22.10.2010 15:16

Kveðja til tónlistarmanns og frábærs kennara


(Ljósmynd - Ljósmyndasafn Siglufjarðar)

660. Í gær bárust mér þau leiðu tíðindi
að minn ágæti tónlistarkennari frá því fyrir 40 árum, Gerhard Schmidt hefði flutt sig yfir á annað tilverustig og væri því horfinn úr mannheimum. Hann mun hafa látist um miðjan septembermánuð í Berlin eftir veikindi sem hann hefur átt við að stríða um tíma, en þar hefur hann búið og starfað undanfarna áratugi. Fyrstu kynni mín af þessum fjölhæfa manni komu til eftir að mér tókst að komast að í Tónskólanum á Siglufirði, hafandi farið nokkrar krókaleiðir í þeim efnum.
Í þá daga gátu nefnilega verið langir biðlistar í þann skóla því þar var hann eini kennarinn um tíma, en fjöldi áhugasamra mun meiri en hægt var að sinna.
Óttar frændi minn Bjarnason hafði þá verið í píanótímum um nokkurt skeið, en sýndi því hljóðfæri lítinn áhuga. Hann hafði þess í stað mikla löngun til að eignast trommusett og spreyta sig á þeim vettvangi.  

Það varð því að samkomulagi okkar á milli að ég gengi einfaldlega í tímana hans, kennarinn var alveg sáttur við þessi skipti og Óttar keypti trommusettið sem virtist eiga mun betur við hann en slagharpan. Hvort foreldrar hans voru svo alveg jafn sáttir með þessar aðgerðir okkar strákanna veit ég ekki, en varð reyndar aldrei var við neitt annað.

Gerhard hafði einstakt lag á að halda kveikja elda á tónlistarsviðinu sem brunnu lengi og vakti í mínu tilfelli þann áhuga sem enn er til staðar. Hann var sannkallaður kraftaverkamaður á sínu sviði og verk hans þarf tæpast að kynna fyrir þeim Siglfirðingum sem komnir eru til vits og ára.

Það sem mér finnst hins vegar undarlegt við brotthvarf mín kæra kennara, er hve lítið virðist fara fyrir tíðindum af þeim, t.d. í Siglfirskum vefmiðlum. Við eigum þessum manni mikið að þakka fyrir það sem hann gaf af sjálfum sér til þeirrar tónlistararfleifðar sem við Siglfirðingar munum njóta til framtíðar og teljum vera okkar allra.

Bíði Sumarlandið sæla eftir okkur öllum hinum megin fljótsins mikla þegar jarðvistardögunum lýkur, má telja víst að þar verði tekið á móti okkar manni með miklum lúðrablæstri um leið og ferjumaðurinn leggur að bakkanum. Englar hinna efri byggða munu þá eflaust mynda glæsilegan heiðursvörð á bryggjusporðinum, bjóða hann velkominn í úrvalsbrassband sitt og væntanlega ætla honum að leika þar fyrsta trompet um allra framtíð.

                                            

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 521
Gestir í dag: 110
Flettingar í gær: 1391
Gestir í gær: 279
Samtals flettingar: 495898
Samtals gestir: 54728
Tölur uppfærðar: 26.12.2024 15:47:04
clockhere

Tenglar

Eldra efni