06.01.2011 07:37
Þrettándinn er í dag
688. Þrettándi dagur jóla eða "Þrettándinn" er í dag. Á öldum áður var hann talinn fæðingadagur Jesú og voru jólin því eftir áramót, en það mun hafa breyst á 17. öld hér uppi á Íslandi sem og víða annars staðar. Í einhverjum löndum austur-Evrópu svo og í Rússlandi eru jólin þó ennþá eftir áramót, eða á því svæði þar sem Rétttrúarkirkjan er ráðandi afl í kristnu samfélagi. Þjóðtrúin sagði líka að kýrnar töluðu mannamál á Þrettándanum en fleiri tala þó um nýjársnótt. Þá átti líka að vera búið að ljúka við allan jólamatinn, húsfreyjan gengur um bæinn þar sem ljós logr í hverju horni og hefur yfir eftirfarandi þulubrot:
Komi þeir sem koma vilja,
veri þeir sem vera vilja,
fari þeir sem fara vilja,
mér og mínum að meinalausu.
Þessar línur eru tengdar sérstökum fardögum álfa og huldufólks sem einnig eru ýmist sagðir vera á nýjásrnótt eða þrettándanum. Á okkar tímum er kveikt í brennum, álfakóngar og drottningar ásamt púkum og alls kyns furðuverur og vættir fara á stjá og svo er síðasti dagur í flugeldasölu. Á þrettándanum fer Kertasníkir, síðastur jólasveinanna aftur til sins heima. Jóhannes úr Kötlum hafði eftirfarandi um þá sveina að segja:
Svo tíndust þeir í burtu,
það tók þá frost og snjór.
Á Þrettándanum síðasti
sveinstaulinn fór.
Ég gúgglaði nokkra álfa upp á skjáinn hjá mér og miðað við útlit þeirra er ekkert skrýtið þó einhverjir smaladrengir á sauðskinnsskóm vildu gjarnan ganga álfastelpum á hönd og yfirgefa mannheima. Alla vega miðað við hvernig íslenskum kotbúskap á öldum áður hefur oftlega verið lýst. Til stuðnings þeirri skoðun minni tel ég rétt og skylt að leggja fram eftirfarandi "gögn" sem sjá má hér að neðan.