15.09.2009 00:32

Patrekur, Darwin, Drottinn og Vitas.



586. Sú frétt barst eins og eldur
í sinu um gjörvalla veröld að leikarinn Patrick Swayze úr hinum ofurvinsælu og næstum því tímalausu myndum Dirty dancing og Ghost væri látinn. Hann hefði dáið í gær þann 14. sept. úr krabbameini í brisi. Mun þá mörg miðaldra og ráðsett frúin hafa tárast með afgerandi hætti og fundið fyrir talsverðum fortíðarþráarfiðringi. DVD-birgðir af myndum sem kappinn lék í munu hafa selst upp á augabragði víða um heim og margir fjölmiðlar birt fréttina eins og við var að búast. En svo undarlegt sem það er þá fregnaðist það í kjölfar fyrstu fréttar að Patrekur hefði verið enn fljótari til en sjálfur meistarinn sem um ræðir hér að neðan og risið upp á fyrsta degi aftur og mótmælti því harðlega að vera jafn dauður og margir vildu vera láta. Eitthvað hökti pressan vegna þessarar leiðréttingar og einhverjir miðlar héldu að sér höndum um tíma, en nú hefur leiðréttingin verið endurleiðrétt og Patrekur er aftur sagður allur.



Frétt á visir.is sem birtist þar áðan vakti furðu mína og það ekki svo litla, en titill hennar og yfirskrift er "Kenningar Darwins of umdeildar fyrir Bandaríkjamenn". Ég las hana yfir og sannfærðist meira en nokkru sinni fyrr um að það væri eitthvað mikið bogið við þessa þjóð. Greinina sem enginn má fyrir nokkurn mun missa af, fékk ég því "lánaða" ef einhver skyldi rekast hingað inn sem ekki les visir.is.

 

"Kristnir Bandaríkjamenn eru ekki hrifnir af kenningum Darwins þó þessi mynd gefi annað til kynna.

Framleiðendur bresku bíómyndarinnar Creation sem fjallar um ævi og störf Charles Darwin eru í vandræðum þar sem þeim hefur ekki tekist að finna dreifingaraðila að myndinni í Bandaríkjunum. Þar á bæ þykir efnið of eldfimt, en Darwin setti fyrstur manna fram þróunarkenninguna svokölluðu í bókinni Uppruni tegundanna.

Þau fræði eiga víst ekki upp á pallborðið víða í Bandaríkjunum en í nokkrum ríkjum er sköpunarkenningin úr Biblíunni sett skör hærra og kennd sem heilagur sannleikur. Samkvæmt Gallup könnun sem framkvæmd var á árinu trúa aðeins 39 prósent landsmanna á þróunarkenningu Darwins.

Myndin var opnunarmyndin á Toronto kvikmyndahátíðinni og hefur hún verið seld til flestra landa heimsins að Bandaríkjunum undanskyldum. Myndin hefur skapað miklar umræður á kristnum vefsíðum í Bandaríkjunum og þar eru hugmyndir Darwins kallaðar heimskulegar vangaveltur sem engin sönnun sé fyrir. Sömu síður efast hins vegar ekki um sannleiksgildi sköpunarkenningarinnar enda er sagt frá henni í Biblíunni.

Jeremy Thomas framleiðandi Creation segist furðu sleginn yfir málinu og að kenningar Darwins skuli enn vekja svo hörð viðbrögð í Bandaríkjunum, 150 árum eftir að hann sendi frá sér Uppruna tegundanna."




En ég rakst líka á hinn ótrúlega, dularfulla og Úkraínska Vitas á youtube sem er söngvari, leikari, tískuhönnuður og kannski eitthvað fleira. Ekki er vitað margt annað um piltinn en að hann fæddist í Odessa árið 1981, hefur aldrei veitt viðtöl og virðist vera hinn mesti einfari. Ég mæli með að hækkað verði verulega í græjunum og smellt á linkinn
http://www.youtube.com/watch?v=YjO_VXHxsRw og síðan hlustað af alefli.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 748
Gestir í dag: 132
Flettingar í gær: 1391
Gestir í gær: 279
Samtals flettingar: 496125
Samtals gestir: 54750
Tölur uppfærðar: 26.12.2024 20:45:01
clockhere

Tenglar

Eldra efni