19.11.2009 10:56
Tónleikar í Miðgarði.
(Varmahlíð)
595. Þann 7. nóv. s.l. fór ég á skemmtilega tónleika í félagsheimilinu Miðgarði í Varmahlíð. Rúmur aldarfjórðungur er liðinn síðan ég kom síðast í þetta hús sem hefur nýlega verið endurnýjað verulega auk þess að rekstrarleg áherslubreyting hefur líka orðið mikil. Í dag er rekin mun "menningarlegri" starfsemi þar en áður var, tími sveitaballanna er því sem næst alveg liðinn eins og flestir vita og nýir tímar kalla eftir nýrri hugsun. Mikil áhersla hefur verið lögð á að hljómburður sé sem bestur og sá hluti framkvæmdanna virðist hafa tekist afburðavel.
(Ljótu hálfvitarnir)
En þar sem ég var staddur þarna í sveitinni og mikið stóð til, var tæpast hægt annað en að mæta á "Ljótu hálfvitana" og "Hvanndalsbræður" í einum og sama pakkanum. "Hálfvitarnir" sem er hvorki meira né minna en níu talsins riðu á vaðið og byrjuðu á sínum þekktasta smelli "Lukkutrollinu". Mér fannst svolítið skrýtið að byrja á að spila út sínu stærsta trompi, því þar með væri "stígandaformúlunni" fórnað sem er nánast viðtekin venja að notast við. Það er að byrja með gott númer, halda góðan sjó en enda á hápunktinum. En það verður að segjast að þessir drengir fóru vissulega ótroðnar slóðir og komust hreint ótrúlega vel frá því. Það vakti athygli mína að þeir tóku með sér blautlegt nesti sem var til að byrja með vistað í baukum á svið og fóru ekki í neinar felur með það. Skammturinn var u.þ.b. tvær til fjórar dósir á mann og þeir skáluðu óspart við gestina milli laga sem tóku vel undir. Og þvílíkir sprellarar og þvílíkir húmoristar. Tíminn sem þeir voru á sviði var hrein hláturveisla út í gegn og þess utan var mjög athyglisvert að sjá að þeir skiptust sífellt á hljóðfærum milli laga. Bassaleikarinn fór t.d. á trommur, trommarinn á gítar, gítarleikarinn á básúnu o.s.frv., en þessir drengir munu allir vera Þingeyingar búandi á suðvesturhorninu. Spurning er hvort ekki sé réttast að gefa þeim 11 í einkunn af 10 mögulegum fyrir framlag sitt.
(Hvanndalsbræður)
Þegar "Hvanndalsbræður" stigu á svið var orðin talsverð ölvun í salnum, en þeir lýstu því yfir strax í upphafi að þeir væru "þurrt" band og væru ýmist hættir að drekka eða mættu það ekki. Þeir komu mér ekki síður á óvart en undanfarar þeirra, en þó á allt annan hátt. Líklega munar ekki litlu að Rögnvaldur "gáfaði" er hættur, en mér skilst að hann hafi verið talsmaður þeirra á palli. En þessir drengir hækkuðu vel í græjunum, sögðu fátt og spiluðu hvert lagið á fætur öðru án þess þó að fá mikil viðbrögð úr sal. Það var engu líkara var en fólk væri hreinlega að hvíla sig eftir allt sem á undan var gert. Hljóðblöndunin var reyndar afar slæm til að byrja með því þrátt fyrir að tónlistin hafi verið hækkuð til muna, virtist hafa gleymst að hækka sönginn til samræmis. Hann var því mjög ógreinilegur og textar skildust alls ekki. Eftir nokkur lög virtust þeir átta sig á klúðrinu og allt breyttist til hins betra. "Hvanndalsbræður" eru ekki neitt grínband í dag eins og ég hélt, heldur dúndurgóðir og ótrúlega þéttir rokkarar, afburða hljóðfæraleikarar og flottir söngvarar. Hápunkturinn í þeirra hluta var þegar þeir tóku "Maístjarnan" í þungarokksútsetningu og ekki verður á móti mælt að það var alveg ROSALEGA flott. Þá var salurinn vægt til orða tekið kominn í góðan gír á ný eftir lægðina eftir hléið og menn dönsuðu upp á borðum, slömmuðu af mikilli innlifun og létu vel í sér heyra.
Eftir á að hyggja finnst mér skrýtið að þessar tvær hljómsveitir skuli halda sameiginlega tónleika eins og þær eiga litla tónlistarlega samleið, alla vega nú orðið. En ekki var annað að sjá en að allir skemmtu sér vel í "fullum" Miðgarði þetta kvöld þar sem auðvitað það sem skiptir máli.
Og nú er ég farinn aftur norður rétt eina ferðina enn til að spila í Skagafirðinum næstu tvær helgar og finnst varla taka því að koma suður á milli. Ég ætla því að finna mér eitthvert verkefni nyrðra þá daga sem "óbókaðir" eru.