13.04.2010 00:00
Páskahretið og eftirstöðvar þess
625. Eins og ég nefndi í síðasta bloggi var svolítið súrt að hverfa frá Síldarbænum þegar páskafjörið var rétt að byrja, en það varð þó til þess að ég missti líka af páskahretinu sem mér fannst svona eftir á að hyggja ekki endilega alveg jafn súrt. Þegar hátíðin var liðin var aftur lagt af stað norður yfir heiðar og þá mátti glögglega sjá að það hafði gert allnokkra ofankomu þá daga sem menn höfðu verið fjarverandi.
Nú skyldi halda áfram þar sem frá var horfið, en þó væri full ástæða til að hafa myndavélina við höndina ef vera kynni að eitthvað bæri fyrir augu sem festa mætti í flögu.
Ég var staddur á gámasvæðinu þegar kunnuglegar drunur heyrðust. Ég greip til vélarinnar og náði í skottið á snjónum sem steyptist fram af þaki Mjölhússins. Ég hugsaði til skiltisins sem einu sinni var á horni þess sama húss, en á því stóð: HÆTTA ÞEGAR SNJÓR ER Á ÞAKINU. Manni fannst auðvitað svolítið spaugilegt að lesa þessi orð yfir hásumarið, en það var vissulega ekki ofsagt því þarna gat verið um gríðarlegt snjómagn að ræða. Stundum þegar skriðan af þakinu var í þykkra lagi og lagði af stað niður þakið, fylltist sundið á milli Mjölhússins og Tunnuverksmiðjugeymslunnar.
Snjóruðningurinn fyrir neðan litla rammíslenska sumarbústaðinn við Aðalgötuna er þarna greinilega orðinn talsvert hærri en hann - og þarf kannski ekki mikið til.
En ef grannt er skoðað, þá fer þetta litla hús sennilega mun betur við snjófjallið en Símstöðina.
Byggingarefni sem fallið hefur að himnum ofan í orðsins fyllstu merkinu, dugir vel til þess að byggja tvö virki og það sér ekki högg á vatni þó talsvert sé notað af sama hráefni til að hnoða úr skotfæri.
Hér hafa greinilega skapast kjöraðstæður til "fjallgöngu" sem eru auðvitað gjörnýttar eins og sjá má, en takið eftir að götur og gangstéttar eru alveg orðnar þurrar.
En alveg eins og um páskana var ekið suður þegar helgin var um það bil að ganga í garð og aftur til þess að spila. En nú er það búið og gert og tímabært að leggja af stað aftur á norðurslóðir.