09.01.2010 22:33
Vanir menn og Júróvisjón
610. Í kvöld fór fram fyrsta undankeppni Júróvisjón þar sem fimm lög kepptu um tvö sæti. Það kom mér alls ekki á óvart að núverandi samherji minn og félagi í dúóinu Vönum mönnum skyldi vera annar þessara tveggja með lag sitt "The One". Sá sem um ræðir heitir Birgir Jóhann Birgisson og óhætt er að segja að hann hafi mörg járn í eldinum þessa dagana, enda mikill reynslubolti í tónlistarbransanum svo ekki sé meira sagt. Hann hefur spilað með talsverðum fjölda hljómsveita s.l. 30 ár eða svo, en þekktastar eru líklega Sálin, Þúsund andlit, 8-villt og Upplyfting. Hann fyllti svo skarðið í Vönum mönnum sem Axel gítarleikari Einarsson skildi eftir sig þegar hann fluttist til Svíaríkis. Birgir er klassískur píanóleikari að mennt, en einnig mjög liðtækur gítaleikari. Hann rak Stúdíó Stef sem var til húsa við Auðbrekkuna í Kópavogi til margra ára ásamt m.a. Lárusi Gríms (úr Eik) Þorvaldi Halldórs (stórsöngvara frá Sigló) og fleirum góðum mönnum. Í dag starfar hann sem upptökumaður, hljóðmaður, útsetjari, við tónlistarútgáfu og spilamennsku. Birgir tók til að mynda upp meiri hluta laga á diskunum "Svona var á Sigló" sem komu út árin 2000 og 2004 auk þess að hljóðblanda einnig nokkur þeirra. Við höfum þekkst allt frá árinu 1990 þegar ég mætti fyrst til hans í upptöku ásamt Eyþóri Stefánssyni og Hallvarði S. Óskarssyni sem þá skipuðu Vana menn.
Birgir getur að mínu mati státað af besta söngvara kvöldsins sem er Íris Hólm úr hljómsveitinni Bermúda. Og til gamans má geta þess ef einhverjir Skagfirðingar kíkja hérna inn, þá er Pétur bassaleikari í því sama bandi giftur systir Ingólfs á Dýrfinnustöðum sem bjargaði mér á dögunum þegar mig bráðvantaði varahluti í Micru.
Jú, Ísland er vissulega lítið land þar sem stutt er á milli manna.