15.02.2010 23:49
Nokkur orð um þá sem kvatt hafa
614. Meðan ég beið eftir símtali í dag sem aldrei kom, dvaldist ég við að skoða mig um á netinu eins og svo oft áður. Að þessu sinni staldraði ég við á gardur.is og þá helst og lengst í hinum eldri kirkjugarði á Siglufirði. Á gardur.is er skráður Siglufjarðarkirkjugarður hinn eldri og yngri, en ennþá eldri (og þar er ekkert skráð) er þó kirkjugarðurinn á Hvanneyrarhólnum fyrir ofan prestsetrið. Þar var sr. Bjarni Þorsteinsson jarðsettur árið 1938 og líklega hefur hann verið sá síðasti til að hljóta þar hvílustað. Þá man ég ekki betur en að hafa heyrt því fleygt að kirkjugarður hafi fyrir margt löngu verið á eyrinni ekki langt frá þar sem Barnaskólinn stendur núna, en það kann að vera á misskilningi byggt. Þar stóð þó kirkja fram undir miðja síðustu öld og var afhelguð þegar núverandi kirkja var tekin í notkun. Þá er kirkjugarður á Siglunesi en þar var aðalkirkja Hvanneyrarhrepps á öldum áður.
En mér þótti svolítið merkilegt að skoða skráningarnar
Gerður er greinarmunur t.d. á lögfræðing og málafærslumanni, - barni, kornabarni og ungabarni, - gamalmenni og öldungi,- byggingarmeistara og smið, - ógiftri konu og jómfrú, - daglaunamanni og verkamanni, - sjúkling, öryrkja eða farlama, prestfrú, húsfrú, (bara) frú, ekkjufrú, húsmóður og húsfreyju og svo mætti lengi telja.
Ég velti því fyrir mér eitt lítið andartak hvort hvort titlar og virðingarstöður fylgja mannfólkinu yfir gröf og dauða, eða hvort skráningin segi kannski meira um skrásetjarann en þann sem skrásettur er. En að slepptum öllum léttúðugum vangaveltum, er auðvitað fyrst og síðast verið að aðgreina Jón smið frá Jóni sjóara eða jafnvel Jóni grafara og auðvelda aðstandendum þannig að finna sína.
En hér eru engu að síður nokkur dæmi tekin beint upp úr bókinni:
Nafn Fæðingard. Andlátsd. Staða.
Alfons Jónsson 16.07.1898 29.04.1952 Lögfræðingur
Andreas T. Rundhaug 26.06.1910 18.09.1934 Norskur sjómaður
Ann Einarsdóttir Sívertsen Ekki vitað Ekki vitað Lausakona
Egill Jónsson Ekki vitað Ekki vitað Sendisveinn
Ágústa Jósepsdóttir Ekki vitað 08.09.1959 Gamalmenni
Björg Jónasdóttir Ekki vitað Ekki vitað Jómfrú
Björn Guðmundsson Ekki vitað Ekki vitað Þurfalingur
Einar Ásmundsson 25.11.1878 13.10.1979 Öldungur
Færeyskur drengur Ekki vitað Ekki vitað Barn
Guðmundur Einarsson 15.01.1865 25.09.1907 Faktor
Guðrún Halldórsdóttir Ekki vitað Ekki vitað Sjúklingur
Hildur Jónsdóttir 20.05.1872 08.07.1946 Ógift
Sigurður Gunnlaugsson 05.10.1906 25.10.1991 Bæjarmaður
Stefán Pétursson Ekki vitað Ekki vitað Farlama
Vignir Eðvaldsson 11.06.1907 06.06.1969 Fatapressari og hringjari