27.04.2010 12:01
Portúgali, Tíðaskarð, Saurbær og önnur skrýtin bæjarnöfn, ofureldavél og bæjarfjallið Hólshyrnan...
627. Þegar ég var á leiðinni norður á Sigló fyrir fáeinum dögum, kom ég við hjá Hrólfi á Nýbýlaveginum því það var alveg kominn tími á klippingu og þó fyrr hefði verið. Það er ekki hægt að segja að það hafi myndast langar og vandræðalegar þagnir meðan staldrað var við því það var meira en nóg að spjalla um. En áður en ég fór, sýndi hann mér Portúgalann sem hann notar gjarnan þegar við á.
Þetta er akkúrat nákvæmlega sami Portúgali og Gylfi Ægis orti um í "Minning um mann" forðum.
"Hann Portúgalann teygaði það gerði ekkert til,
það tókst með honum yl í sig að fá."
Þar segir frá Gölla Valda sem þótti í meira lagi drykkfelldur og einn af hans uppáhalds drykkjum var Portúgalinn sem að sjálf sögðu var ekki ætlaður til drykkjar. En það er nú stundum þannig að ekkert er meira spennandi og skemmtilegra en að stelast til að gera það sem er bannað, og þar á eftir kemur að reyna að drekka það sem merkt er "óhæft til drykkjar".
Einum stórnotanda og dyggum áhanganda Portúgalans var einu sinni bent á áletrun á miðanum og sagt að það sem þarna stæði þýddi "hristist fyrir notkun".
"Ja hérna, eins gott að kynna sér notkunarreglurnar" svaraði hann og eftir það hristi hann glasið alltaf duglega áður en hann fékk sér einn gráan. Eftir heimsóknina til Hrólfs var haldið út úr bænum. Þegar við Ingvar sem var samferða mér norður, vorum rétt komnir að Hvalfjarðargöngunum fékk ég þá flugu í höfuðið að sveiga lítillega af leið. Það er orðið langt síðan þessi beygja hefur verið tekin sem er reyndar hið versta mál, því það er virkilega gaman að aka Hvalfjörðinn á góðum degi. "Veistu hvað þetta litla skarð heitir"? Ég spurði en Ingvar var ekki með svarið og spurði á móti eins og hann efastist um að ég vissi það heldur. "Tíðaskarð" svaraði ég að bragði, en síðan upphófust nokkrar umræður um af hverju nafnið væri dregið. Það er reyndar ekkert tvírætt við upprunann þó að oft verið ýað að því, og óneitanlega hljómar nafnið í þá veruna. Tvær ástæður hafa verið nefndar sem líklegastar. Um Tíðaskarð gæti hafa legið fjölfarin reiðgata sem fara þurfti um þegar tíðir voru sóttar. Önnur þekkt skýring er sú að veðurskil hafi oft verið við skarðið þannig að tíðin hafi e.t.v. sjaldan verið sú sama beggja vegna þess.
Frá Hvalfjarðarveginum sem nú er ekki lengur sama þjóðbraut og áður er afleggjari niður að Saurbæ og Saurbæjarkirkju. Hann hefur að mestu verið aflagður eftir að vegurinn færðist neðar með tilkomu Hvalfjarðarganganna.
Skiltið með bæjarnafninu er fallið og lá í grasinu við vegkantinn. Við skoðuðum það aðeins og fram kom sú hugmynd að nema það á brott og nýta á hurðina heima þar sem nú er lítið merki með mynd af krökkum að pissa í kopp. Óneitanlega meira afgerandi merking, en frá því var samt horfið.
Við ræddum um bæjarnöfn til sveita á leið okkar upp Borgarfjörðinn og hve oft væri bæði strembið og skondið að þýða þau t.d. yfir á engilsaxneska tungu. Stundum vegna þess að merkingin væri mjög óljós eða þá skilningur okkar e.t.v. takmarkaður, en stundum vegna þess að þýðingin hljómaði mjög svo hjákátlega svo ekki væri meira sagt.
Hér fara á eftir nokkur dæmi:
Saurar
Botn
Dæli
Hurðarbak
Ok
Sælingsdalur
Vola
Ból
Þambárvellir
Krumshólar
Beigaldi
Þursstaðir
Jarðlangsstaðir
Stóri-kroppur
Amsturdamm
Snartartunga
Einfætingsgil
Skriðinsenni
Grindill
Þrömur o.s.frv...
Eftir að norður var komið var nóg að gera. Ég gaf mér þó tíma til að skoða þessa forláta eldavél sem mér hafði nú áskotnast, en vissi samt ekki alveg hvað ég ætti að gera við. Þetta hefur vafalaust verið stórglæsilegur gripur fyrir 50-60 árum, en er tæpast alveg að virka við Ikea innréttingar nútímans.
Ég veitti athygli gormahellunum og pottlokinu vinstra megin og innan við.
Ég tók lokið af "pottinum" og viti menn, hvað var þarna undir?
Þetta þurfti meiri athugunar við og enn blasti við eitthvað sem ég átti ekki von á. Ég spurðist fyrir um þetta "apparat" sem mér skilst að sé innbyggður gufusuðupottur!
Ég gægðist inn í ofninn og enn er þetta galdratæki að koma mér á óvart. Nokkuð ljóst að hann hefur ALDREI verið notaður. Og ekki bara það, heldur lágu "owners manuel" pappírarnir þarna nánast eins og nýkomnir úr prentsmiðjunni.
Og eftir nokkurra daga viðdvöl í heimabænum leið að brottför eins og gengur. Menn tóku saman pjönkur sínar, settu bensín á bílinn og horfðu á bæjarfjallið Hólshyrnuna minnka og síðan hverfa í baksýnisspeglinum meðan ekið var út ströndina.