19.07.2010 13:38
Aðalgatan
(Hótel Hvanneyri)
641. Það var í maí árið 1934 að Sigtryggur Benediktsson sem áður rak Hótel Akureyri opnaði stórt og vandað gistihús á Siglufirði sem hann nefndi Hótel Hvanneyri.
Þetta nýja stórhýsi var fyrsta húsið sem var byggt samkvæmt nýju og endurskoðuðu skipulagi Aðalgötunnar, sem miðaðist við að gömlu lágreistu húsin skyldu víkja smátt og smátt, en háhýsi upp þrjár til fjórar hæðir skyldu koma í þeirra stað.
(Aðalgata 12 gegnt Hótel Hvanneyri)
Þetta var líklega í fyrsta sinn á Íslandi sem stefnt var að því markmiði að þétta byggðina og það var vissulega ekki alveg að ástæðulausu. Bærinn hafði stækkað og fólki fjölgað hraðar en dæmi voru um og ef sú þróun héldi áfram sem hafði verið frá upphafi síldarsöltunar, myndi innan fáeinna áratuga eða jafnvel ára stefna í óefni hvað varðar sæmilega nýtanlegt byggingarland.
(Útvegsbankahúsið við Ráðhústorg var einnig byggt skv. gamla skipulaginu)
Þau orð voru m.a. látin falla að Aðalgatan ætti að líta út eins og skipaskurður, þráðbein og umlukin háum veggjum til beggja handa. Menn hugsuðu greinilega stórt í þá daga, enda fátt sem benti til breytinga í þeirri þróun í búsetu og atvinnumála þjóðarinnar sem verið hafði næstu tæpa 3 áratugi á undan.
(Ofan á Aðalbúðina átti að koma skrifstofuhæð og íbúð á þriðju hæð)
Fimmta hver króna sem þjóðin aflaði í formi gjaldeyris barst um Siglufjarðarhöfn, og Alþingi gat ekki lokið gerð fjárlaga fyrr en lá fyrir hversu mikið af síld hafði verið söltuð á Siglufirði og hvað myndi fast fyrir hana á erlendum mörkuðum.
(Mjólkursamsalan átti líka að verða þrjár hæðir, en eins og á Aðalbúðinni var sett bráðabirgðaþak ofan á neðstu hæðina og "staldrað við")
En nú eru aðrir tímar, önnur framtíðarsýn, aðrar væntingar og þegar gengið er um Aðalgötuna er auðveldlega hægt að ímynda sér að hún hafi verið eins og svolítið ráðvillt í stefnu sinni inn í framtíðina.
(Aðalgatan 1910 - Ljósmyndari ókunnur)
Svona var umhorfs við upphaf Síldarævintýrisins. Myndin er tekin nokkurn vegin þar sem nú er bensínstöð Olís.
(Aðalgatan í dag)
En eins og sjá má hefur margt breyst á 100 árum og þessi mynd er tekin á sama stað og sú hér að ofan.