26.12.2009 13:41
Uppáferð Bláusar og afleiðingar hennar
603. Það var einhvern tíma seint í haust að ég heyrði þessa nafngift fyrst og kunni strax vel við hana.
En Bláus...! Hver er nú það?
Jú, það mun vera litla bláa Micran sem hefur komið mér á milli staða undanfarin ár og undantekningalítið staðið sig með undraverðum hætti þó svo að oft hafi verið mikið á hana lagt.
En nýverið lenti hann í slíkum hremmingum að tvísýnt þótti um framhaldið, þ.e. hvort hann yrði dæmdur til pressu eða púkkað frekar upp á gripinn. Upphaf málsins var að í desemberbyrjun frysti fyrst snögglega, en hlánaði síðan aftur með engu minni látum svo úr varð verulegt og mjög skyndilegt hálkuskot. Glærasvell myndaðist og þó að ástandið stæði stutt yfir, náði það að gera mönnum einhverjar skráveifur áður en það hvarf aftur af malbikinu. Síðdegis þennan sama dag var sá sem þetta ritar sendur út í búð eftir nauðsynjum sem er í sjálfu sér ekki í frásögur færandi. Leiðin lá frá Öldugötu, yfir Áslandið og niður að Völlunum sem eru þar fyrir sunnan og neðan. Þannig hagar til að leiðin sem lýst er liggur fyrst upp brekku áleiðis upp að Ásfjallinu, en síðan er ekið niður aðra brekku sem endar í beygju inn á eitt hinna fjölmörgu hringtorga Vallarhverfisins. Þegar umrædd sendiferð var farin var "hálkuferlið" líklega nálægt hámarki sínu.
Þegar komið var niður brekkuna, hlýddi sá blái "skyndilega" engum fyrirmælum og fór sínu fram á fljúgandi hálum veginum og stefndi rakleiðis á endann á vegriði sem gróf sig ofan í vegkantinn. Það var sama hvað var að gert, engum vörnum varð við komið og það var eins og litli bíllinn hefði öðlast sjálfstæðan vilja. Sá vilji fór svo sannarlega ekki saman við minn því ég bremsaði, sleppti brensunum aftur, beygði og gíraði niður allt án þess að það breytti nokkru. Bláus stefndi rakleiðis að rótum vegriðsins og hóf sig á loft eins og lítill fugl á góðviðrisdegi snemma vors þegar sólin skín, flugurnar suða og blómin anga.
Eftir að hafa rennt sér á vegriðinu nokkra metra var engu líkara en sá blái hefði tekið hina endanlegu ákvörðun um hvoru megin riðs hann vildi heldur vera og tók að hallast ískyggilega mikið til vinstri. Auðvitað má vel vera að þungi ökumannsins hafi haft þarna nokkur áhrif því vigt hans telst vera lítillega yfir meðallagi miðað við hæð, aldur, beinabyggingu o.s.frv. En svo má auðvitað ekki gleyma því að vogstangaraflið eða "vegasaltáhrifin" séu ekki síður líkleg til að hafa sín áhrif. Samkvæmt áðurnefndum kenningum sem hafa margsannað sig, er það sem er á uppleið öðru megin nefnilega vísast til að halda sínu striki og taka stefnuna niður hinum megin sem var akkúrat það sem gerðist í þessu tilfelli. Sá blái rann ótúlega hægt og alls ekki neitt sérlega tignarlega út af áðurnefndu vegriði og lenti ofan á tveimur stórum steinum. Kannski væri nær að segja björgum því lendingargrjótið er af svipaðri stærð og lögun og sést oft í uppfyllingum þar sem því er ætlað að varna landbroti af völdum sjávargangs. Og þarna tók ökutækið aftur að hallast að mér fannst ofurhægt og enn meira til vinstri þar til það stöðvaðist. Um stund sat það eins og fátt eitt hefði gest og vélin malaði áfram eins og saumavél sem henni er svo tamt að gera í hægagangi. Mér fannst eins og litli blái bíllinn vildi segja: "Jæja, þá erum við komnir hingað".
En ég var þegar þarna var komið sögu, ekki alveg búinn að átta mig á verulega breyttum aðstæðum og tók nú að hugsa fyrir framhaldsaðgerðum.
Líklega var best að stíga út og sjá hvernig þetta væri allt saman að gera sig. Ég reyndi að opna hurðina mín megin en það var alls ekki nokkur vegur að hreyfa hana. Ég leit út um hliðarrúðuna farþegamegin en skynjaði þá að ég "horfði til himins" eins og segir í texta þeirra Nýdanskra. Mér datt þá í hug að skrúfa niður hliðarrúðuna mín megin og renna mér þar út. Ég drap þó fyrst á bílnum og lét mig því næst vaða niður um gluggann. Ég gekk aftur fyrir bílinn og virti stöðu hans fyrir mér. Hún var allt í senn, listræn, dapurleg, án mögulegrar flóttaleiðar og eiginlega um leið talsvert spaugileg.
Hún var listræn að því leyti að hægra framhjólið og vinstra afturhjólið tylltu sér upp á eins konar staksteina og framhjólið þó mun hærra. Vinstra framhjólið virtist hafa komið sér makindlega fyrir ofan í djúpri dæld sem væri líklegt til að veita því skjól fyrir svolítilli slydduhríð sem þarna angraði okkur. Hægra afturhjólið var hins vegar hátt á lofti rétt eins og afturendi á kálfi sem er að stíga sín allra fyrstu skref út í sumarið eftir að hafa dvalið veturlangt í fjósi. Já bílgarmurinn sat þarna sem fastast, reygði sig og teygði uppásnúinn eins og misheppnaður skúlptúr nýlistarmanns sem á langt í land með að finna og þróa hinn endanlega stíl sinn. Og örugglega einnig án þess að vekja nokkra aðdáum þeirra sem gætu haft einhverja aðkomu að málinu t.d. fyrir listræna uppsetningu, fagurfræðilega hönnun eða uppátækjasama nýbreytni sem væri líkleg til að slá í gegn. En því verður ekki á móti mælt að litlar sem engar líkur eru á að hægt sé að endurtaka lendingu eins og þessa sama hvað reynt yrði.
Hún var verulega dapurleg fyrir veskið mitt, svo ekki sé minnst á að heima biðu mín nýsoðnir ábrystir sem myndu verða orðnir kaldir þegar ég kæmist í þá. Auk þess var þessi ferð mín tilkomin vegna þess að það var ekki til rjómi út á þá sem mér þykir alveg nauðsynlegur þáttur. Hún var algjörlega án möguleika á að aka, ýta eða draga vesalinginn þarna uppi á grjótinu í burtu og halda áfram ferð sinni. Hann var nefnilega svo kyrfilega skorðaður á stalli sínum að eina leiðin til að ná honum niður var að bregða á hann stroffum og hífa upp og til hliðar, yfir vegriðið og inn á götuna.
Og svo var hún spaugileg á sinn sérstaka hátt í dapurleikanum sem er eiginlega lýst til fulls í listræna þættinum hér að ofan. Að vísu er ekki alveg víst að allir skilji gráleitan húmorinn í þessu öllu saman en það verður þá bara að hafa það.
Og þarna stóð ég og virti fyrir mér þennan samferðung minn til margra ára og við sem höfum svo marga fjöruna sopið saman.
Þegar söguhetjunni Bláus hafði verið komið í hús, var farið að kanna skemmdir og því næst mögulegar framhaldsaðgerðir. Eftir að fyrir lá hvaða varahluti þurfti til viðgerðarinnar, var farið að kanna hvað þeir myndu nú kosta. En eftirhrunsgengi krónunnar virðist hafa haft síst minni áhrif á notaða varahluti hjá partasölum en vöruverð í verslunum, svo ekki þótti réttlætanlegt að eiga mikil viðskipti á þeim bæjum. Það mætti ætla að nýbúið væri að leysa allt þeirra gamla og misjafnlega mikið slitna dót úr tollinum með tilheyrandi fjármagnskostnaði og ómældri fyrirhöfn. Nú voru góð ráð dýr, önnur jafnvel enn dýrari og sum þó langdýrust. En þar sem ég velti fyrir mér möguleikunum í stöðunni mundi ég eftir að hafa heyrt um einhverjar Micrur norður í Skagafirði sem búið var að leggja. Ég hringdi því norður, kannaði málið og viti menn, þar norðurfrá virtist kreppuáhrifa gæta mun minna og á annan hátt en hér syðra.
"Það eru tveir svona bílar eins og þú átt hérna úti á hlaði og þú getur fengið allt sem þú vilt taka úr þeim báðum fyrir tvo bjórkassa af viðurkenndri tegund" var svarið við erindi mínu.
Ég hafði því næst samband við Ingólf bónda á næsta bæ við Micrustaði og áður en ég hafði að fullu lokið við að stynja upp erindinu, var hann búinn að bjóða mér bæði aðstoð sína og alla þá aðstöðu sem hann réði yfir.
Þegar ég kom norður var Ingólfur búinn að draga aðra Micruna til skemmu og koma henni upp á kubba. Mikil atlaga var nú gerð að "Rauðku" og eftir hluta úr kvöldstund var bæði fátt og lítið eftir í henni framan við framrúðu. Rétt er og sanngjarnt að geta þess að það var Ingólfur sem dró vagninn í "rifrildinu" og á allan heiður af hinum verklegu framkvæmdum. En ég sem hef aldrei komið nálægt bílaviðgerðum og er mikil rati á því sviði, var að mestu í hlutverki handlangarans.
Afurðirnar voru nú settar á kerru sem Ingólfur lánaði mér til suðurferðarinnar, en ég hafði komið norður á Subaru Legacy sem ég hafði líka fengið að láni. Reyndar var það hjá ágætum nágranna hér syðra sem hafði nýverið fengið heilmikla slæmsku í annan fótinn og taldist vera ófær um að aka bíl þar til hann hefði fengið bót meina sinna. Ekki verður því annað sagt en að rausnaskapur og greiðvikni Ingólfs svo og fótamein nágrannans hafi orðið bílaútgerð minni til bjargar á ögurstundu.
Hér getur að líta hina Micruna sem við fyrstu sýn virtist vera í fullu fjöri. Mér var þó sagt að það væri nú vísast eitthvað minni háttar sem væri að plaga og hún væri þess vegna á leið í pressu. Ég taldi þá rétt að fullnýta "bjórkassadílinn" því hún var afar vel dekkjuð og þess vegna hvíldi hún aðeins á tveimur vörubrettum þegar ég yfirgaf staðinn.
Allt var nú tilbúið til brottfarar. Nauðsynlegir varahlutir og aðrir hlutir sem gæti hugsanlega einhvern tíma vantað, voru komnir á kerru ásamt fjórum lítið slitnum dekkjum á felgum. Ég gat ekki verið annað en sáttur við viðskiptin og þakklátur hjálparhellunni Ingólfi.
Og nú var ekið viðstöðulítið suður yfir heiðar. Þó gat ég ekki á mér setið og staldrað örlítið við í Borgarfirðinum milli Bifrastar og Hraunsnefs þar sem þetta flotta jólahús fangaði athyglina. Ég kom þrífætinum fyrir við heimreiðina, fann réttu stillinguna og myndaði þennan ljósum prýdda bæ svo fleiri mættu njóta.
En því er við að bæta að Bláus er kominn á stjá á nýjan leik og er hinn hressasti.