07.12.2009 04:24

Er önnur stjórnarkreppa framundan?



597. Eftir að hafa horft á fréttir
í kvöld og síðan endurtekið Silfur Egils, setti ég mig mig í spor hins djúphugsandi manns sem veltir fyrir sér mögulegum framtíðarfléttum á hinu pólitíska leiksviði þjóðmálanna. Sá tími er liðinn að hanastél og kristalsglös voru hátt á lofti jafnt hvunndags sem rúmhelga daga og ríkisstjórnin haltrar áfram á sínum tveimur vinstri fótum og glímir við ramman fortíðardraug.

Mikil undirskrifarsöfnun hefur farið fram á netinu þar sem skorað er á Ólaf Ragnar Grímsson að staðfesta ekki Icesave-lögin hin síðari og leggja ekki sitt af mörkum til að leysa vandamál vandamálanna, heldur búa frekar til mörg ný.

Mín skoðun er sú að Bessastaðabóndinn muni engu að síður setja nafn sitt við þau hvað sem skrafað er í netheimum. En ekki er þó ólíklegt að hann sjái ástæðu til að gefa út einhverja yfirlýsingu þar sem hann skýrir gerðir sínar og leiðréttir "rangan misskilning" þeirra sem hafa afsalað sér dómgreindinni og farið skoðanavillt.

Því geri hann það ekki má spyrja sig hvort stjórninni sé sætt og síðan má aftur spyrja sig að því hver tæki þá við, sem við núverandi aðstæður getur tæplega talist mjög eftirsóknarvert. Vill þjóðin virkilega koma þeim flokk aftur til valda sem lagði hornsteininn að hruninu mikla, þó svo að þau mistök hafi vafalaust ekki verið gerð af yfirlögðu ráði heldur aðeins farið illa með frelsið. Og hverjir myndu þá vilja spila með sem aukaleikarar, "vitandi" að í næstu kosningum yfðu fátt annað en pólitísk helför og "drög að sjálfsmorði". Og ef einhverjir "baldnir" VG-liðar ganga úr skaftinu þegar gengið verður til kosninga á Alþingi um sama frumvarp og fella það, geta þá afleiðingarnar ekki orðið hinar sömu? Líklega vantar okkur síst af öllu aðra stjórnarkreppu á árinu eða væri kannski réttara að kalla slíkt hinn óleysanlega og endanlega kreppurembihnút ef til kæmi? Ætti þetta einstaka mál ekki að vera yfir allar flokkslínur og þingsalakarp hafið, eða ætla þeir sem þjóðin treystir fyrir fjöreggi sínu að kjafta frá sér allt vit þangað til það hefur umbreyst í fúlegg vegna vanrækslu og senda okkur með tímavél Gordons Brown, AGS og fleiri illa þefjandi drauga aftur til grárrar fortíðar?

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 71
Gestir í dag: 5
Flettingar í gær: 1119
Gestir í gær: 165
Samtals flettingar: 496567
Samtals gestir: 54788
Tölur uppfærðar: 27.12.2024 03:44:22
clockhere

Tenglar

Eldra efni