09.01.2011 08:51
Of feitur fyrir Stones - of dökk fyrir mig
689. Á dögunum rak ég augun í undarlega fréttá RUV sem minnti mig óþyrmilega mikið á gamalt tilsvar manns sem ég þekkti eitt sinn, en er núna hættur að þekkja. Það sem er sameiginlegt með báðum tilfellum, er að kröfur um útlit fólks eru hærra og meira metnar en innræti þess og/eða hæfileikar.Hjá Stónsurunum virðist gamla sagun um hana Evu sem faldi skítugu börnin sín ganga í endurnýjun lífdaga í svolítið uppfærðri mynd. Þeir Keith Richards og Mick Jagger sýna sem vantar aðeins tvö ár í sjötugt, virðast vera með smá móra yfir gömlum ímyndarvanda og síðbúnum gelgjutöktum fortíðarinnar. Bill Wyman sem er reyndar orðinn 73 ára virðist einnig finna til svipaðra kennda, því hann ætlar að spila með félögunum sem hann yfirgaf fyrir hartnær tveimur áratugum sem er þvert á fyrri yfirlýsingar. Fyrirsögnin fréttarinnar var "Bill Wyman til liðs við Stones" og ég varð auðvitað forvitinn um leið, en síðan kom áframhaldið: "Breski bassagítarleikarinn Bill Wyman hyggst taka höndum saman við gamla félaga sína í The Rolling Stones og hljóðrita lag í minningu eins af stofnendum hljómsveitarinnar, Ians Stewarts píanóleikara. Lagið sem varð fyrir valinu er "Watching The River Flow" eftir Bob Dylan.
Frá þessu er greint á vef breska músíktímaritsins NME. Það verður gefið út síðar á árinu á minningaplötunni Boogie For Stu. Bill Wyman sagði skilið við The Rolling Stones árið 1992. Þá hafði hljómsveitin starfað saman í þrjá áratugi. Ian Stewart fékk hjartaáfall og lést árið 1985. Hann var alla tíð viðloðandi The Rolling Stones, lék á hljómplötum hennar og sinnti ýmsum verkefnum, þótt hann teldist ekki til fullgildra liðsmanna nema í blábyrjuninni. Hann var látinn hætta á sínum tíma vegna þess að hann þótti full gildvaxinn."
Einn af vinnufélögum mínum frá liðinni tíð (sem er með óvenju hátt og gáfulegt enni) var nýlega fráskilinn fyrir u.þ.b. 20 árum og fór eins og svo margir þjáningarbræður hans í "kynlífsferð" til Thailands. Hann sem hafði átt mjög erfitt uppdráttar á hinum íslenska kjötmarkaði eftirskilnaðaráranna, var mjög upprifinn af hinum óendanlegu og óþrjótandi tækifærum í þessu fjarlæga landi.
"Þær þyrptust að mér eins og flugur" sagði hann skömmu eftir heimkomuna og átti þá
auðvitað við nýtilkomna kvenhylli sína.
"Og að hverju þyrpast svo flugur yfirleitt" spurði ég hann á móti og hugsaði um gamalt máltæki þar sem flugur koma einmitt við sögu. Ég fékk auðvitað ekkert svar við þessu óæskilega innskoti, en augnaráð félagans eitt og sér hefði sennilega getað kæst skötu á mettíma. Hann fór skömmu síðar aðra ferð til hins fjarlæga lands þar sem hinir fúlustu karlfauskar virtust umbreytast í eðalsjarmöra. Þegar hann kom svo aftur var hann ekki einsamall því með honum kom lítil og grannvaxin mannvera sem hann kynnti sem væntanlegt konuefni sitt. Fljótlega kom þó í ljós að hún var hinn mesti vandræða og gallagripur. Þegar einhver spurði hann einhverju sinni hvort hann hefði ekki getað fundið eitthvað skárra í öllu mannhafinu þarna úti kom svarið sem aldrei gleymist.
"Það var önnur þarna sem var miklu betri og skemmtilegri en mér fannst hún aðeins of dökk."