01.11.2010 13:16
Síldarball
664. Ég ætlaði auðvitað að vera búinn að minnast á Síldarballið sem var haldið fyrsta vetrardag og það fyrir þó nokkuð mörgum dögum síðan. Það er líklega alveg óhætt að fullyrða að samkoman hafi bæði verið virðuleg og háttvís og farið vel fram í hvívetna. Í matnum var meðaldurinn kannski eilítið hærri en oft má sjá, en lækkaði eitthvað þegar leið á kvöldið. Eitt par sem var í hressara lagi þrátt fyrir að vera komið nokkuð á áttræðisaldurinn, gat ekki setið á sér og hóf dansinn þegar ég var enn að spila yfir matnum. Það er auðvitað tónlist í rólegri kantinum eins og flestir eflaust vita og þau dönsuðu sig upp að sviðinu og gáfu sig á tal við mig.
"Geturðu ekki spilað eitthvað pínulítið fjörugra því okkur finnst svo gaman að dansa" spurði frúin, og hún stakk í framhaldinu upp á annað hvort vals eða tangó.
"Þetta er ágætt eins og þetta er" skaut bóndinn inn í. "Ég er nú orðinn svo slæmur í löppunum."
"Uss, það er ekkert að þér" bætti frúin við, "dansaðu bara" kall.
Hann hló dátt, kinkaði kolli til mín og virtist ekkert vera óvanur svona innskotum kerlu sinnar.
Ég skellti á þau bæði vals og tangó og matargestir fylgdust áhugasamir með danssýningunni. Það var alveg ljóst að þau voru ekki að dansa sína fyrstu dansa saman.
Danspar frá dansskóla Heiðars Ástvalds mætti og sýndi nokkra "ballroom" dansa og það fór auðvitað ekkert á milli mála að þau hafa greinilega mjög góðan kennara. Hin ástsæla söngkona Þuríður Sigurðardóttir mætti svo fljótlega eftir að dansinn hófst og sýndi og sannaði rétt einu sinni hvað hún er frábær söngkona sem hefur engu gleymt. En Helgi Björnsson afboðaði sig á síðustu metrunum og flaug til Þýskalands. Það þótti okkur slæmt mál og veltum fyrir okkur hvað við gætum gert til að fylla í skarðið. Það var hins vegar orðið svolítið seint, eða alla vega tókst okkur ekki að finna neitt stórnúmer sem var á lausu svo fyrirvaralítið. En það sem kom þó "ánægjulega" á óvart ef þannig mætti að orði komast, var að einskis var spurt líkt og hans væri bara alls ekki saknað.
Það er alltaf gaman fyrir þá sem á pallinum standa þegar almenn þáttaka er í dansinum og þannig var það þetta kvöld. Þegar á leið voru því sem næst allir stólar í salnum ósetnir en parketið á dansgólfinu þess meira notað. Heiðar Ástvalds var eins og gefur að skilja mjög umsetinn og til gamans má geta þess að til mín kom kona og bað um óskalag sem ætti að koma þegar röðin kæmi að henni. Ég átti auðvitað að fylgjast vel með og vera klár með lagið á hárréttu augnabliki.
Og svo látum við auðvitað nokkrar myndir fylgja frá kvöldinu.