18.07.2010 04:48
Kjarnakonan hún Nanna Franklín
640. Ég er lengi búinn að reyna að ná mynd af Hallfríði Nönnu Fanklín þegar hún leggur leið sína um bæinn á vélfáki sínum, en henni hefur til þessa alltaf tekist að smjúga úr skotlínu myndavélarinnar áður en ég hef náð að athafna mig. En það kom að því að ætlunarverkið heppnaðist og Nanna er núna komin í albúm. Ég sá hvar hún kom akandi á móti mér eftir Túngötunni og var stödd á móts við Hólakot þegar ég var í þann mund að fara fram hjá Iðjuhúsinu sem ég kalla reyndar ennþá Bólsturgerðina. Ég renndi mér inn á stæðið og smellti af þegar hún ók hjá og kinkaði í leiðinni kolli til mín með bros á vör.
Nanna hefur verið fastur punktur af tilverunni og bæjarlífinu áratugum saman, eða hvað mig snertir í u.þ.b. hálfa öld.
Mín fyrsta minning henni tengd, var þegar ég fékk að sitja í Wolksvagen bjöllunni hennar sem hún átti á árunum um og upp úr 1960. Þá var ferðinni heitið í réttirnar, sem í eina tíð var bæði mikil og merkileg samkunda á haustin. Fyrir þá sem ekki muna eða vita, þá voru þær fyrir ofan núverandi hesthúsasvæði og standa þar enn uppi leifar mannvirkjanna sem minna á þessa liðnu tíð. Kannski hef ég fengið bílfarið út á tengslin við hana í gegn um föðurfólkið mitt, en Nanna er Strandamaður eins og það.
Þá man ég eftir henni þar sem hún afgreiddi í mjólkurbúðinni á Hafnarhæðinni þar sem Óli Geir rak nýlenduvöruverslun í hálfu húsnæðinu, en Dúddi Eggerts löngu síðar videoleigu. Núna er húsið nýtt sem frístundahús eftir því sem ég best veit.
Á unglingsárum nínum rak hún svo sjoppu í kjallaranum á Túngötunni þar sem hún bjó. Þar var oftar en ekki komið við annað hvort á leið í eða úr sundtíma og brást það ekki að Nanna var með prjónana í höndunum þegar við krakkarnir rákum nefið inn hjá henni.
Á þessum árum gengu fáir um bæinn eftir að kólna tók, örðu vísi en með "Franklínhúfu" á höfði og breytti þá litlu hvort þar fóru ungir eða gamlir. Það var með ólíkindum hversu vel húfurnar hennar Nönnu náðu að verða hvort tveggja í senn, tískuflík og skynsamlegt svar við áreiti kuldabola sem vildi klípa í eyrun.
Og Nanna er síður en svo hætt að prjóna. Um síðustu áramót var hafist handa að prjóna 17 km. langan trefil sem tengja skyldi saman þéttbýliskjarnana Siglufjörð og Ólafsfjörð um Héðinsfjarðargöng og stefnt að því að hann verði tilbúinn við opnun þeirra.
Óskað var eftir liðsinni velunnara bæjanna við prjónaskapinn og brást fjöldi fólks bæði hérlendis og erlendis vel við kallinu. Nanna lét að sjálfsögðu ekki sitt eftir liggja og þegar búið var að prjóna u.þ.b. 5 kílómetra af treflinum í síðasta mánuði, hafði hún ein prjónað 300 metra eða um 6% af þeim hluta sem lokið var. Það verður að teljast vel af sér vikið hjá kjarnorkukonunni Nönnu sem er nú á 94. aldursári.