27.09.2010 23:03
Nokkur kveðjuorð til Önnu frænku minnar
Anna (lengst til vinstri) á Siglufirði um 1950, næst faðir hennar Gunnlaugur, þá Jóhanna systir hennar og Sóley amma mín. Myndin er tekin í garðinum að Hverfisgötu 11. Litla stúlkan er sennilega Margrét dóttir Jóhönnu, en hún býr á Akureyri og er gift er gift Kristni Hólm frá Siglufirði. Í baksýn sést Ingibjörg Jónsdóttir frá Sauðaneskoti sem var býli skammt utan við Dalvík, en hún bjó lengst af á Hávegi 11b Siglufirði. Og eins og einnig sést, þá er Aðventistakirkjan þarna á "sínum stað" þ.e. númer 10 við Hverfisgötu.
651. Í dag þ. 27. sept. var Anna frænka mín til grafar borin. Hún var eitthundrað ára og þrjátíu og sjö dögum betur. Anna Laufey Gunnlaugsdóttir fæddist þ. 12. ágúst 1910 að Ytri-Másstöðum í Skíðadal. Hún var dóttir Gunnlaugs Daníelssonar frá Tjarnargarðshorni í Svarfaðardal og Steinunnar Sigtryggsdóttur frá Klaufabrekkum einnig í Svarfaðardal. Anna var systir ömmu Sóleyjar sem bjó á Siglufirði og fóstraði þann sem þetta skrifar frá fæðingu og þar til hann taldi sig tilbúinn til að takast á við veraldarvafstrið.
Anna missti móður sína út berklum þegar hún er aðeins á þrettánda ári, heimilið leystist upp í kjölfarið og fer hún þá í fóstur til systur sinnar Guðrúnar Gunnlaugsdóttur sem þá bjá á Ytra-Hóli í Eyjafirði. Eftir það býr hún á Akureyri, var í kaupavinnu í Þingeyjasýslu, í síld á Siglufirði en flytur til Reykjavíkur 25 ára gömul og bjó þar alla tíð síðan. Anna og sambýlismaður hennar til allmargra ára, Kristján Elíasson, hófu búskap á Bárugötu, fluttu eftir það á Ránargötu en síðan Tjarnargötu 10A hér í Reykjavík þar sem hún bjó allt þar til hún flutti í þjónustuíbúð við Lindargötu. Síðustu árin dvaldi hún svo á hjúkrunarheimili við Sóltún. Eins og sést á þessari upptalningu var hún mikil miðbæjarkona þrátt fyrir að rætur hennar lægju langt inn til dala. Sagt er að heimili hennar hafi stundum verið eins og umferðarmiðstöð. Fólk kom í kaffi og spjall og á Þorláksmessu var hangikjöt á borðum fyrir gesti og gangandi. Hún var vinsæl kona, hlý og skemmtileg, barngóð og kærleiksrík.
Kristján og Anna ráku prjónastofu í mörg ár. Þar vann kona að nafni Ester sem kenndi henni að kúnststoppa. Þegar þau Kristján slitu samvistum eftir margra ára búskap, kom sú kunnátta henni vel. Anna var að öllum líkindum og lengi vel ein af fáum Íslendingum sem kunnu þá list að kúnststoppa, en sú handavinna felur í sér að gera við fatnað á þann máta að varla má greina viðgerðina á flíkinni. Stundum hér á árum átti ég til að staldra ögn við á Tjarnargötunni, og var þá ekki óalgengt að það væri bankað upp á jafnvel alloft, ýmist til að koma með föt í viðgerð eða sækja flíkur sem litu út eins og nýjar.
Anna átti fjögur börn og þar af þrjú með Kristjáni. Elst er Steinunn sem varð einmitt áttræð daginn sem hún fylgdi móður sinni til grafar.
Þá Elías, en hann hefur lengst af starfað sem bílstjóri.
Yngri eru svo Hörður og Kolbrún, en þau eru bæði látin.
Ævi Önnu Gunnlaugsdóttur var síður en svo neinn dans á rósum, en ég ætla þó ekki að fara að tíunda þá atburði eða uppákomur sem gjarnan skilja eftir sig ör á sálu þeirra sem fyrir verða og gróa seint eða aldrei. Henni var í blóð borin Svarfdælska þrjóskan sem hefur eflaust mótað bæði viðmót og skaphöfn . Hún sigraðist á mótlætinu, yfirsté erfiðleikana, sætti sig við kröpp kjör á stundum og segja má að hún hafi með sínu lagi komið standandi niður úr heljarstökki lífshlaupsins. Hún lá aldrei á skoðunum sínum og talaði alltaf hreint út. Ef henni fannst ég eða þú vera í ljótum skóm sagði hún einfaldlega; "þetta eru nú ljótu skórnir sem þú ert í."
Þegar ég heimsótti hana í fyrsta skipti varð mér það á í einhverjum ærslagangi að rekast á lítið stofuforð sem á stóð pottablóm. Á borðinu var glerplata og þegar blómið valt á hliðina myndaðist sprunga í glerinu. Þetta var árið 1963. Það var svo árið 2002 að ég heimsótti hana á Lindargötuna. Hún benti mér á borðið með sprungnu glerplötuna og spurði mig hvort ég myndi eftir þessu, en bætti svo við; "þú ert orðinn miklu stilltari núna."
Um svipað leyti heimsótti móðir mín hana eitt sinn sem oftar, en Anna var niðursokkin í að fylgjast með dagskrá á Spænskri sjónvarpsstöð og mátti lítið vera að sinna gestinum. Mamma spurði þá forviða hvort hún kynni eitthvað í spænsku.
"Nei, nei" svaraði Anna,. "stelpurnar eru bara í svo rosalega flottum kjólum og sérðu bara hvað strákarnir eru svakalega sætir?" Þá var Anna á 92. aldursári.
Á hundrað ára afmælinu heimsótti blaðamaður Morgunblaðsins hana og vildi fá viðtal af tilefni þessara merku tímamóta. Eftir svolítið spjall fannst Önnu blaðamaður vera helst til forvitinn um hennar hagi og skammaði fyrir hnýsnina. Það hafðist þó með lagni og prýðir ágæt umfjöllun heila síðu Morgunblaðsins þ. 12. ágúst sl.
En Anna átti sér líka sína glaðværu hlið, því söngur og dans var hennar yndi. Hún var m.a. þeirrar skoðunar að konur ættu ekki að ganga í buxum því það væri ekki mjög dömulegt, enda átti hún sjálf marga fallega kjóla og lögulega hatta.
Sr. Örn Bárður Jónsson sagði eftirfarandi í minningarorðum sínum:
"Hún var Reykjavíkurmær, konan við Tjörnina, sem spásseraði um miðbæinn eins og hefðarfrú og fór gjarnan á Borgina á sunnudögum til að dansa gömlu dansana. Það fer því vel á því að syngja hér á eftir lagið, Fröken Reykjavík...
Hún var alltaf að breyta til heima hjá sér. Ef sonurinn, barnabörnin eða vinir komu í heimsókn voru þau oftar en ekki fengin til að flytja til húsgögnin í stofunni. Hring eftir hring snerist allt í stofunni hjá henni. Og auðvitað fór allt á sama stað af og til."
Svo var sunginn "sálmurinn" um fröken Reykjavík eftir þá bræður Jónas og Jón Múla. Þetta var alveg akkúrat hún Anna frænka mín...