18.05.2010 00:29
Og fjöllin eru ennþá flekkótt
631. Það er ekki alltaf rauður himinn um nætur eða bjartir og skínandi dagar þennan fyrri hluta maímánaðar sem ég staldraði við á heimaslóðum. Stundum sest þokan utan í fjöllin og hangir þar eins og hún sé límd við þau, einn daginn sást aðeins malarfjaran austan fjarðarins við Evangerrústirnar og mér varð starsýnt á allstóran snjóskafl rétt fyrir ofan fjöruborðið. Ég fékk mér svolítinn bíltúr fram að Hóli og sá að tæpast yrði spilaður bolti þar alveg allra næstu daga.
Ég sá að Tóti var að bera timbur inn í gamla Videoval, eða á ég kannski að segja Verslun Guðrúnar Rögnvalds frá því í denn. Ég sem er talsvert forvitinn að eðlisfari þurfti auðvitað að athuga hvaða framkvæmdir væru þarna í gangi og gaf mig á tal við Bíldælinginn geðþekka.
Jú, það er stefnt að því að opna ljóðasetur eigi síðar en í júlí nk.
Ég fór inn og skoðaði húsnæðið, en talsvert hefur greinilega breyst þarna inni upp á síðkastið.
"Og svo koma nokkrir Kiwanismenn og ætla að hjálpa mér um helgina" bætti Tóti við.
Vonandi gengur honum allt í haginn.
-
En nú er sá sem þetta ritar enn og aftur á norðurleið þar sem staldrað verður við fram yfir Hvítasunnu.