15.12.2009 10:03

Fjallganga fyrir hartnær 40 árum.



600. Eins og þegar hefur komið fram hitti ég Palla Fanndal á förnum vegi fyrir all nokkru síðan og við tókum auðvitað tal saman, enda erum við Palli gamlir grannar af Brekkunni. Hann sagði mér af fjallgöngumyndunum sem hann hafði fundið í safni afa sins af mér, þeim bræðrum Guðna og Bjössa Sveinssonum ásamt Gústa Dan sem átti um tíma heima á neðri hæðinni að Hverfisgötu 11. Ég mundi vel eftir þessari allra fyrstu fjallgöngu minni, en ég varð svolítið hissa á að heyra að myndavél hefði verið með í för, enda hvorki meira né minna en tæp 40 ár síðan ferðin var farin.



Gestur mun líklega látið Guðna hafa myndavélina, en hann starfaði á þessum tíma sem sendill í verslun hans. Við höfum líklega skiptst á að "skjóta" léttum skotum á hvorn annan á ferðalaginu, en eftir á að hyggja hefðum við alveg mátt gera jafnvel enn meira af því en þó var gert. Ferðin hófst á því að Gestur skutlaði okkur langleiðina upp í Siglufjarðarskarð og við gengum þaðan á Illviðrishnjúk. Síðan héldum við sem leið lá "norður og niður", fyrir ofan Snók, út Leirdali, vestur fyrir Hafnarhyrnu og að lokum komum við niður í Hvanneyrarskál þaðan sem við gengum til bæjar
.



Þegar ég átti svo leið um sömu slóðir í ágúst s.l. með Hauk Þór, gengum við fram hjá þessu gati sem er í allmiklum kletti á leiðinni frá Illviðrishnjúk og niður að Snók. Ég mundi þá vel eftir honum frá hinni fyrri ferð og tilfinningin var ekki ólík því að hitta gamlan félaga eftir langan aðskilnað. Neðstu (gat)myndina tók ég nú í ágúst en hinar tvær efri hefur Guðni að öllum líkindum tekið 1970, en eftir því sem ég fæ best munað var göngutúrinn mikli farinn það ár.



Gestur lét okkur hafa allmikið reipi í nokkurs konar "nesti" til ferðarinnar, ef við skyldum rata í einhver vandræði í klettum eða bröttum skriðum. Ekki kom þó til þess að við þyrftum á því að halda, en vissulega var hugmyndin óvitlaus með öllu. Verst þótti mér að það dæmdist á mig að bera reipið því sem næst alla leiðina, því ég var stærstur á þessum árum og áætluð "burðargeta" mín því væntanlega talin gefa fullt tilefni til þeirrar tilætlunarsemi. Mig minnir t.d. að ég hafi verið u.þ.b. 20 kílóum þyngri en Guðni, en reikna með að þau hlutföll hafi hugsanlega eitthvað "lítillega" breyst á liðnum árum.




Guðni pósaði uppi á vörðunni á toppi Illviðrishnjúks, sem við töldum eins og svo margir aðrir á þessum tíma að væri hæsta fjall við Siglufjörð. Varðan var að miklum mun lágreistari en hún var síðastliðið sumar, en út úr henni fiskuðum við samt hólk með gestabók ásamt penna sem virkaði bara alveg þokkalega. Úr honum kom blátt blek og við settum tunguna út í annað munnvikið, hrukkuðum ennið og rituðum nöfn okkar á svo til alveg óskrifað blað. En fróðlegt væri að vita hvað verður af slíkum heimildum þegar fram líða stundir.

Almenningshnakki er að vísu u.þ.b. 15 metrum hærri en umræddur hnjúkur, og einhvern tíma heyrði ég þeim rökum beitt að það fjall sé að svo miklu leyti Fljótamegin við landamerki milli byggðanna að það geti því tæplega talist vera Siglfirskt fjall.



En það vildu auðvitað allir láta mynda sig á toppnum og sjónarhornið þurfti auðvitað að vera tilkomumikið. Vá maður. - Hver er góður með sig þarna?

En þetta eru leiðangursmennirnir Bjössi Sveins, ég og Gústi Dan.



Guðni er hér í nýja rauða nylonstakknum sínum á klettabrúninni vegna fyrirhugaðrar myndatöku, og ef ég man rétt þá staldraði hann ekki lengur við í of mikilli nálægð við brúnina en hann nauðsynlega þurfti. En mig langar til að bæta við nokkrum orðum um rauða stakkinn sem þótti að mörgu leyti afar sérstök strákaflík, og var allt að því umdeildur sem slík. Það komu aðeins tvö eintök í bæinn og að sjálfsögðu í einu tískuvöruverslunina sem var að sjálfsögðu Diddabúð sem var var til húsa á Tórahorninu efst í Aðalgötunni þar sem Sparisjóðurinn er núna. Guðni keypti strax annan þeirra en hinn hékk nokkurn tíma til sýnis á herðartré úti í glugga Túngötumegin. En svo fór þó að ég kom við hjá Önnu Láru einn daginn og keypti hann þrátt fyrir að mér þætti hann allt að því glannalegur á litinn. Á þessum árum gekk varla hnífurinn á milli okkar Guðna og við vorum bæði mestu og bestu vinir hvors annars allt þar til Helga Sigurbjörns náði af mér þeim titli. Ég velti því líka fyrir mér hvort ég hef e.t.v. pínulítið meðvitað eða ómeðvitað verið að treysta fóstbræðralagið enn frekar með þessum fatakaupum. Reyndar man ég líka vel að fljótlega eftir ég var farinn að ganga í honum fjaraði umræðan út smátt og smátt, en ég fílaði mig eftir það hið besta í nylonstakknum þrátt fyrir að hann væri allt að því "óhóflega" rauður.




Okkur þótti leiðin um fjallið fyrir ofan bæinn bæði löng og ströng, enda ekki nema ca. 12-14 ára gamlir guttar þarna á ferð. Það var því ósjaldan sest niður og pústað alla leiðina frá Siglufjarðarskarði að Hvanneyrarskál.




En útsýnið var vissulega frábært og við uppgötvuðum alveg nýtt sjónarhorn á landslagið miðað við hvernig við höfðum þekkt það áður. - Það var nokkuð sem geymdist í hugum okkar en gleymdist ekki.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 229
Gestir í dag: 22
Flettingar í gær: 1119
Gestir í gær: 165
Samtals flettingar: 496725
Samtals gestir: 54805
Tölur uppfærðar: 27.12.2024 04:49:41
clockhere

Tenglar

Eldra efni