28.02.2011 05:08

Hljóðvæðing ástarlífsins



696. Austur af Hellisheiðinni stendur myndarlegur kaupstaður við mikla elfu. Yfir hana liggur brú rétt við miðbæjarkjarnann sem þykir hafa verið mikið mannvirki síns tíma. Við eystri brúarsporðinn er gamalt samkomuhús sem hefur fengið svolitla andlitslyftinu á síðustu árum. Það er bæði bæjarprýði og gæti sagt margar skemmtilegar sögur frá liðinni tíð ef það hefði mál.

 

Fyrir nokkrum áratugum á blómaskeiði átta millimetra myndanna átti óformlegur og nafnlaus karlaklúbbur atvarf í húsinu og kom þar saman á mánudagskvöldum. Fyrir hópnum fór maður nokkur sem þótti alla jafna afar sérstakur í háttum, jafnvel sérlundaður á köflum og af margra mati svolítill einfari, í það minnsta meðan dagsbirtunnar naut við. En þegar kvöldaði gerðist hann yfirleitt öllu félagslyndari og á umræddum mánudagskvöldum hreinlega umbreyttist hann í einhvern allt annan mann. Þá var eins og áður er sagt, komið saman til að sinna þeim áhugamálum sem félagsstarfið snérist um.

 

Félagsstarfið eða áhugamálið var frekar einhæft. Það var sest niður og horft á átta millimetra stuttmyndir sem áttu það allar sameiginlegt að vera af vafasamara taginu. Það ríkti undantekningalítið grafarþögn á samkomunum meðan á sýningu stóð ef frá var talið suðið í sýningarvélinni og síðfrakkaklæddir karlarnir héldu niði í sér andanum og gáfu hvorki frá sér hósta né stunu. Þegar hér er komið sögu er rétt að það komi fram að þær myndir sem þarna voru sýndar voru þöglar. En Formaðurinn (með stóru effi) eins og hann var gjarnan kallaður vildi endilega bæta úr þessu sem hann taldi verulegan ágalla á sýningunum, en óx í augum sá kostnaður sem fylgdi því að "hljóðvæða" myndakvöldin.

 

Það var vissulega úr vöndu að ráða, en uppátækjasamir menn deyja aldrei ráðalausir. Það var því eitt mánudagskvöldið að Formaðurinn mætti mun betur undirbúinn en venjulega. Auk sýningavélarinnar sem var að venju kominn á sinn stað, hafði bæst við tækjaflotann segulbandstæki og það af stærri gerðinni. Hófst nú sýningin sem óhætt er að segja að hafi verið með mjög svo öðru sniði en venjulega. Síðklæddu karlana rak í rogastans því í staðin fyrir þrúgandi þögnina sem venjulega grúfði yfir salnum, færðist nú öllu meira líf í "söguþræðina" en þeir áttu að venjast og andrúmsloftið varð um leið mun léttara en áður hafði verið.

 

Formúlan við allan galdurinn reyndist ekki mjög flókin þegar málið var skoðað nánar. Formaðurinn las ágrip af aðdraganda hverrar sögu og innihaldslýsingu, ásamt samtölum byggðu á eigin handriti inn á segulgandið. Við það bætti hann öllum þeim hljóðum (og óhljóðum) allra "leikenda" og allt það sem hann taldi að ætti við myndefnið og dró ekkert af sér. Leikhljóðin létu þó sum hver svolítið undarlega í eyrum reynslubolta á sviði ástarmála, því Formaðurinn hafði enga slíka. Aðspurður sagði hann það hafa verið stæsta vandamálið að láta segulbandið passa í tíma við sýningarvélina, en eftir talsverðar tilraunir og æfingar kvaðst hann hafa náð nokkuð góðum tökum á því.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 120
Gestir í dag: 14
Flettingar í gær: 1119
Gestir í gær: 165
Samtals flettingar: 496616
Samtals gestir: 54797
Tölur uppfærðar: 27.12.2024 04:06:25
clockhere

Tenglar

Eldra efni