22.12.2009 02:54

Sigurður læknir og Einar Haukur Ásgrímsson



601. Þetta er enn ein af myndunum úr fórum Gests Fanndal sem ég hef verið að glugga í undanfarið. Ég var ekki í neinum vandræðum með að þekkja Sigurð lækni sem er með eftirminnilegri mönnum frá því á sjöunda áratugnum á Sigló, en öðru máli gegndi um þann sem hjá honum stendur þó mér finndist ég ætti að kannast við svipinn.

 

Ég brá því á það ráð sem stundum hefur reynst svo vel, þ.e. að senda myndirnar til valinkunnra Siglfirðinga ásamt fyrirspurn um myndefnið.

Að þessu sinni dugði að senda hana aðeins til Bigga Ingimars því hann framsendi hana strax áfram til þeirra Gunnars Trausta og Sigga Pálma sem var af augljósri ástæðu oftast nefndur "Siggi læknisins" hér á árum áður. Ekki leið á löngu þar til rafræn skilaboð fóru að berast manna á millum bæði fram og til baka, að endingu var búið að rifja alveg heilmikið upp og "útlínur heildarmyndarinnar" tóku að skýrast.

Gunnar taldi fyrst að maðurinn tengdist S.R., en Siggi hélt að hann héti Einar Haukur og hefði starfað í tunnuverksmiðjunni. Til að vera viss taldi hann rétt að bera málið undir föður sinn Sigurð, fyrrverandi héraðslækni okkar Siglfirðinga til samþykktar eða synjunar eins og sagt er. Og útkoman eða kannski öllu heldur niðurstöður rannsóknarinnar liggja nú fyrir.

 

Til vinstri er Sigurður Sigurðsson sem var héraðslæknir á Siglufirði frá því um 1960 þegar Halldór Kristinssson lét af því starfi og að mig minnir fram undir 1970. Hann bjó ásamt fjölskyldu sinni lengst af að Suðurgötu 52 en einnig að mig minnir einhvern tíma að Lindargötu númer 10.

 

Hinn maðurinn heitir Einar Haukur Ásgrímsson, er verkfræðingur að mennt og starfaði um skeið sem framkvæmdastjóri í Tunnuverksmiðjunni á Siglufirði. Hann varð á svipstundu þekktur um land allt þegar hann keppti eitt sinn í spurningaþætti hjá Svavari Gests sem hét "Vogun vinnur". Svavar sem var mjög lágvaxinn maður er sagður hafa horft upp eftir Einari í kynningunni við upphaf þáttarins og stunið upp:
"Rosalega er maðurinn stór, hann er bara eins og viti".

Einar horfði þá niður á Svavar og svaraði af mikilli hógværð:
"Þá hlýtur þú að vera hálf-viti"

Þegar Gunnar Trausti rifjaði þessa sögu upp mundi ég eftir henni því ég sat auðvitað við útvarpstækið heima og heyrði þegar salurinn hreinlega ærðist við tilsvarið.

Og Gunnar rifjaði líka upp svolitla prakkarasögu, en það er eins og þeir vita sem til þekkja afar ólíkt honum að hafa komið nálægt slíku á sínum unglings og uppvaxtarárum.

"Við gerðum at í Einari Hauki (blessuð sé minning hans) þegar hann  bjó á Hverfisgötunni. Við setttum svokallaðan bankara (sem samanstóð af löngu bandi og steini eða einhverju öðru þungu sem var bundið í annan enda spottans) á handfangið hjá Einari og lágum síðan í hvarfi við bakka á lóðamörkunum milli hans og Helga Sveins. Gaman var að sjá þennan stóra mann koma ítrekað til dyra og verða alltaf jafn hissa þegar enginn var þar sjáanlegur. Hann hljóp fyrir húshornið, lagðist í leyni og reif upp hurðina meðan bankarinn var dreginn hljóðlega til baka.
En það var sama hvað hann gerði, allt kom fyrir ekki og að lokum varð hann að játa sig sigraðan. Og þetta fannst okkur hreint ekki leiðinlegt."

 

Einar Haukur sem er nú látinn fyrir allmörgum árum, var giftur Ásdísi Helgadóttur. 



Mig langar í lokin að bæta við einni smásögu um viðskipti okkar Sigurðar Pálma Sigurðssonar, þó vandséð sé að hún tengist umræðunni sem farið var af stað með í upphafi. Þannig var að Þegar Kristján Möller veitti Æskó á Siglufirði forstöðu, stóð hann eitt sinn fyrir skákmóti sem ætlað var nemendum Gagnfræðaskólans. Eitthvað fannst Kristjáni lítill áhugi vera fyrir mótinu, svo hann hvatti marga minni spámenn á sviði skáklistarinnar til að skrá sig til keppni og þar á meðal mig. En það má einnig koma fram til gamans að það var einmitt Kristján Möller sem hafði kennt mér mannganginn nokkrum árum áður. Mér gekk alveg hræðilega illa í byrjun og skíttapaði fyrstu skákinni fyrir Halla "kjaft" Hafliðasyni sem var ekki endilega talinn með þeim allra sleipustu. Ég skammaðist mín fyrir árangurinn eða öllu heldur árangusleysið, en sótti mjög í mig veðrið eftir að hafa lesið "Lærið að tefla" eftir Friðrik Ólafsson spjaldanna á milli. Ég las mig líka í gegn um aðra bók sem ég man ekki hvað heitir, en sú er eftir Boris Spassky sem var einmitt heimsmeistari á þessum árum. Ég lagðist í þetta sjálfsnám næsta sólarhringinn eftir fyrstu skákina og hreinlega drakk í mig allan þann fróðleik sem í þessum ágætu kennslubókum var að finna.

Þegar komið var að því að tefla við Sigga læknisins sem var einn þátttakenda, vissi ég að nú þyrfti að hugsa djúpt ef ekki ætti illa að fara. Viðureignin sem átti sér stað uppi í risi í Æskó við Vetrarbraut, fór mjög hægt af stað og af fádæma yfirvegun. Við reyndum báðir að sjá sem flesta mögulega og líklega leiki fram í tímann áður en við lékum, og það var liðið vel á þriðja tíma áður en fyrsta peðið féll. Allir aðrir höfðu fyrir löngu lokið sínum skákum og komu annað slagið og fylgdust með þessari ótrúlegu langloku. Ég held að í heildina hafi taflmennskan staðið yfir í u.þ.b. fjóra tíma og ég er ekki frá því að þetta hafi verið fallegasta skák sem ég hef nokkru sinni teflt. Fróðlegt væri að vita hvort Siggi man eftir þessu.



 

Þessa mynd fékk ég "lánaða" á gömlu síðunni hans Steingríms. Þarna eru Þórður í Hrímni, Sigurður læknir (með pípuna) og Tryggvi Sigurbjörnsson rafveitustjóri. En ég er ekki frá því að drengurinn sem sést milli þeirra Þórðar og Sigurðar sé Sigurður Pálmi Sigurðsson eða Siggi læknisins.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 71
Gestir í dag: 5
Flettingar í gær: 1119
Gestir í gær: 165
Samtals flettingar: 496567
Samtals gestir: 54788
Tölur uppfærðar: 27.12.2024 03:44:22
clockhere

Tenglar

Eldra efni