18.07.2010 04:38

Sem lindin tær


(Helgi Björnsson og Guðmundur Ó. Þorláksson)

639. Það hefur varla farið fram hjá neinum sem á annað borð sem hlustar eitthvað á útvarp að "Sem lindin tær" hefur gengið í endurnýjun lífdaga undanfarið og það svo um munar. Það hefur verið spilað eins og sagt er "sundur og saman" fyrst á Bylgjunni, en síðan einnig á Rás 2 og jafnvel eru þess dæmi að það hafi verið spilað tvisvar í einum og sama þættinum sem er eflaust frekar fátítt.



(Bjarki Árnason textahöfundur - kroppað úr Ljósmyndasafni Siglufjarðar)

Ekki eru þó allir alveg sáttir við framtak Helga því óhætt er að segja að þetta lag sé svolítið heilagt í hugum margra Siglfirðinga síðan Guðmundur Ó. Þorláksson söng það fyrir meira en 40 árum með karlakórnum Vísi. Helgi ásamt hljómsveit sinni "Reiðmönnum vindanna" hafi eiginlega "stolið" því og reyni nú að selja það sem hestalag. Útsetningin sé með lágreistara móti, framleiðslan beri það með sér að vera af ódýrasta tagi og að öllu leyti lítið í lagt. Þess utan sé farið vitlaust með textann á a.m.k. tveim stöðum, og í viðtali á Rás 2 á dögunum hafi söngvarinn ekki einu sinni vitað eftir hvern hann er.

Þegar hlustað er eftir, heyrist Helgi vissulega syngja um hundrað strengi í stað undrastengja og hann lætur lindina líka glettast ögn við lítinn fót en ekki blóm eins og Bjarki Árnason lét hana gera í þá góðu gömlu daga.

Þetta og ýmislegt fleira hefur heyrst á götubylgjunni nyrðra og virðist a.m.k. eitthvað af því sem sagt hefur verið eiga við einhver rök að styðjast. Ítalska lagið sem Engilbert Humperdink söng einnig á sjöunda áratugnum er sem sagt orðið svo rammsiglfirskt að einn þeirra sem ég átti svolítið spjall við á dögunum um nefndi gjörninginn "Helgi-spöll" hvorki meira né minna.

En burt séð frá því hvað okkur Siglfirðingum kann að vera þóknanlegt og hvað ekki, er alla vega sá ljósi punktur í málinu staðreynd, að "Sem Lindin tær" í flutningi Guðmundar Gauta hefur fyrir vikið fengið að hljóma nokkrum sinnum í útvarpi allra landsmanna og er það vel.

 

En Helgi má hins vegar alveg eiga það að hann er afburðamaður á sviði markaðssetningar, því það sjá allir sem þekkja eithvað til svona mála að vinsældirnar eru tilbúnar ef þannig mætti að orði komast, þ.e. lagið er látið verða vinsælt og hann á greinilega marga góða vini meðal dagskrárgerðarmanna.

Guðrún Gunnarsdóttir og Hlöðver Sigurðsson hafa einnig sungið þetta sama lag inn á disk á undanförnum árum og ekki gert því síðri skil, en það dugar skammt ef öflugt tengslanet er ekki fyrir hendi.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 818
Gestir í dag: 141
Flettingar í gær: 1391
Gestir í gær: 279
Samtals flettingar: 496195
Samtals gestir: 54759
Tölur uppfærðar: 26.12.2024 21:06:26
clockhere

Tenglar

Eldra efni