19.10.2009 11:11
Nokkur orð um kornrækt í Skagafirði.
590. Í fyrstu viku októbermánaðar var farið að huga að því að koma kornuppskerunni í hús. Við bæinn Réttarholt sem er vestan við þann hluta Siglufjarðarvegar sem liggur um Blönduhlíð og gegnt Flugumýri, er ágæt aðstaða til að athafna sig og sekkja kornið.
Ekki skemmdi að fjallahringurinn skartaði sínu fegursta í blíðunni og Mælifellshnjúkurinn vakti yfir héraðinu.
Depill horfir forviða á ferlíkið sem nálgast og hikar við að gelta að þessu undarlega faratæki.
Þreskivélin er svolítið ógnvænleg að sjá þar sem hún nálgast. Hún er eins og skrímsli með ógnarstóran hvoft, alsettan beittum tönnum.
Talið er að korn hafi fyrst verið ræktað fyrir u.þ.b. 10.000 árum. Um kornrækt á Íslandi er það að segja að landnámsmenn létu það verða eitt af sínum fyrstu verkum að sá korni við komuna til landsins. Eftir eða upp úr þjóðveldisöld fer litlum sögum af kornrækt og mun hún hafa að mestu lagst af, til að byrja með og kannski lengst af vegna kaldara veðurfars. Öldum saman voru þó gerðar ræktunartilraunir með einhverra ára eða áratuga millibili sem heppnuðust yfirleitt illa. Það var svo árið 1981 sem segja má að tilraunir Austur-Landeyinga hafi tekist með ágætum og bygg hefur verið ræktað hér óslitið síðan þá. Nú eru kornræktarbændur orðnir 90-100 talsins í þremur landsfjórðungum.
Það er farið hring eftir hring á skákinni þar til ekkert er eftir.
Hálmurinn verður eftir á akrinum en kornið safnast í tank þreskivélarinnar og er síðan blásið á sturtuvagna. Þeir sem aka því síðan þangað þar sem það er sýrt og sekkjað.
Eitthvað hefur komið upp á og það þarf að skipta um ljá.
Kornið er rotvarið með própíonsýru sem hér er komið með á athafnasvæðið.
Ingimar gerir klárt fyrir íblöndun.
Það gerist þegar byggið er á leið af sturtuvagninum sem sækir það út á akurinn og í gegn um snígilinn sem flytur það til sekkjunar.
Það þarf að jafna í sekkjum og gæta þess að þeir yfirfyllist ekki, en uppgufunin úr nýsýrðu korninu fer ekki vel í augu.
"Fráfærur" eða hvað? Eftir því sem á daginn leið fjölgaði sekkjunum á planinu.
Galvaskir kornbændur pósa fyrir manninn með myndavélina, þeir Ingólfur á Dýrfinnustöðum, Jón í Réttarholti og Ingimar á Flugumýri.
Árið 2005 var bygg af ökrum Leirár í Leirársveit fyrst notað í Þorrabjór sem framleiddur var hjá Ölgerð Egils Skallagrímssonar. Þorrabjórnum var síðan tappað á hvorki meira né minna en 45 þúsund flöskur sem eru væntanlega allar orðnar tómar þegar þetta er skrifað.
Afurðirnar fluttar heim í hlöðu...
...og kornið valsað.
Jón Ingimarsson stendur við skammtarann sem er fullur af nývölsuðu bygginu og hún er alveg með ólíkindum tæknin. Lesari sem tengist róbótanum úthlutar hverri kú hæfilegum skammti af korni, en þó ekki fyrr en eftir að hún hefur verið mjólkuð. Ekki þýðir fyrir fjósbúa með tölvukubb festan við eyrað að reyna að svindla á þessu kerfi því tölvutæknin lætur ekki að sér hæða, a.m.k. meðan enginn er "errorinn".
Ætli það sé hægt að baka úr þessu hráefni? Nei líklega færi miklu betur á að nota það við bjórgerð.
En henni þessari finnst eflaust allar slíkar vangaveltur óþarfar og eiginlega alveg út í hött, enda tilheyrir hún markhóp númer eitt.
Og dagur er að kvöldi kominn í Blönduhlíðinni. Svört nóttin hefur komið sér makindalega fyrir á hinum Skagfirsku kornökrun og mun bíða þar næstu dagrenningar.
En þegar þessi pistill er ritaður og myndskreyttur, er ég aftur kominn norður á þennan ágæta stað og sestur við blogggerð við tölvuna í fjósinu á Flugumýri.