14.01.2011 04:07
Vitlaust veður í Hafnarfirði - blíða í Reykjavík
691. Það var undrlegt veðurfarið á suðvesturhorninu í gær. Ég hafði áformað að leggja af stað til Siglufjarðar seinni partinn, því veðurspáin gaf til kynna að veðrið lægði þá í nokkra klukkutíma en versnaði síðan aftur um miðnættið. Ég sat við tölvu framan eftir deginum og hafði meira en nóg að gera við bókhald og margt fleira misjafnlega skemmtilegt, en þegar leið að fyrirhuguðum brottfarartíma fannst mér ekki vitlausari hugmynd en hver önnur að líta aðeins til veðurs. Ég var bæði orðinn stirður eftir langa setu og voru auðvitað einnig þessar praktíski ástæður eðli málsins samkvæmt. Mér dauðbrá þegar ég svipti gardínunum frá og starði steinhissa á glerið í glugganum. Hafði það verið málað hvítt utanfrá eða var "útsýnið" sem var nákvæmlega ekkert, ein af þessum skrýtnu afleiðingum hnattrænnar hlýnunar sem kemur stundum fram með hinum undarlegasta hætti á hinum ólíklegustu stöðum jarðarkringlunnar nú orðið. Það hafði myndast þykkur snjófleki utan á allar rúður hússins austanmegin og það á svo skömmum tíma að undrum sætti. Ég settist aftur við tölvuna og skoðaði spána vrá Veðurstofu Íslands, en á mínu svæði var enga breytingu að sjá. Lítils háttar snjókoma og eitthvað í kring um 10 metrar á sekúndu. Það sem ég sá passaði reyndar alls ekki við það, en ég þurfti hvað sem öllu leið að skreppa til Reykjavíkur sem ég og gerði.
Reykjavíkurtúrinn varð vægast sagt undarlegur bíltúr svo ekki sé meira sagt. Þegar ég beygði hjá Kaplakrika inn á Reykjanesbrautina (heitir vegurinn annars það ekki?) fann ég strax að þar var veruleg hálka. Skömmu síðar sá ég fyrstu árekstrana og einnig bílana sem húktu blautir og yfirgefnir í köntunum. Skyggni var slæmt og meðalhraði þeirra sem voru á ferðinni vart mikið yfir 50 km. Eitthvað rofaði þó til þegar fór að styttast í Kópavoginn og þegar Smáralindin var að baki, sást ekki eitt einasta snjókorn á jörðu og vegir voru þurrir.
Ég sinnti erindi mínu í Reykjavík og snéri til baka, fullviss um að élið hefði siglt sína leið og væri núna komið eitthvert langt út á ballarhaf. Það var nú öðru nær því sagan endurtók sig, nema að núna gerðust hlutirnir í öfugri röð miðað við það sem áður var. Ég keyrði úr þurrviðrinu og inn í hraglandann sem þéttist jafnt og þétt eftir því sem ég nálgaðist Hafnarfjörðinn. Ég varð vitni að fjögurra bíla árekstri gegnt Ikea og bílunum í vegköntunum hafði fjölgað frá því skömmu áður. Þegar ég kom að ljósunum við Fjarðarhraun, sá ég að snjómoksturstæki voru farin að moka götur. Þetta var alveg ótrúlegt og svona skörp veðraskil hef ég aldrei séð áður. Þegar ég kom heim frétti ég af 10 bíla árekstri sem hafði orðið á mótum Selvogsgötu og Suðurgötu meðan ég "skrapp í bæinn."