28.03.2011 02:54
Sukkið í síldarbænum
(Ljósmynd úr safni Gunnars Bíldal)
700. Fyrir nokkrum vikum átti ég leið fram hjá hinu stórskemmtilega "Magasíni" Góða hirðinum og þar sem ég var á óvenju lítilli hraðferð, datt mér í hug að kíkja þar við. Eins og svo oft gerist þegar ég lít þarna inn, er ég fljótlega kominn að bókahillunum sem undantekningalítið þýðir að ég fer ekki tómhentur út. Þannig varð það einnig að þessu sinni, því mjög fljótlega rakst ég á bókina "Svartur sjór af síld" eftir Birgir Sigurðsson. Það er vægt til orða tekið að hún hafi síðan átt vísan stað á náttborðinu svo og öðrum þeim stöðum þar sem gjarnan er gripið til lesefnis, því hún grípur þann lesanda heljartökum sem hefur á annað borð áhuga á umfjöllunarefninu. ¨Svartur sjór af síld¨ er frábært lesefni, vel skrifuð, orðtak afar líflegt en þó er hún laus við óþarfa skrúðmælgi. Hún er mikill og góður pakki þar sem blandast saman skemmtun og fróðleikur í hárréttum hlutföllum. En hún er laus við þá einsleitni sem stundum er einkennandi fyrir upprifjun margra þeirra sem lifað hafa ævintýrið mikla og sjá það í rómantískri blámóðu fjarskans. Tíminn fer nefnilega stundum þannig höndum um minningar okkar mannanna, að hann mýkir útlínur misfellanna svo þær verða jafnvel ljúfsárar í mistri fjarlægðarinnar og vekja upp eftirsjá ekkert síður en hinar betri stundir.
Það hefur þó löngum farið miklu minna fyrir neikvæðu umfjölluninni þegar horft er til baka, en hún var þó til staðar og einnig að skoðanir fólksins í landinu voru síður en svo á eina lund gagnvart silfri hafsins og vinnslu þess. Birgir sleppir ekki þeim þætti málsins og það verður að segjast að oft rekur lesandann (þ.e. mig) í rogastans, því hinar dekkri hliðar eru bæði fleiri og allt öðruvísi en ég hafði gert mér í hugarlund. Þar hefur lengst af ekki verið talið mikið mál að vera vitur eftir á og það á líklega mjög vel við þegar sagan eða söguhlutar síldaráranna eru skoðaðir. Hvar átti skynsemin, réttsýnin og framsýnin heima og hvar ekki?
Hér að neðan eru nokkrar að mér finnst magnaðar tilvitnanir í þessa ágætu bók:
Hvernig voru svo viðhorf manna til þessa atvinnuvegar sem hóf menn ýmist til æðstu fullnægðar gróðahvatar eða hratt þeim í hyldýpi niðurlægingar, eignamissis og vonleysis? Hvað sögðu bændur sem voru í samkeppni um vinnuafl og fjármagn við þennan atvinnuveg? Hvað sögðu vammlausar sálir til sveita og sjávar um frjálsræðislífið í síldarverstöðinni?
-
Tíminn spyr 24 ágúst 1920: "Hvað er síldveiðin?" Svarar síðan spurningunni: "Hún er einhver farsældarminnsti atvinnuvegur sem rekinn er á Íslandi. Hún er rekin eingöngu í ca. tvo mánuði, einmitt um hábjargræðistímann. Hún tekur þá karla og konur hundruðum saman frá aðalatvinnuvegum landsins landbúnaðinum og þorskveiðunum. Þeim sem afkoma þjóðarinnar er undir komin, þeim sem veita atvinnu allt árið. Hún er hið glæfralegasta fjárhættuspil. Hún hefur komið af stað óheilbrigðri og óeðlilegri keppni um að ráða verkafólk til stórtjóns fyrir aðra atvinnuvegi landsmanna. Hún er sá atvinnuvegur þar sem hyggindi og atorka mega sín lítils en langmest er undir heppni komið. Hún ræður verðlagi á vinnu. Hún getur verið og hefur í mörgum tilfellum verið siðspillandi atvinnuvegur. Hún er sá atvinnuvegur sem gerir hinum ábyggilegu atvinnuvegum stórkostlega erfitt fyrir."
-
Magnús Guðmundsson fjármálaráðherra: "Síldveiðarnar eru versti keppinautur bænda. Þeir kvarta um vöntun á vinnukrafti um sláttinn, hver getur reiknað út það böl, sem af því getur leitt og hefur leitt?"
-
Pétur Ottesen: "Enginn skaði hefði það verið fyrir þjóðina, þótt hún (síldarútgerðin) hefði aldei verið rekin."
-
Bændur höfðu lengi haft horn í síðu síldveiðanna. Og það var von. Alveg frá því fyrir aldamót, þegar landnótaveiðin var stunduð í Eyjafirði, einu búsældarlegasta héraði landsins fyrr og síðar, höfðu þeir mátt horfa á sídina svelgja til sín vinnukraftinn, svo þeir áttu í erfiðleikum með að ná heyjum sínum fyrir vinnufólkseklu. Andúð bændastéttarinnar á þessum "óþjóðholla" atvinnuvegi átti sér þó enn dýpri rætur. Það hrikti í máttastoðum þessarar stéttar sem hafði til skamms tíma ráðið lögum og lofum í atvinnulífi þjóðarinnar og löngum verið lofuð í ræðu og riti sem kjölfesta þjóðarinnar, burðarás þjóðlegrar menningar. þar með losnaði um þau tök sem bændastéttin hafð haft á verkafólki frá alda öðli í skjóli laga og hefða sem renndu traustum stoðum undir óskorað bændaveldi sem skammtaði vinnuhjúum laun og kjör að geðþótta.
-
Pétur Ottesen þingmaður vefur illyrðum um síldarfólk inn í andúð sína á þessum atvinnuvegi. Í þingræðu talar hann um "spjöll sem orðið hafa á hugsanahætti fólksins. fyrir áhrif útlendrar ómenningar." Hann kallar síldarfólkið "landshornalýð" og "ruslaralýð."
-
Illræmdastur allra staða verður Siglufjörður. Kitlandi andúðarhrollur fer um bókstafsmenn dyggðanna þegar þeir horfa norður og niður í þetta díki forboðinna lifnaðarhátta þar sem spillingin vellur og kraumar í fúlum grúti, umvafin viðurstyggilegri brækju og allir hafa peninga eins og skít. Síldarstúlkan er hóra, sjómaðurinn slagsmálahundur og dryggjusvoli, útfgerðarmaðurinn svikafullur braskari, Siglfirðingar siðlaus lýður.
-
Siglufjörður er svínastía,
Satan þar býr og árar hans.
Ómenni þangað ótal flýja,
úr ýmsum héruðum þessa lands.
Lygi og svik þar lifa flott,
úr lýðnum sanngirni víkur brott.
Þar er Hallgrímur þjófagreppur,
Þorsteinn svikari Pétursbur.
Bæjarfógeti lögbrjótsleppur,
læknishálfbjáni gæðaþur.
Kaupmannasveit á kostum rýr,
kvenvargafans og yxna kýr.
Fram yfir dimmar humrahallir,
háreistar mæna bryggjurnar.
Kring um þær híma hringaþallir,
helkaldar margar næturnar.
Þó brimaldan hvæsi og bylji regn,
bíða þær eftir norskun þegn.
Sjái þær báta leggja að landi,
laumast þær fram á bryggjusporð.
Leystar frá öllu lífsins grandi,
og láta af munni nokkur orð.
Feta svo upp í fúlan krók,
fletta upp pilsi og niður brók.
Svona er lífið á Siglufirði,
sýna þar fáir gestrisni.
Fjandinn með eiturormabyrði,
uppbyggir þar nýtt Helvíti.
Allflestir lifa ýtar þar,
öðrum og sér til bölvunar."
Greinilegt er að sumum er heitt í hamsi og ekki nein síldarrómantík efst í huga.
En svo mörg voru þau orð að sinni og reyndar voru þau miklu fleiri.