28.03.2011 03:01
Oh mamy blue.
701. Það var fyrir heilum fjórum áratugum síðan þegar hljómsveitin Frum var starfandi á Siglufirði, að nýtt lag varð vinsælt með slíkum ólíkindahraða að fáheyrt er. Það heyrðist fyrst í "Lögum unga fólksins" á þriðjudagskvöldi og áður en vikan var öll, var lagið á hvers manns vörum og sinni. Á þessum tíma spilaði hljómsveitin gríðarlega mikið í Allanum á Akureyri. Oftast aðra hverja helgi yfir sumarið og eitthvað á veturnar líka. Hún var eiginlega talsvert stærra númer þar í bæ en á sínum heimaslóðum. Eins og þeirra var gjarnan siður sem gerðu út á poppmarkaðinn, var setið yfir umræddum útvarpsþætti með kassettutæki ef þar kæmi eitthvað nýtilegt fram. Vísifingur og langa töng hægri handar voru þá tilbúnar á rec og play takkanum ef eitthvað yrði kynnt til sögunnar sem vænlegt þætti til notkunar. Þannig gerðist það einmitt að ofursmellurinn "Oh mamy blue" rataði inn á bandið, en það var upphaflega flutt af bresku hljómsveitinni Pop Tops en síðar gefið út af SG-hljómplötum með Mjöll Hólm. Það var auðvitað æft í einum hvínandi hvelli, því leiðin lá þá einmitt í Allann á Akureyri helgina á eftir. En það sem gerðist þegar við spiluðum lagið verður vart með orðum lýst. Salurinn hreinlega ærðist og þó einkum og sér í lagi yngri hluti kvenþjóðarinnar. Því verður ekki neitað að lagið féll afar vel að raddöndum söngvarans Guðmundar Ingólfssonar sem þá var rétt kominn yfir tvítugt. Við urðum svo auðvitað að endurtaka það sex, átta eða tíu sinnum um kvöldið og ég er ekki frá því að einhverjar ungmeyjar hafi fellt ofurlítið aðdáunartár við brún hljómsveitarpallsins og fótskör meistarans. Eftir að ballið var búið hófst þessi venjubundna rútína sem flestir popparar þekkja svo vel, það var farið að aftengja hljóðfærin, pakka niður og gera okkur klára til heimferðar. Að þessu sinni vorum við einum færri en vanalega, því eftir að við vorum búnir að pakka, gera upp og koma hljóðfærunum út í bíl, var söngstjarnan enn að gefa ungum táningsstúlkum eiginhandaráritanir. Þennan dag öfundaði ég Gumma Ingólfs af kvenhylli sinni.