02.03.2011 18:18

Egill og Kiljan á Sigló

                                     

697. Miðvikudaginn 23. febrúar s.l. var ég staddur á Siglufirði. Reyndar hafði ég skotist í svolítinn matarbita, en tafist í símanum eftir hádegið þennan dag og klukkan var farin að halla í tvö. Að símtalinu loknu skynja ég á einhvern hátt sem ég kann þó ekki að skýra, að eitthvað er ekki alveg með sama brag og flesta aðra daga. Raddir sem bárust utan af götunni hljómuðu ókunnugar og hrynjandinn virtist svolítið nýstárlegur. Ég gægðist út um stofugluggann og sá að tilfinningin fyrir hinu óvenjulega átti við rök að styðjast. Á gangstéttinni hinum megin við götuna stóð Örlygur Kristfinnsson (sameign okkar Siglfirðinga) og hjá honum aðkomumaður sem mér fannst að ég ætti kannast eitthvað við. Sá aðkomni talaði mikið og hratt, pataði til beggja átta og það var eins og hann væri að gefa einhverjar skipanir.
"Mikið asskoti minnir hann mig á Egil í Silfrinu" hugsaði ég með mér. Svo áttaði
ég mig á að þetta var sá hinn sami Egill og þá sá ég líka tökuliðið sem stóð álengdar og mundaði kamerurnar. Eðlislæg forvitni mín varð til þess að ég opnaði gluggann upp á hálfa gátt og stakk hausnum út. Þá sá ég að ein myndavélin lyftist og ég veifaði inn í linsuna þegar ég vissi að hún beindist að mér. Myndatökustelpan brosti þá svolítið skökku brosi út í annað munnvikið, lét vélina síga aftur og veifaði á móti. Kannski var hún að stríða mér svolítið eða fæla mig úr glugganum til að geta myndað húsið án óæskilegra og ófrýnilegra andlita í glugga. Ég vissi að klipparinn sæi til þess að öll röskun á hinu slétta og
fellda yrði fjarlægð, lagði við hlustir og áttaði mig fljótlega á hvað var í bígerð.
Það var greinilega verið að taka upp efni fyrir Kiljuna og Örlygur var að fara yfir síðasta kaflann úr bóki sinni "Svipmyndir frá Siglufirði." Hann var að segja frá lífshlaupi Aage Schiöth meðan myndavélarnar beindust ýmist að honum eða
húsinu sem Schiöth byggði meðan ríkidæmi hans var sem mest. Húsinu MÍNU sem ég var á þessari stundu enn stoltari af en áður, þar sem ég var kominn bæði með höfuð og herðar út um gluggann. Ég hlustaði á Örlyg enda frásögn sína á því að segja frá hinum dapurlegu æfilokum apótekarans sem hafði vissulega lifað bæði hátt og lágt ef þannig mætti orða hlutina. Ég horfði síðan á eftir Ölla, Agli og öllu myndakrúinu rölta niður eftir götunni og halda áfram yfirferð sinni, enda er gnótt verðugra viðfangsefna  að finna í gamla Sildarbænum.

Viku síðar eða miðvikudaginn 2. mars var svo fyrsti hlutinn úr Siglufjarðarleiðangri Egils á skjánum, en það var jafnframt ljóst að þeir þeir hlutar eiga eftir að verða fleiri.

Nafn:

Leó R. Ólason

Staðsetning:

Ýmist í Hafnarfirði eða á Siglufirði
Flettingar í dag: 120
Gestir í dag: 14
Flettingar í gær: 1119
Gestir í gær: 165
Samtals flettingar: 496616
Samtals gestir: 54797
Tölur uppfærðar: 27.12.2024 04:06:25
clockhere

Tenglar

Eldra efni