þær hafi ekki ráð á að senda þau í skóla þar sem ekki er til fyrir stílabókum.


Meira síðar...

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 748
Gestir í dag: 132
Flettingar í gær: 1391
Gestir í gær: 279
Samtals flettingar: 496125
Samtals gestir: 54750
Tölur uppfærðar: 26.12.2024 20:45:01
clockhere

Tenglar

Eldra efni