24.03.2010 01:14

Nokkur orð um húsin í bænum



622. Það er líklega ekki of djúpt í árinni tekið
að segja að fasteignamarkaðurinn á Siglufirði hafi verið á lágstemmdari nótunum undanfarna áratugina og verðlag húsnæðis lengst af býsna "botnlægt". Samt hafa átt til að myndast svolitlir verðtoppar, en þeir oftar en ekki verið stýfðir af með byggingar"skoti" sem hefur leitt til tímabundins offramboðs með tilheyrandi lækkunum.

Eftir að síldarævintýrinu lauk tóku við nokkur mögur ár þar sem allt staðnaði, bærinn drabbaðist niður og almenn svartsýni íbúanna jókst til muna. Eftir það heldur niðurdrepandi tímabil tók það næsta við sem stundum hefur verið nefnt "skuttogaraöldin". Allt virtist á bullandi uppleið, síldarverksmiðjur, plön og brakkar týndu tölunni. Splunkunýtt og mjög fullkomið frystihús var byggt, atvinna jókst til muna og menn fóru að byggja hús eins og þeir ættu lífið að leysa. Á seinni hluta áttunda áratugsins og aðeins fram á þann næsta var gríðarlega mikið byggt á Siglfirskan mælikvarða. Á annan tug íbúða á Fossveginum einum, einnig talsvert á Hólaveginum þar beint fyrir ofan svo og nokkru sunnar, 9 stórmyndarleg raðhús við Hafnartún svo og einnig hér og þar á óbyggðum lóðum inn á milli eldri húsa. Skömmu síðar var Norðurtúnið (allt) byggt svo til í einu lagi og segja má að þessari loti hafi lokið með byggingu "fjósanna" svokölluðu við Hafnartún árið 1984. Eftir þetta "átak" og reyndar einnig á meðan á því stóð, hríðféll verð  á eldra húsnæði, því offramboð varð á eldra húsnæði og sem dæmi keypti ég 260 fermetra íbúð sem þarfnaðist að vísu verulegra endurbóta á heilar 80.000 (áttatíuþúsund) (ný)krónur um áramótin 80/81. Þegar hinn Siglfirski fasteignamarkaður var aðeins tekinn að jafna sig aftur, reið næsta byggingaralda yfir. Dvalarheimilið Skálahlíð var stækkuð verulega, en við það losnaði um talsvert af eldra húsnæði í bænum. Það hefði því að öllum líkindum fullnægt eftirspurn í einhvern tíma, en það gerðist fleira á svipuðum tíma. Gamla bakaríinu við Hvanneyrarbraut var breytt í íbúðir og svonefnd Grásteinshús voru byggð ásamt nokkrum einbýlishúsum við Eyrarflöt. Annað verðfall var því óumflýjanlegt og sem dæmi var verðmiðinn á litlu og gömlu bárujárnsklæddu einbýli nokkurn veginn fastur í 400-600 þús. um árabil. Það er ekki fyrr en nokkuð eftir aldamótin 2000 sem segja má að flest hafi farið að stefna í einhverja vitræna átt, og nú er svo komið að fasteignir bæjarbúa eru aftur orðnar svolítilla peninga virði.  

Það er ekki alveg að ástæðulausu sem ofanritað rifjast upp núna, því hugmyndir eru uppi um að byggja 14 íbúðir á gamla malarvellinum við Túngötu.

Sjá nánar á slóðinni http://www.sksiglo.is/is/news/vill_reisa_14_hus_a_fotboltavelli/




Á Siglufirði voru skráðar 32 eignir á fasteignir.is þegar ég skoðaði hann á dögunum, en hann er sameiginlegur vefur starfandi fasteignasala. Þessi tala þýðir að til sölu eru u.þ.b. 25 eignir á hverja 1000 íbúa, en þar af eru reyndar ekki nema 7 íbúðir sem myndu teljast til tiltölulega lítilla eigna.
Í Reykjavík eru skráðar 4451 eignir á sama vef sem eru því um 42 eignir á hverja 1000 íbúa en það telst vera gríðarlegt offramboð. En þess utan skal á það bent að mun algengara er þar en á Siglufirði að sama eign sé skráð á fleiri en einni fasteignasölu og eru því skráningarnar mun fleiri en eignirnar. Ég gerði (að vísu) svolítið ófaglega talningu á nokkrum síðum vefsins og samkvæmt henni væri sennilega nær að ætla að talan gæti verið á bilinu 35-37 eignir á hverja 1000 íbúa.

Ég kannaði nokkra staði til viðbótar sem eiga það sameiginlegt að ekki á að vera um offramboð af húseignum að ræða nema e.t.v. á Akureyri. Upplýsingar um skráðar eignir eru fengnar hjá fasteignir.is en íbúatölur frá Hagstofu Íslands.

Dalvík 17 eignir á 1000 íbúa.

Blönduós 14 eignir á 1000 íbúa.

Ólafsfjörður 31 eign á hverja 1000 íbúa.

Akureyri - 48 eignir á hverja 1000 íbúa.

Seyðisfjörður - 16 eignir á hverja 1000 íbúa

Bolungarvík - 26 eignir á hverja 1000 íbúa.

Það er því hægt að leiða að því nokkur rök að ástæða sé til að finna fyrir svolitlum fiðring í tánum þegar farið er að tala um nýbyggingar á Siglufirði. Auðvitað þarf að byggja hús þar sem fólk ætlar sér að búa, en ég vona bara að það fái ekki of margir of mikið og stórfenglegt bjartsýniskast á sama tíma.



En ég vil taka það fram að það er síður en svo skoðun mín að ekki eigi að byggja hús á Siglufirði. Ég held bara að minna í senn en kannski oftar, sé gæfulegri leið að markinu, en svo má ekki gleyma gömlu húsunum. Ég get ekki stillt mig um að bæta við nokkrum myndum hér að neðan af húsum sem hljóta að teljast vera orðin alveg ómissandi í bæjarmyndinni í dag, þrátt fyrir að margt misjafn hafi verið um þau sagt á árum áður og jafnvel talað um að best væri að fara með jarðýtuna á þessi ónýtu hrófatildur. En mörg þeirra sem áður voru vissulega til lýta hafa komist í góðar hendur og endurheimt reisn sína og þokka. Rétt er að rifja það upp í leiðinni að þrjú efstu húsin fengust gefins gegn því að útlit þeirra yrði fært til betri vegar.



































Svo má líka spyrja sig að því hvort ekki sé að finna á myndununm hér að ofan húsagerðir sem myndu falla betur að byggðinni í kring um gamla fótboltavöllinn en áform eru uppi um.
Dæmi nú hver fyrir sig.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 919
Gestir í dag: 151
Flettingar í gær: 1391
Gestir í gær: 279
Samtals flettingar: 496296
Samtals gestir: 54769
Tölur uppfærðar: 26.12.2024 22:24:01
clockhere

Tenglar

Eldra efni