02.12.2009 02:07
Hljómsveitin Kaskó
596. Í fyrrakvöld fékk ég myndina hér að ofan senda frá ekki færri en þremur aðilum ásamt spurningu um hverjir þetta gætu verið og hvar þetta væri hugsanlega tekið. Pósturinn var m.a. ættaður frá Bjarna Degi útvarpsmanni og Króksara, en frá Rúnari Jónssyni sem ég veit ekki hver er á undan honum.
Sá sagðist hafa fengið hana frá Erlingi múrara (syni Mansa) sem byggi á Sauðárkróki og velti fyrir sé hvort hún gæti verið tekin í Haganesvík fyrst hún væri greinilega ekki tekin á Króknum.
Flestir sem þekkja eitthvað til á utanverðum Tröllaskaga vita að það gengur ekki upp, en eftir að hafa rýnt í hana og velt vöngum, fannst mér líkindi til að hún gæti verið að austan og þá helst frá Fáskrúðsfirði. Það kom líka á daginn því ég áframsendi póstinn til Þóru Bjarkar sem býr á Stöðvarfirði og það stóð ekki á svari.
Þessi mynd er tekin á Fáskrúðsfirði á sjómannadaginn 1966 og þetta er hljómsveitin Kaskó.
Frá vinstri eru: Hafþór Eide (sjómaður), Ómar Bjarnþórsson (skólastóri á Breiðdasvík), Stefán Garðarsson (f.v. sveitarstjóri í Þorlákshöfn) og Agnar Eide (býr held ég í Svíþjóð).
Enginn þeirra hélt áfram í tónlist eftir að þeir urðu fullorðnir.
Erlingur er sonur Jóhannesar múrara á Króknum sem bjó á Fáskrúðsfirði ásamt fjölskyldu sinni um tíma, en konan hans er þaðan. Erlingur bjó því fyrir austan um tíma ásamt foreldrum sínum, en þau fluttu fluttu aftur á Sauðárkrók 1970.
Þess má til gamans geta að Þóra Björk er bróðurdóttir Þórarins Vilbergssonar á Siglufirði sem er Stöðfirðingur að uppruna, en fór ungur að læra smíðar á Siglufirði og ílentist þar.
Birgir Ingimarsson fékk eftirfarandi upplýsingar frá Maríu Óskarsdóttir eftir að ég sagði honum frá þeim grunsemdum mínum hvaðan myndin væri ættuð.
Já, það held ég nú. Þessi mynd er tekin á sjómannadaginn að ég held 1965 neðan við hafnavigtarskúrinn á Fáskrúðsfirði, húsið Hraun í baksýn og félagsheimilið Skrúður þar fyrir ofan. Sjáið snjóinn í hlíðunum í byrjun júní !!!.
Á myndinni eru : Hafþór Eide Hansson - yfirhafnarvörður hjá Fjarðabyggðarhöfnum, Ómar Bjarnþórsson - Skólastjóri Grunnskóla Breiðdælinga , Stefán Garðarsson - markaðsráðgjafi og Agnar Eide Hansson- búsettur í Svíþjóð að ég held. Ekki man ég hvað bandið hét, en hef eflaust heyrt það einhvern tíman.
Myndin er úr safni feðganna Jóhannesar Jósepssonar (Jóhannes múrari kallaður á meðan hann bjó á Fásk.) og Erlings Jóhannessonar.
Það er gaman að þessu og svona virkar netið.